REGLUGERÐ
fyrir Þroskaþjálfaskóla Íslands.
I. KAFLI
Hlutverk skólans.
1. gr.
Þroskaþjálfaskóli Íslands er ríkisskóli og starfar undir yfirstjórn heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins.
2. gr.
Hlutverk skólans er að veita nemendum fræðilega þekkingu og starfsþjálfun til þess að gegna uppeldi, umönnun og þjálfun þroskaheftra.
Leggja skal áherslu á uppeldisleg markmið, hjúkrun og starfshætti þeirra stofnana, sem skólinn menntar starfslið til. Stefnt skal að því að efla alhliða þroska nemenda, þjálfa sjálfstæða hugsun og sjálfstæð vinnubrögð, jafnframt því sem lögð skal áhersla á samvinnu í hópstarfi, hugkvæmni, alúð og skyldurækni í starfi.
Skólinn skal leitast við að fylgjast sem gerst með nýjungum.
3. gr.
Skólinn skal annast símenntun þroskaþjálfa. Skal sú fræðsla miðast annars vegar við upprifjun og endurhæfingu fólks, sem ekki hefur verið í starfi um skeið og hins vegar við símenntun fólks í starfi.
II. KAFLI
Stjórn skólans.
4. gr.
Heilbrigðismálaráðherra skipar stjórn skólans þannig: þrjá án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður. Einn samkvæmt tilnefningu Félags þroskaþjálfa og hinn samkvæmt tilnefningu Félags þroskaþjálfanema.
Stjórn skólans skal skipuð til þriggja ára nema fulltrúi Félags þroskaþjálfanema, sem skipaður skal árlega.
Skólastjórn skal fylgjast með því, að skólinn starfi samkv. lögum og reglum, sem honum eru settar.
Skólastjórn gerir tillögur til heilbrigðisráðuneytisins um húsnæði skólans og búnað. Skal þar farið eftir almennum reglum um skóla, sem eru í gildi á hverjum tíma en auk þess skal taka tillit til sérþarfa skólans.
Inntaka nemenda er í höndum skólastjórnar og skólastjóra. Hafi umsækjandi lokið einhverjum þætti námsins annars staðar skal það metið af skólastjóra og skólaráði.
Skólastjóri og skólastjórn fjalla um brottvikningu nemenda úr skóla, svo og meiri háttar frávik frá reglulegu námi.
Skólastjórn gerir tillögur til heilbrigðismálaráðherra um ráðningu skólastjóra. Skólastjórn gerir tillögur til heilbrigðismálaráðherra um ráðningu fastra kennara skólans, sem skólastjóri skal áður hafa gert tillögur um til skólastjórnar. Greini skólastjóra og skólastjórn skal leggja tillögur skólastjóra fyrir ráðherra jafnframt tillögum skólastjórnar.
Skólastjóri ræður stundakennara með samþykki skólastjórnar. Skólastjórn gerir tillögur árlega til ráðherra um fjárveitingu til skólans. Skulu þær tillögur byggjast á :áætlun skólastjóra og liggja fyrir við undirbúning fjárlagafrumvarps.
Haldin skal gerðabók yfir fundi skólastjórnar.
5. gr.
Við skólann skal starfa skólaráð skólastjóra til ráðuneytis. Skólaráði skal skipað þrem kennurum og tveim fulltrúum nemenda og skulu þeir kosnir til eins árs að vori.
6. gr.
Skólastjóri hefur sem framkvæmdastjóri skólastjórnar yfirumsjón með rekstri skólans, húsum hans og munum, framkvæmdum og fjárreiðum öllum.
III. KAFLI
Starfslið skólans.
7. gr.
Skólastjóri skal skipaður af heilbrigðismálaráðherra og skal hann hafa lokið háskólaprófi í uppeldis- og sálarfræði eða hafa lokið sérkennaraprófi frá viðurkenndum háskóla. Skólastjóri skal einnig hafa staðgóða þekkingu á uppeldi og umönnun fólks með sérþarfir.
8. gr.
Fastakennara skal ráða að skólanum eftir þörfum og stundakennara í þá kennslu, sem fastir kennarar anna ekki eða hafa ekki menntun til. Verknámskennarar skulu hafa lokið prófi frá þroskaþjálfaskóla Íslands eða sambærilegum erlendum skólum og hafa unnið a.m.k. í 3 ár sem þroskaþjálfarar. Undanþágu frá þessum ákvæðum má veita ef sérstaklega stendur á. Fulltrúi skal annast störf á skrifstofu skólans, bókhald, vélritun, bókavörslu og hvers konar daglega afgreiðslu. Hann skal annast skjalavörslu eftir nánari fyrirmælum skólastjóra. Einnig má fela honum önnur störf eftir því sem tími leyfir og þörf krefur.
IV. KAFLI
Inntaka nemenda í skólann.
9. gr.
Inntökuskilyrði í skólann eru:
1. Umsækjandi skal a. m. k. hafa lokið námi úr 2. bekk í samræmdum framhaldsskóla (fjölbrautarskóla) í þeim námsgreinum, er skólinn gerir kröfur til eða hliðstæðu námi. Umsækjendur, sem hlotið hafa frekari menntun t.d. lokið stúdentsprófi, skulu að öðru jöfnu ganga fyrir um skólavist, svo og þeir sem hlotið hafa frekari starfsreynslu.
2. Æskilegt er að umsækjandi hafi starfað 4-6 mánuði á stofnun þar sem þroskaheftir dveljast.
3. Heimilt er að veita umsækjanda skólavist þótt hann fullnægi ekki kröfum 1. töluliðs með hliðsjón af hæfnisprófum eða öðrum tiltækum matsaðferðum. Skal við mat á slíkum umsóknum m.a. hafa í huga að umsækjandi hafi næga þekkingu til að geta tileinkað sér námsefni skólans.
4. Læknisvottorð skal fylgja umsókn um skólavist.
5. Umsækjandi skal vera 18 ára gamall.
10. gr.
Inntaka nemanda er í höndum skólastjórnar og skólastjóra samkvæmt nánari reglum, sem þau setja sér.
V. KAFLI
Námstími og námsefni.
11. gr.
Námstími skal vera 3 ár. Skólaár hefst 1. september og því lýkur 31. maí.
12. gr.
Námið er bæði bóklegt og verklegt. Bóknám skal vera í eftirfarandi greinum.
Uppeldisfræði, félagsfræði, móðurmálsgreinum, hand- og tónmennt og heilbrigðisgreinum. Auk þess skulu haldnir sérstakir fyrirlestrar og sýndar fræðslumyndir. Nánari fyrirmæli um námsefni skulu vera í kennsluskrá.
13. gr.
Verklega námið fer fram á stofnunum og skólum sem skólastjórn viðurkennir og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið samþykkir og skal nemandinn starfa á deild með þroskaþjálfa.
VI. KAFLI
Próf og námsmat.
14. gr.
Í lok kennslu hverrar námsgreinar skulu fara fram próf eða námsmat. Til þess að standast próf þarf nemandi að kunna skil á minnst 50% þess námsefnis, er hefur verið kennt. Nemanda er heimilt að endurtaka próf einu sinni og heimil endurseta í bekk einu sinni.
Á sama hátt skulu nemendur standast kröfur skólans í verknámi og undirbúning þess og úrvinnslu. Skólanum er heimilt að nota bókstafi eða tölustafi til einkunnagjafa.
15. gr.
Við brautskráningu frá skólanum fá nemendur skírteini.
16. gr.
Skólastjóra er heimilt að óska eftir prófdómara í prófgreinar og skal þá leita samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
VII. KAFLI
Gildistaka.
17. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 1. gr. laga frá 12. apríl 1977 um breyting á lögum nr. 53/1967 um fávitastofnanir og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 207/1971 um Þroskaþjálfaskóla Íslands.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 4. júlí 1977.
Matthías Bjarnason.
Páll Sigurðsson