Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

131/1999

Reglugerð um göngudeildir vegna tilkynningaskyldra smitsjúkdóma og um undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um göngudeildir vegna tilkynningaskyldra smitsjúkdóma

og um undanþágu frá greiðsluhlutdeild sjúklinga.

Göngudeildir smitsjúkdóma.

1. gr.

Göngudeildir smitsjúkdóma fyrir fullorðna skulu vera á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Landspítalanum og fyrir börn á göngudeild smitsjúkdóma á Barnaspítala Hringsins, sbr. þó 2. og 3. gr. Þær annast sjúklinga sem þangað er vísað eða þangað leita vegna tilkynningaskyldra smitsjúkdóma eða annarra alvarlegra smitsjúkdóma eða gruns um slíka sjúkdóma. Hlutverk deildanna er einnig að rekja smit manna á milli og hafa upp á þeim einstaklingum sem kunna að hafa smitast af tilkynningaskyldum sjúkdómum.

2. gr.

Göngudeild kynsjúkdóma skal reka á vegum húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítalans sem stundar greiningu og meðferð sjúklinga sem þangað sækja vegna kynsjúkdóma eða gruns um kynsjúkdóm, þ.e. tilkynningaskyldra sjúkdóma sem smitast aðallega með kynmökum. Hlutverk deildarinnar er einnig að rekja smit manna á milli og hafa upp á þeim einstaklingum sem kunna að hafa smitast af kynsjúkdómum.

3. gr.

Göngudeild sem sinnir berklaeftirliti skal reka á lungna- og berklavarnadeild Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Hlutverk deildarinnar er að greina og meðhöndla berklasmitun og berklaveiki, rekja smit og hafa upp á þeim einstaklingum sem kunna að hafa smitast af berklum og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Göngudeildin skal einnig hafa umsjón með berklaeftirliti í skólum í samráði við sóttvarnalækni.

Læknisrannsókn á umsækjendum um dvalarleyfi á Íslandi.

4. gr.

Göngudeild smitsjúkdóma á Barnaspítala Hringsins, Landspítalanum, skal sjá um læknisskoðun barna undir 16 ára aldri frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins og sótt er um dvalarleyfi fyrir á Íslandi. Þar skal fara fram almenn læknisrannsókn, berklaskoðun og annað smitsjúkdómaeftirlit samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis. Einnig skal kannað ástand bólusetninga og gerðar ráðstafanir til að farið verði að íslenskum reglum um bólusetningar.

5. gr.

Göngudeild berklaeftirlits á Heilsuverndarstöðinni skal sjá um læknisskoðun á þeim einstaklingum sem eru 16 ára eða eldri frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins og sækja um dvalarleyfi á Íslandi. Þar skal fara fram almenn læknisrannsókn, berklaskoðun og annað smitsjúkdómaeftirlit samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis.

Göngudeildir smitsjúkdóma skulu taka við einstaklingum til framhaldsmeðferðar og eftirlits frá berklaeftirliti Heilsuverndarstöðvarinnar vegna annarra smitsjúkdóma en berkla og sömuleiðis verði börnum, þegar þau ná 16 ára aldri, vísað til annarra göngudeilda smitsjúkdóma en barnadeildar til frekara eftirlits vegna tilkynningaskyldra smitsjúkdóma.

6. gr.

Verði ekki við komið að vísa umsækjendum um dvalarleyfi á göngudeild Barnaspítala Hringsins eða til berklaeftirlits Heilsuverndarstöðvarinnar, sbr. 4. og 5. gr., skal eftirlitið fara fram á heilsugæslustöð en hafa skal samráð við göngudeildir smitsjúkdóma eftir því sem við á, sbr. 1.-3. gr.

Læknisrannsókn á einstaklingum sem dvelja skemur en sex mánuði á Íslandi.

7. gr.

Einstaklingur, sem dvelur á Íslandi í skemmri tíma en sex mánuði og íslensk heilbrigðisyfirvöld krefjast að undirgangist skoðun og/eða rannsókn vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm, eða ef staðfest er að viðkomandi hafi veikst af slíkum sjúkdómi og nauðsynlegt er að hefja meðferð án tafar, getur sótt um undanþágu frá sex mánaða búsetuskilyrðinu í 32. gr. almannatryggingalaga, sbr. d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 261/1995 um undanþágur frá lögheimilisskilyrði sjúkratrygginga. Ef slík undanþága er veitt gilda almennar reglur um greiðsluhlutdeild sjúklinga.

Undanþágur frá greiðsluhlutdeild.

8. gr.

Greining og meðferð tilkynningaskyldra smitsjúkdóma, sbr. reglugerð nr. 129/1999 um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma, skal vera sjúklingi, sem leitar til göngudeilda smitsjúkdóma, að kostnaðarlausu. Sama gildir um þá sem kvaddir eru til rannsóknar til leitar að smiti.

9. gr.

Verði ekki við komið að vísa einstaklingum, sem leita til heilsugæslustöðva vegna gruns um tilkynningaskylda sjúkdóma, til göngudeilda smitsjúkdóma skal greining og meðferð á heilsugæslustöð vera einstaklingnum að kostnaðarlausu í samræmi við 8. gr.

10. gr.

Læknisskoðun ásamt greiningu og meðferð tilkynningaskyldra sjúkdóma, sbr. reglugerð nr. 129/1999 um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma, skal vera einstaklingum frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins sem sækja um dvalarleyfi á Íslandi að kostnaðarlausu.

Gildistaka.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 18. gr., sbr. 16. og 17. gr., sóttvarnalaga nr. 19/1997, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 22. febrúar 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.

___________________

Davíð Á. Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica