Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

306/1972

Reglugerð um félagsmála- og upplýsingadeild Tryggingastofnunar ríkisins - Brottfallin

REGLUGERÐ

um félagsmála- og upplýsingadeild Tryggingastofnunar ríkisins.

1. gr.

Við Tryggingastofnun ríkisins skal starfa deild er annist velferðarmál aldraðra og annarra bótaþega almannatrygginga og sjái um kynninga- og upplýsingaþjónustu á vegum Tryggingastofnunarinnar, allt samkvæmt því sem ákveðið er í þessari reglugerð.

2. gr.

Nafn deildarinnar skal vera félagsmála- og upplýsingadeild Tryggingastofnunar ríkisins.

3. gr.

Verkefni deildarinnar eru:

1. Að standa fyrir rannsóknum á þeim vandamálum er aldraðir og öryrkjar hafa sérstaklega við að stríða, svo sem fjárhagsafkomu þeirra, atvinnumálum, húsnæðismálum og vistunarmálum yfirleitt hvort heldur er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða dvalarheimilum.

2. Að gera tillögur um lausn þeirra vandamála er í ljós koma við athuganir deildarinnar til Tryggingastofnunar ríkisins, viðkomandi ráðuneyta, sveitarfélaga eða annarra aðila, sem talið er að gætu unnið að lausn þeirra.

3. Að örva og styðja hvers konar félagsstarfsemi fyrir aldraða og öryrkja og hafa að þessu leyti samvinnu við stofnanir sveitarfélaga eða félagasamtaka sem að þessum málum vinna.

4. Að fylgjast með þróun og nútíðar viðhorfum vandamála aldraðra og öryrkja í nágrannalöndum og kynna þau mál heima fyrir.

5. Að annast upplýsingastarfsemi og útgáfu leiðbeiningarrita fyrir bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins og aðra um bótakerfi Tryggingastofnunarinnar og rétt einstaklinganna í kerfinu.

6. Að vinna með öðrum tiltækum ráðum að lausn þeirra vandamála er aldraðir og öryrkjar hafa við að stríða.

4. gr.

Félagsmála- og upplýsingadeild starfar sem sérstök deild innan lífeyristrygginga Tryggingastofnunar ríkisins undir stjórn sérstaks deildarstjóra er ráðherra skipar samkv. 3. gr. laga nr. 67/1971. Allur kostnaður er af starfsemi deildarinnar leiðir greiðist á sama hátt og annar kostnaður lífeyristrygginga.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkv. heimild í 79. gr. laga nr. 67/1971 og öðlast gildi þegar í stað.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 21. nóvember 1972.

Magnús Kjartansson.

Jón Ingimarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica