Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

545/1995

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál nr. 227/1991 - Brottfallin

1. gr.

Við 2. gr. reglugerðarinnar bætast þrjár nýjar málsgreinar sem verða 3., 4. og 5. málsgr. svohljóðandi:

Nú dvelst sjúklingur gegn vilja sínum á sjúkrastofnun og skal þess þá sérstaklega getið í sjúkraskrá. Tilgreina skal hvort tilefni dvalar sé alvarlegur geðsjúkdómur eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna.

Ef sjúklingur dvelst á sjúkrastofnun gegn vilja sínum í allt að 48 klst., án þess að heimild dómsmálaráðuneytis til vistunar hans á stofnuninni skv. 3. málsgr., sbr. 2. málsgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 liggi fyrir, skal í sjúkraskrá geta eftirfarandi:

Hvenær (nákvæm tímasetning) nauðungarinnlögn á sér stað eða hvenær sjúklingur, sem hafði dvalist sjálfviljugur á stofnuninni, óskar eftir að yfirgefa hana.

Þvingaðrar lyfjagjafar sem talin er nauðsynleg, ásamt rökstuðningi fyrir nauðsyn hennar.

Nú dvelst sjúklingur gegn vilja sínum á sjúkrastofnun á grundvelli heimildar dómsmálaráðuneytisins skv. 3. málsgr., sbr. 2. málsgr. 13. gr. lögræðislaga og skal þá í sjúkraskrá geta eftirfarandi:

Dagsetningar heimildarbréfs dómsmálaráðuneytisins.

Hvenær og af hverjum sjúklingi var kynntur réttur sinn til að bera mál undir dómstóla skv. 1. málsgr. 18. gr. lögræðislaga. Starfsmenn sjúkrastofnunar skulu aðstoða sjúkling við að leita til dómstóla, óski hann eftir því, og skal þess þá einnig getið í sjúkraskrá.

Þvingaðrar lyfjagjafar sem er nauðsynlegur þáttur í meðferð, ásamt rökstuðningi fyrir nauðsyn hennar.

Dagsetningar yfirlýsingar dómstóls um að gerð hafi verið krafa fyrir dómi um sviptingu sjálfræðis sjúklings innan 15 sólarhringa frá dagsetningu vistunarheimildar dómsmálaráðuneytis, í þeim tilvikum sem nauðungarvistun varir lengur en í 15 sólarhringa, sbr. 18. gr. lögræðislaga.

Hvenær nauðungarvistun lýkur, sbr. 19. gr. lögræðislaga, annað hvort með útskrift sjúklings eða samþykki hans fyrir áframhaldandi meðferð.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 16. gr. sbr. 18. gr. læknalaga nr. 53/1988 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 13. október 1995.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica