Heilbrigðisráðuneyti

544/2008

Reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa í hjúkrunarrýmum.

1. gr.

Markmið með reglugerð þessari er að samræma og tryggja heilbrigðisþjónustu við aldraða í hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimili eða sjúkrahúsi, þar sem þeim er hjúkrað sem þarfnast umönnunar og meðferðar. Til að ná því markmiði skal árlega meta heilsufar og aðbúnað einstaklinga í hjúkrunarrýmum. Matið skal byggt á RAI-mælingum (raunverulegum aðbúnaði íbúa).

RAI-mælingar eru byggðar á:

  1. Gagnasafni um heilsufar og hjúkrunarþörf í hjúkrunarrýmum (sbr. MDS-Minimum Data Set).
  2. Matslyklum (RAPS-Resident Asessment Protocol).
  3. Álagsflokkunarkerfi (RUGs III-Resource Utilizations Groups).

2. gr.

Heilbrigðisráðherra skipar sérstaka nefnd, RAI-matsnefndina, sem skal hafa umsjón með RAI-mati og notkun þess í hjúkrunarrýmum. Í nefndinni skulu eiga sæti öldrunarlæknir, félagsráðgjafi, þrír hjúkrunarfræðingar og fulltrúi heilbrigðisráðuneytis sem jafnframt er formaður.

3. gr.

Hjúkrunarfræðingur annast, í samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir, RAI-mat í hjúkrunar­rýmum að undangenginni þjálfun.

Markmið með matinu eru:

Að fylgjast með heilsufari og velferð hins aldraða.
Að afla upplýsinga um þarfir og umönnun hins aldraða.
Að afla samræmdra upplýsinga um þarfir stofnana vegan heilbrigðisþjónustu sem reglugerð þessi tekur til.
Að tryggja hámarks gæði heilbrigðisþjónustu og sem besta nýtingu fjármagns.

4. gr.

RAI-mat skal fara fram við upphaf dvalar einstaklings í hjúkrunarrými og reglulega eftir það eftir nánari ákvörðun RAI-nefndarinnar, þó ekki sjaldnar en árlega.

Niðurstöður RAI-mats skulu sendar heilbrigðisráðuneyti þar sem þær skulu varðveittar á tölvutæku formi.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 37. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum, nr. 546/1995.

Heilbrigðisráðuneytinu, 9. júní 2008.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica