REGLUGERÐ
um iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna.
1. gr.
Útgerðarmenn fiskiskipa skulu tryggja hjá Tryggingastofnun ríkisins áhættu vegna bótaskyldra slysa sbr. III. kafla laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir útgerðarmönnun fjárhæð sem svarar til fulls kaups og/eða aflahlutar sjómanna í allt að tvo mánuði.
2. gr.
Útgerðarmenn skulu greiða iðgjald sem nemur 0,65% af samanlögðum launum og aflahlut sjómanna sem hjá þeim starfa hverju sinni.
3. gr.
Skattstjórar annast ákvörðun iðgjalds samkvæmt reglugerð þessari og skal það innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra. Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu iðgjalds samkvæmt þessari reglugerð. Iðgjaldið innheimtist mánaðarlega ásamt tryggingagjaldi. Að tekjuári liðnu skal fara fram endanleg ákvörðun iðgjaldsins í samræmi við launaframtal og skal iðgjaldið sérgreint í álagningarskrá og skattskrá. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila samkvæmt reglugerð þessari og skal eftir atvikum leita staðfestingar hans á iðgjaldi útgerðaraðila þegar bótaskylda Tryggingastofnunar ríkisins er ákvörðuð.
4. gr.
Útgerðarmenn sem þess óska geta sagt upp tryggingu skv. reglugerð þessari fyrir 1. nóvember ár hvert vegna næsta árs á eftir. Tilkynning um uppsögn skal berast Tryggingastofnun ríkisins. Eftir að uppsögn hefur öðlast gildi eiga útgerðarmenn ekki rétt á greiðslum vegna launa eða aflahlutar í forföllum vegna slysa en njóta slysatrygginga almennra launþega.
5. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 63. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sbr. 32. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, öðlast gildi 1. janúar 1998.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 10. nóvember 1997.
Ingibjörg Pálmadóttir.
Jón Sæmundur Sigurjónsson.