Sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði telst sjúkratryggður nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 32. gr. og 9. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn og unglingar yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.
Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst sjúkratryggður. Að öðru leyti gildir, um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi, reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.
Heyrnar- og talmeinastöð styrkir kaup á nauðsynlegum hjálpartækjum fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem eru með heyrnarmein sem hér segir:
1. | Fyrir börn yngri en 18 ára eru heyrnartæki greidd að fullu. |
2. | Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu >30 dB<70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz, greiðast kr. 28.000 fyrir hvert heyrnartæki, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði tækis. |
3. | Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu >70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz, er greitt 80% af verði heyrnartækis. |
4. | Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og þurfa sérstök heyrnartæki sem krefjast skurðaðgerðar er greitt samkvæmt eftirfarandi: |
a. | fyrir kuðungsígræðslutæki 90% af verði heyrnartækis; |
b. | fyrir beinskrúfutæki og önnur sambærileg heyrnartæki 80% af verði heyrnartækis. |
5. | Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem um getur í 1., 3. og 4. tölul. fer um greiðsluþátttöku samkvæmt þeim töluliðum. |
6. | Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem hafa tónmeðalgildi á betra eyranu >50 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz, fer um greiðsluþátttöku eins og um getur í 3. tölulið. |
Einstaklingur getur mest notið greiðsluþátttöku fyrir hvert heyrnartæki skv. 1. tölul. 1. mgr. á tveggja ára fresti og skv. 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. á fjögurra ára fresti.
Einstaklingur skv. 1. tölul. 1. mgr. á til viðbótar við framangreint rétt á allt að tveimur pörum af hlustarstykkjum á ári.
Breytist ástand heyrnar umtalsvert að mati sérgreinalæknis í heyrnarfræði (háls-, nef- og eyrnalækningum), áður en tímabil skv. 2. mgr. er liðið, þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki skal greiðsluþátttaka vera í samræmi við 1. mgr.
Heimilt er að útvega nauðsynleg heyrnartæki fyrir þá einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði 2., 3. eða 4. tölul. 1. mgr. eða 2. mgr. án greiðsluþátttöku ríkisins. Tryggt skal að þessir einstaklingar njóti ekki forgangs við úthlutun heyrnartækja umfram þá einstaklinga sem njóta greiðsluþátttöku skv. 1., 2., 3. og 4. tölulið. 1. mgr. og 2. mgr.
Sjúkratryggður einstaklingur sem nýtir sér þjónustu þeirra sem fengið hafa rekstrarleyfi ráðherra, skv. 1. mgr. 37. gr. b. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, til að útvega og selja hjálpartæki og annast nauðsynlega þjónustu vegna þeirra, eiga rétt á kostnaðarþátttöku ríkisins skv. 2. tölul. 1. mgr., 2. mgr. og 4. mgr. 2. gr.
Í þjónustusamningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við rekstrarleyfishafa skal kveðið á um hverjir geti notið greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum vegna heyrnarmeina.
Heyrnar- og talmeinastöð aðstoðar sjúkratryggða einstaklinga við að útvega nauðsynleg hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal II. Í þeim tilvikum er tækið eign Heyrnar- og talmeinastöðvar og skal sjúkratryggður greiða hæfilegt leigugjald sem tekur mið af kostnaði við öflun tækisins og áætlaðan endingartíma þess.
Heyrnar- og talmeinastöð, sbr. 37. gr. a, og rekstrarleyfishafar sbr. 37. gr. b, laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, ber að halda skrár yfir alla þá sem leita eftir þjónustu. Þar skal koma fram kennitala, kyn, sjúkdómsgreining læknis samkvæmt lögbundinni skráningu ICD 10, niðurstöður heyrnarmælinga, númer heyrnartækis ef viðkomandi hefur fengið slíkt tæki, eftirfylgni og fjöldi þeirra sem bíða eftir þjónustu. Þessum upplýsingum ber að skila ársfjórðungslega til landlæknis í samræmi við 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.
Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 10. mgr. sbr. 4. mgr. 37. gr. a og 4. mgr. 37. gr. b laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott reglur nr. 160/1986 um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja fyrir heyrnarskerta, með síðari breytingum.
Barnavakt | Tæki til að heyrnarskert foreldri verði vart við barnsgrát. |
Dyra-/símasendir | Tæki sem sendir dyrabjölluhringingu og símhringingu í móttakara sem notandi hefur. |
Vekjaraklukka | Klukka með titrara sem m.a. er geymd undir kodda. |
Reykskynjari | Reykskynjari með innbyggðum sendi sem sendir boð í móttakara notanda. |
Tónmöskvi með púða | Færanlegur púði með segulsviði sem notandi situr á. Heyrnartæki notanda er stillt sérstaklega til að heyra betur í sjónvarpi/útvarpi og útiloka um leið truflandi hljóð frá umhverfinu. |
Tónmöskvi, 150 fm | Snúra lögð um herbergi sem gegnir sama hlutverki og tónmöskvi með púða, en er ekki færanleg. |
FM tæki | Sérstök tæki, sem gegna sama hlutverki og tónmöskvar en til notkunar í skólastofum. |
Titrari og CH - hleðslutæki | Titrari í vasa og hleðslutæki. |
Hleðslutæki | Hleðslutæki fyrir önnur hjálpartæki. |
Tengibox fyrir heimilislampa | Móttökutæki, tengt lampa/ljósi fyrir boð frá dyrabjöllu, síma o.fl. Unnt er að tengja tvo heimilislampa við eitt tengibox. |
Blikkljós | Stakt blikkljós m.a. í baðherbergi, eldhús eða gang. |
Tactum - armbandsúr með titrara og hleðslutæki | Armbandsúr með titrara og hleðslutæki, tengt búnaði eins og dyrabjöllu, síma o.fl. |
Rafhlöður | Rafhlöður í heyrnartæki. |
Borðmagnari | Búnaður til notkunar á fundum. |
FM tæki | Sérstök tæki, sem gegna sama hlutverki og tónmöskvar en til notkunar á fyrirlestrum í skólastofum. |
Talmagnari | Tæki til að magna upp veika rödd. |
Heyrnarmagnari | Tæki til að magna upp hljóð. |