Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

640/2006

Reglugerð um sérstaka viðbótarfjárhæð til elli- og örorkulífeyrisþega sem greiðist af Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2006. - Brottfallin

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins skal greiða sérstaka viðbót við bætur til einstaklinga sem eiga rétt á elli- og örorkulífeyrisgreiðslum og bótum þeim tengdum frá stofnuninni á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2006. Viðbótin greiðist út í fimm skipti, í fyrsta sinn 1. ágúst 2006 (fyrir júlí og ágúst) og síðan mánaðarlega 1. hvers mánaðar.

Eftir að reiknaður hefur verið út mánaðarlegur réttur til elli- og örorkulífeyris, tekju­trygg­ingar, tekjutryggingar­auka og heimilis­uppbótar, sbr. 11., 12. og 17. gr. laga nr. 117/1993 um almanna­tryggingar og 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, skal greiða viðbót, sbr. 1. mgr., sem nemur mismun mánaðar­legra rétt­inda og grunn­fjár­hæðar.

Óskert mánaðarleg grunnfjárhæð hinnar sérstöku viðbótar fyrir einhleypan elli­lífeyris­þega er 123.623 kr. og fyrir ellilífeyris­þega í hjúskap eða sam­búð 100.459 kr. Óskert mánaðarleg grunn­fjárhæð viðbótar­innar fyrir ein­hleypan örorku­lífeyris­þega er 124.724 kr. og fyrir örorku­lífeyris­þega í hjúskap eða sambúð 101.560 kr. Grunn­fjárhæð hvers einstakl­ings er fundin með eftir­farandi hætti:

óskert mánaðarleg grunnfjárhæð x (205.000 kr. - mánaðartekjur)
205.000 kr.

Með mánaðartekjum er átt við 1/12 tekna eins og þær eru skilgreindar í 17. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 117/1993. Mánaðartekjur skulu koma til frádráttar óskertri grunnfjárhæð skv. 3. mgr. og fellur viðbótin þannig niður ef útreiknuð grunnfjárhæð reynist jafnhá eða lægri fjárhæð en fjárhæð mánaðarlegra réttinda samkvæmt 2. mgr.

Þeir sem metnir hafa verið til 75% örorku vegna slyss, sbr. 29. gr. laga nr. 117/1993, skulu fá greidda viðbót samkvæmt sömu reglum. Ef örorkulífeyrisþegi fær skertan örorkulífeyri vegna eingreiðslu slysabóta skv. 29. gr. dregst það hlutfall örorkulífeyris sem eingreiðslan nam frá útreiknaðri grunnfjárhæð til viðbótar öðrum frádrætti skv. 3. mgr.

Útreiknuð mánaðarleg grunnfjárhæð skerðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993.

Viðbótin samkvæmt þessari reglugerð hefur ekki áhrif á eingreiðslu sem kveðið er á um í reglugerð nr. 1117/2005 um eingreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2006. Ennfremur hefur viðbótin ekki áhrif til lækkunar á frekari uppbætur skv. 8. gr. reglugerðar nr. 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 66. gr., sbr. 17. og 65. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 15. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. júlí 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica