1. gr.
Innheimta verðmiðlunargjalds.
Greiða skal verðmiðlunargjald af kindakjöti, sem nemur kr. 5,00 af hverju kg kjöts sem selt er frá afurðastöð á innanlandsmarkað og skal tekjum af gjaldinu varið til verkefna samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 99/1993, með síðari breytingum.
Bændasamtök Íslands annast álagningu gjaldsins samkvæmt söluskýrslum afurðastöðva og innheimta það mánaðarlega hjá afurðastöðvunum. Gjalddagi er 25. dagur næsta mánaðar eftir sölu og eindagi 30 dögum síðar.
Verðmiðlunargjald kindakjöts er aðfararhæft.
2. gr.
Skipting tekna milli verkefna.
Markaðsráð kindakjöts sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa gerir fyrir 1. mars ár hvert tillögu til landbúnaðarráðherra um skiptingu árlegra tekna af verðmiðlunargjaldi milli eftirfarandi verkefna:
a. Markaðs- og kynningarstarfsemi.b. Jöfnunar á flutningskostnaði kindakjöts.c. Jöfnunar á flutningskostnaði á sláturfé.
Verja skal að hámarki 65% af árlegum tekjum til markaðsstarfs, að hámarki 45% til jöfnunar á flutningskostnaði kindakjöts og að hámarki 10% til jöfnunar á flutningskostnaði sláturfjár.
Aldrei má ráðstafa meiru en árstekjum af verðmiðlunargjaldi samanlagt til ofangreindra verkefna.
Beina skal umsóknum um styrki til Bændasamtaka Íslands sem hafa umsjón með greiðslu gjaldsins. Umsóknum um styrki til jöfnunar á flutningskostnaði skulu fylgja gögn sem staðfesta magn og vegalengd.
3. gr.
Styrkir til markaðs- og kynningarmála.
Markaðsráð kindakjöts metur þörfina fyrir markaðs- og kynningarstarfsemi hverju sinni. Við mat og framkvæmd á verkefnum skal m.a. gætt eftirfarandi:
1. Velja skal að öðru jöfnu verkefni sem nýtast öllum afurðastöðvum óháð legu þeirra og stærð.
2. Nýta skal hagkvæmni stærðar til þess að ná niður kostnaði við hvert einstakt verkefni.
4. gr.
Jöfnun flutningskostnaðar kindakjöts.
Reikna skal hámark flutningsjöfnunar frá sláturstað til aðalmarkaðar þannig:
1. Sláturleyfishafi ber allan kostnað við flutning kindakjöts fyrstu 100 km ef flutt er landveg og hliðstætt hlutfall ef flutt er sjóveg. Lestun og losun er innifalin í þessum kostnaði.
2. Fyrir hvern einfaldan km sem flutt er umfram 100 km greiðist flutningsjöfnun, kr. 1,35 pr. kg kjöts að meðaltali á hverja 100 km. Sama fjárhæð greiðist þótt flutt sé sjóleiðis milli sömu staða.
3. Fari styrkþörf samkvæmt þessari grein fram úr ráðstöfunarfé eftir skiptingu sem ákveðin hefur verið samkvæmt 2. gr., skal lækka styrki hlutfallslega jafnt til allra aðila.
5. gr.
Jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé.
Reikna skal hámark flutningsjöfnunar frá framleiðendum til afurðastöðva á eftirfarandi hátt:
1. Ekki er greidd flutningsjöfnun vegna flutnings sláturfjár fyrstu 150 km.
2. Fyrir hvern einfaldan km sem flutt er umfram 150 km greiðast kr. 1,50 á hvert lamb eða fullorðna kind.
Aldrei skal jafna kostnað vegna flutnings sláturfjár lengri leið en að næstu afurðastöð sem hefur raunhæfa möguleika á að taka við viðkomandi fé til slátrunar að mati markaðsráðs kindakjöts.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 27. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 469/1996 ásamt síðari breytingum.
Landbúnaðarráðuneytinu, 23. ágúst 2000.
Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.