Umhverfisráðuneyti

250/1976

Reglugerð um tilbúning og dreifingu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um tilbúning og dreifingu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara.

 

I. KAFLI

Skýringar á hugtökum.

1. gr.

1.   Matvæli eða neysluvörur eru samkvæmt reglugerð þessari hvers konar vörur, sem ætlaðar eru mönnum til neyslu sem matur eða drykkur, samkv. nánari skil­greiningu 2. gr. laga nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu­- og nauðsynjavörum. Nauðsynjavörur eru samkvæmt reglugerð þessari hvers konar áhöld og efni, sem notuð eru við tilbúning og dreifingu á matvælum og neysluvörum þ. e. a. s. umbúnaður, geymsla, flutningur, afgreiðsla og önnur meðferð.

2.   Reglugerð þessi fjallar ekki um aðrar neyslu- og nauðsynjavörur en sem segir frá hér að framan sbr. 1. gr. 1. t. d. hreinlætis- og snyrtivörur, klæðnað, húsgögn, eldivið, lækningaáhöld, hjúkrunarvörur, leikföng o, s. frv. sbr. 3. gr. laga nr. 24 frá 1936.

3.   Með reglugerð þessari fylgir sérstakur listi yfir aukefni, sem setja má í matvæli á Íslandi og í hvaða magni. Listanum er skipt niður í A flokk og B flokk. Í A flokki eru öll aukefni, sem talin eru aðgæsluverð (gerviefni ásamt tilgreind­um náttúrulegum efnum) og er notkun þeirra skilgreind til hlítar á listanum. í B flokki er allur þorri náttúrulegra aukefna og sætir notkun þeirra þeim tak­mörkunum, sem kveðið er á um á listanum.

Ráðherra er heimilt að breyta aukefnalistanum að höfðu samráði við Heil­brigðiseftirlit ríkisins og eiturefnanefnd.

 

II. KAFLI

Tilbúningur, dreifing og meðferð matvæla.

2. gr.

1.   Tilbúningur og dreifing á matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar og annarra reglugerða, sem í gildi eru um einstakar vörutegundir og sem settar kunna að verða samkvæmt lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, að svo miklu leyti sem ekki eru í gildi strangari eða ítarlegri fyrirmæli í sérlögum eða reglugerðum.

 

3. gr.

1.   Matvæli, neyslu- eða nauðsynjavörur, sem finnast kunna á stað eða í húsakynnum viðkomandi verslunar, sem slíkar vörur selur eða hefur á boðstólum, skulu taldar hafðar þar á boðstólum, nema annað sé sannað.

2.   Matvæli, neyslu- eða nauðsynjavörur sem finnast kunna á framleiðslustað eða í húsakynnum viðkomandi framleiðslustaðar, sem slíkar vörur framleiðir, skulu taldar framleiddar þar nema annað sé sannað.

 

4. gr.

1. Ekki má búa til matvæli, neyslu- eða nauðsynjavörur í því skyni að hafa þær á boðstólum eða dreifa manna á meðal séu þær taldar hættulegar heilbrigði manna samkv. gildandi lögum og reglugerðum eða auglýsingu ráðherra eða séu þær að öðru leyti vitanlega hættulegar heilbrigði manna er þeirra er neytt eða þær eru notaðar á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt.

2.   Matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur skulu teljast hættulegar heilbrigði manna:          

a.   Þegar sérstök hætta er á að þær geti borið með sér sjúkdóma eða valdið eitrunum.

b.   Þegar þær eru búnar til eða þegar með þær er farið af mönnum, sem haldnir eru næmum sjúkdómum þá þeir vinna að vörunum.

c.   Þegar hætta er á, að starfsmenn geti borið með sér sóttkveikjur næmra sjúk­dóma, þegar þeir vinna að vörunum, þannig að hættulegt kunni að vera að neyta þeirra eða nota þær.

 

5. gr.

1.   Við tilbúning og dreifingu á matvælum, neyslu- og nauðsynjavörum, skal gæta þess hreinlætis og þeirri varkárni, að varan óhreinkist ekki til skemmda eða spillist á annan hátt.

2.   Viðkvæmum matvælum skal halda nægjanlega köldum, og ílát, áhöld, rör, vélar og fleira, sem notað er við framleiðslu og tilbúning slíkra matvæla, skal hreinsa og sótthreinsa vandlega með viðurkenndum aðferðum.

3.   Matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur má ekki hafa á boðstólum né dreifa manna á meðal, þegar þær geta talist miður hæfar til neyslu eða notkunar vegna hættu­legra breytinga, skemmda, óhreininda eða af öðrum ástæðum.

 

6. gr.

1.   Vatn, sem notað er við tilbúning á matvælum og neysluvörum eða til hreinsunar á ílátum og áhöldum, sem notuð eru við tilbúning og dreifingu þeirra, skal full­nægja þeim kröfum, sem gerðar eru til neysluvatns á hverjum tíma. Sjór, sem notaður er í sama tilgangi skal vera hreinn samkvæmt viðurkenndum stöðlum.

2.   Ís, sem notaður er á tilsvarandi hátt, skal fullnægja þeim hreinlætiskröfum, sem gerðar eru til neysluvatns, þegar hann snertir vöruna beinlínis bráðinn eða óbráðinn.

3. Notkun freóns (Diklórdifluormetan) til frystingar er því aðeins leyfð, að fengið sé samþykki Heilbrigðiseftirlits ríkisins hverju sinni og þá skal gæta eftirfarandi skilyrða

a.   Frystivökvinn skal vera minnst 99.97 % freón.

b.   Matvæli, sem fryst hefur verið með freónvökva, skal ekki innihalda meira en 100 mg/kg (PPM) freón strax eftir afþýðingu.

 

7. gr.

1.   Matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur má ekki hafa á boðstólum eða dreifa manna á meðal á nokkurn þann hátt, sem fallinn er til að blekkja kaupanda eða mót­takanda á uppruna þeirra, tegund, samsetningu, eðli, áhrifum, magni, verðgildi, eða öðru þess háttar. Þegar dæmt er um þessi atriði, skal sérstaklega tekið tillit til þess nafns, sem vörunni er gefið og þeirra upplýsinga, sem um hana eru birtar í auglýsingum, hvort heldur er í orðum eða myndum, sem festar eru á vöruna sjálfa eða á umbúðir hennar eða á annan hátt.

2.         Nafn á matvælum, neyslu- og nauðsynjavörum telst blekkjandi:

a.   Þegar í vöruna vantar að nokkru eða öllu leyti einhver þau efni eða þegar vöruna skortir þá eiginleika, sem varan eftir tíðkanlegri merkingu nafnsins á að innihalda eða hafa til að berg.

b.         Þegar annarleg efni eru í vörunni.

c.   Þegar í vörunum eru leifar af hráefnum eða öðrum efnum, sem bætt er í þær meðan á framleiðslu stendur í ríkara hlutfalli en vera ber eftir tíðkanlegri merkingu nafnsins.

3.   Reglugerðir, sem í gildi eru eða settar kunna að verða um sérstakar tegundir af matvælum, neyslu- og nauðsynjavörum, skulu lagðar til grundvallar þegar dæmt er um þau atriði, er þessi grein, 5. gr. og 6, gr. fjalla um.

 

8. gr.

1.   Matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur, sem boðnar eru til sölu eða hafðar eru á boðstólum, eða dreift manna á meðal, mega ekki innihalda önnur aukefni en þau, sem leyfð eru í gildandi lögum og reglugerðum, eða auglýsingum ráðherra.

2.   Ef boðin er til sölu aukefnablanda, skal telja fram efni á umbúðum í lækkandi röð eftir magni með þeim merkingum, sem notaðar eru á aukefnalista, sem í gildi er hverju sinni. Ef hámarksákvæði gilda um einstök efni blöndunnar, samkv. aukefnalistum, skal það auðkennt í hundraðshlutum af heildarþyngd blöndunnar.

3.   Fæðu ætlaða smábörnum (barnafæða) má ekki setja á markað, nema að leyfi Heilbrigðiseftirlits ríkisins komi til.

4.   Litarefni má ekki nota á þann hátt, að það leyni því, að matvara sé skemmd eða heilsuspillandi eða líti út fyrir að vera af betri gæðaflokki en hún í raun og veru er.

 

III. KAFLI

Merking umbúða.

9. gr.

1. Neysluvörum í luktum umbúðum eða hylkjum (dósum, flöskum, öskjum, loft­þéttum umbúðum úr gerviefnum og þar um líkum) má ekki dreifa til sölustaða án þess að nafn og heimilisfang framleiðanda, pökkunarfyrirtækis, umboðsmanns, innflytjanda, útflytjanda eða seljanda og þar sem það á við nafn framleiðslu­fyrirtækis og framleiðslustaðar sé skráð á umbúðirnar.

2.   Djúpfrystar neysluvörur (undir ÷ 25° C) skal framleiðandi, eftir atvikum umboðsmaður eða innflytjandi, merkja með "Djúpfryst" á umbúðirnar.

3.   Heilbrigðiseftirliti ríkisins er heimilt að setja fyrirmæli þess efnis, að gefin skuli upp nettóþyngd vörunnar og jafnframt sett nánari ákvæði um merkingar vegna sölu á viðkvæmum matvælum.

4.   Þegar um samsettar neysluvörur er að ræða, sem seldar eru í luktum umbúðum eða hylkjum, ákveður Heilbrigðiseftirlit ríkisins að hve miklu leyti skýring skuli fylgja á samsetningu vörunnar áður en hún er seld. Heilbrigðiseftirlit ríkisins getur einnig ákveðið, að magn aðalefnanna sé gefið upp fyrir einstakar vöru­tegundir.

5.   Þar sem þess er krafist, að ákveðins nafns á matvælum, neyslu- og nauðsynja­vörum eða ákveðins eiginleika þeirra sé getið á umbúðum varanna, á einkennis­miðum eða á annan hátt, þá skal það Gert með greinilegum bókstöfum og jafn­litsterkum þeim, sem notaðir eru við aðalauðkenningu vörunnar. Bókstafirnir skulu vera 3 mm að hæð í minnsta lagi og þeim komið þannig fyrir að auðvelt sé fyrir kaupanda að taka eftir þeim, þegar sala fer fram. Sé ekki annað ákveðið, skal auðkenning vera á íslensku. Sé einhver auðkenning aðeins leyfð með sér­stökum skilyrðum, skulu þau einnig gilda um auðkenningu á erlendum málum.

6.   Skrá skal pökkunardagsetningu og geymsluþol á umbúðir vöru, sem dreift er til verslana frá framleiðslustað, sé varan í luktum neytendaumbúðum eða hrað­fryst en ekki niðursoðin (dauðhreinsuð) og sé um að ræða nýtt kjöt eða nýjan fisk eða vörur unnar úr kjöti eða fiski. Sama gildir um viðkvæmt álegg úr kjöti eða fiski ásamt öðrum viðkvæmum matvörum. Skráning á umbúðir í þessu til­viki skal vera þannig: "Pakkað... " "Nothæft til ..."

7. Veita má undanþágu frá pökkunardagsetningu á vörunni ef framleiðandi hefur gefið heilbrigðisnefnd á framleiðslustað skriflega tilkynningu um það, hve langan tíma hann reiknar frá pökkunardegi til síðasta söludags (skráð eftir "nothæft til .....").

Komist framleiðandi síðar að því að lengja megi þennan tíma eða að stytta þurfi tímann, sem geyma má vöruna, þarf að senda tilkynningu um það til við­komandi heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefndum ber að senda Heilbrigðiseftir­liti ríkisins afrit af slíkum tilkynningum framleiðanda.

8.   Við sölu og dreifingu á matvælum, sem nefnd eru í 6. tl. þessarar greinar skal auðkenna umbúðir með "Geymist í kæli".

9.   Við sölu og dreifingu barnamatar og áleggs, skal getið um aðalefni vörunnar á umbúðum.

 

IV. KAFLI

Leyfisveitingar.

10. gr.

1.   Sá, sem vill reka sláturhús, búa til matvæli eða neysluvörur, eða selja eða dreifa manna á meðal kjöti, kjötmeti, nýjum fiski, fiskmeti, mjólk, mjólkurafurðum, brauði, kökum, ávöxtum, aldinum eða grænmeti, skal sanna fyrir lögreglustjóra, m. a, með vottorði héraðsdýralæknis og viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Heilbrigðiseftirlits ríkisins, að hann fullnægi skilyrðum laga nr. 24/1936, þessarar reglugerðar og öðrum ákvæðum, sem sett hafa verið eða sett kunna að verða um þess háttar starfsemi. Lögreglustjóri veitir leyfi til starfseminnar þegar settum skilyrðum er fullnægt, og má hún ekki hefjast fyrr. Sama gildir ef starf­semin er flutt, skipt er um eiganda, eða breytt er um starfssvið.

2. Venjulega heimilisframleiðslu á landbúnaðarafurðum er ekki skylt að tilkynna, né heldur sölu á nýjum fiski, er sjómenn sjálfir annast um beint upp úr bát eða á lendingarstað.

 

V. KAFLI

Húsakynni.

11. gr.

1.   Þar sem tilkynningaskyld starfsemi, skv. 10. gr. er rekin, skulu húsakynni vera rúmgóð og björt, loftræsting góð, hægur aðgangur að ómenguðu, heitu og köldu neysluvatni og gott frárennsli. Gólf, veggir, loft og þök skulu vera þétt og ásamt borðum, hillum og öðrum innanstokksmunum þannig úr garði gerð að auðvelt sé að gera þau hrein.

2.   Fjöldi og stærð herbergja skal miðast við eðli og magn starfseminnar. Herbergi, þar sem matargerð fer fram, skal hafa 8 fermetra frían gólfflöt fyrir hvert vinnu­stæði þegar frá er dreginn sá flötur, sem ýmiss konar vélar og gólffastur búnaður taka. Vinnuborð og lausir bekkir skulu ekki metnir sem fastur búnaður. Heil­brigðisnefnd eða Heilbrigðiseftirlit ríkisins, geta veitt undanþágu frá þessu, þegar slíkt er talið forsvaranlegt.

3. Húsakynni verða að hafa góða lýsingu. Á vinnustað, þar sem matargerð og upp­þvottur fer fram, skal ljósstyrkur vera minnst 100 lux. Þessi húsakynni mega ekki vera í beinu sambandi við íbúðarherbergi og ekki má þannig til haga að óþefur, eða óþverri geti borist þangað frá salernum, mykjuhaugum, gripahúsum, haughúsum og öðru því líku.

4.   Starfsfólk skal eiga auðveldan aðgang að þrifalegu salerni og handlaug með rennandi heitu og köldu vatni, sbr. nánar 62. gr, heilbrigðisreglugerðar nr. 45/1972.        

5.   Halda skal húsakynnum þessum vel hreinum og ekki má nota þau til annars en þess, sem þau eru ætluð til. Í þeim má ekki geyma vörur, sem flýtt geta fyrir skemmdum í matvælum eða sem vegna lyktar sinnar eða bragðs eða á annan hátt geta valdið því, að þau verði óhæf eða miður hæf til neyslu.

6.   Húsakynni skulu vera rottu- og músaheld og séð skal um útrýmingu á flugum, kakkalökkum og öðrum meindýrum.

 

12. gr.

1.         Á stöðum, þar sem matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur eru búnar til, geymdar eða hafðar á boðstólum, má ekki geyma eða nota eiturefni eða hættuleg efni.

2.   Héraðsdýralæknir leiðbeinir um geymslu og notkun eiturefna til hreingerninga og sótthreinsunar í samvinnu við eiturefnanefnd.

 

VI. KAFLI

Gerð íláta, áhalda, véla og umbúða.

13. gr.

1. flát, áhöld, vélar og umbúðir, sem notaðar eru á þeim stöðum, sem nefndir eru í 12. gr., eða sem geta snert matvæli, neyslu- og nauðsynjavörur, sem dreifa skal manna á meðal, skulu vera þannig úr garði gerð, að þau skaði ekki né mengi matvælin, neyslu- eða nauðsynjavöruna.

2. Notkun glerhúðaðra (emaleraðra) íláta og áhalda og svonefndra "patent"-tappa (flöskuloka með gúmmíþéttingu) er bönnuð. Ekki má búa um matvæli, neyslu­eða nauðsynjavöru, pappír, plast eða aðrar umbúðir, sem eru litaðar, málaðar, gljáðar eða prentaðar með eitruðum litum eða öðrum eiturefnum t. d. sam­böndum af arsen, barium, krómi, nikkel, blýi, kadium, kvikasilfri, þannig að hætta geti verið á því að eitthvað af þessum efnum komist í vöruna.

Eigi má heldur búa um slíkt í málmþynnur úr öðru en aluminium eða tini.

 

VII. KAFLI

Starfsfólk.

14. gr.

1.   Starfsfólk, sem vinnur við fyrirtæki, sem tilkynningaskyld eru samkv. 10, gr. og sem afgreiðir fólk, býr til og sýslar með eða kemur á annan hátt í snertingu við matvæli og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur, skal ástunda strangasta per­sónulega hreinlæti og þrifnað í meðferð vörunnar. Starfsfólk, sem fæst við við­kvæman mat og drykkjarvörur, skal íklætt hreinum og heilum vinnufötum og hafa höfuðfat (hettu, skýluklút eða hárnet, húfu). Heilbrigðisnefnd getur ákveðið að vinnuföt og höfuðbúnaður skuli vera hvítur. Hendur skal ávallt þvo strax eftir að þær hafa komist í snertingu við eitthvað, sem óhreinkar þær, m. a. eftir viðkomu á salerni, eftir tóbaksreykingar og annars svo oft sem þurfa þykir. Sár og rispur skal hylja með hentugum vatnsþéttum umbúðum.

2.   Starfsfólk, sem er með smitandi sjúkdóma (þ. á m. hálsbólgu, vessandi sár eða kýli, útferð úr eyrum) má ekki starfa í matvælaiðju eða matvöruverslun.

 

15. gr.

1.   Heilbrigðisyfirvöld geta krafist læknisskoðunar þegar starfsfólk er ráðíð til starfa víð tilkynningarskyld fyrirtæki samkv. 10. gr. Ennfremur geta heilbrigðis­yfirvöld krafist reglulegra heilsufarsskoðana starfsfólks, sem vinnur í fyrir­tækjum, sem framleiða, matbúa og/eða sýsla með mat og drykkjarföng, sem ætluð eru á markað. Þó skal heilbrigðisvottorð yngra en mánaðargamalt tekið gilt.

 

VIII. KAFLI

Undanþágur.

16. gr.

1. Heilbrigðiseftirlit ríkisins getur veitt framleiðslu- eða dreifingaraðilum matvöru skammtímaundanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar, enda sé undanþágan eingöngu miðuð víð það, að tími gefist til að breyta aukefnaíblöndun í matvæli og auðkenningu á umbúðum í samræmi víð reglugerð þessa.

2. Hvað snertir undanþágubeiðnir um starfsfólk, tæki, húsakynni og því um líkt, skal leita til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar, sem ber þá að gæta ákvæða heil­brigðisreglugerðar nr. 45/1972, þ. e. a. s. 211, greinar.

 

IX. KAFLI

Viðurlög og málsmeðferð.

17. gr.

1.   Við brotum gegn reglugerð þessari skal refsað með sektum en með varðhaldi ef sakir eru miklar.

2.   Ef aðilar sinna ekki innan tiltekins frests fyrirmælum heilbrigðisnefndar, getur hún ákveðið dagsektir allt að kr. 2 000.00 þar til úr er bætt.

3.         Dagsektir renna í sveitarsjóð.

 

18. gr.

1.   Með mál, sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari, skal farið að hætti opin­berra mála.

 

X. KAFLI

Gildistaka.

19. gr.

1.   Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 24/1936 um eftirlit með mat­vælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og með stoð í lögum nr. 12/1969 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og með stoð í lögum nr. 85/1968 um eitur­efni og hættuleg efni, öðlast gildi 1. mars 1977.

2.   Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð um tilbúning og dreifingu á mat­vælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum frá 15. júlí 1936, svo og ákvæði annarra reglugerða, sem kunna að brjóta í bága víð reglugerð þessa, nema samsvarandi ákvæði, sem ganga lengra og eru nákvæmari.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 31. maí 1976.

 

Matthías Bjarnason.

Jón Ingimarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica