Félags- og tryggingamálaráðuneyti

661/2010

Reglugerð um útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar hjá örorkulífeyrisþegum, sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta.

1. gr.

Heimild til hækkunar tekjuviðmiðs.

Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 18. og 22. gr. laga um almanna­tryggingar nr. 100/2007, er heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun ríkisins. Fjármagnstekjur, sem reiknaðar eru samkvæmt reglugerð þessari og greiddar út frá og með gildistöku hennar, skulu því ekki hafa áhrif á útreikning bóta almannatrygginga.

Hækkun tekjuviðmiðs samkvæmt reglugerð þessari skal koma til viðbótar almennu frí­tekjumarki fjármagnstekna samkvæmt a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almanna­tryggingar.

2. gr.

Upplýsingaskylda umsækjenda.

Þeir sem óska eftir útreikningi samkvæmt reglugerð þessari skulu leggja fram gögn um greiðslu skaðabóta og frádrátt vegna áætlaðs örorkulífeyris og tekjutryggingar samkvæmt 18. og 22. gr. almannatryggingalaga. Tryggingastofnun ríkisins metur hvort gögnin eru fullnægjandi og er heimilt að krefjast allra þeirra upplýsinga sem nauðsyn­legar eru til að unnt sé að taka ákvörðun um hækkun tekjuviðmiðunar.

3. gr.

Útreikningur á hækkun tekjuviðmiðs.

Tryggingastofnun er heimilt hvert ár að hækka tekjuviðmiðun lífeyrisþega miðað við vexti og verðbætur af skaðabótunum reiknuðum með sama hætti og við útreikning á greiðslum jafngreiðslulána.

Árleg úttekt skaðabóta fram til 67 ára aldurs skal í upphafi reiknuð samkvæmt eftir­farandi formúlu: Greiðsla = H*r/(1-(1/(1+r))^n).

Við útreikning tekjuviðmiðunar hvers árs skal reikna:

a) verðbætur á grundvelli neysluvísitölu samkvæmt formúlunni: VB = H*VL/VU-H,

b) vexti samkvæmt sömu vaxtaprósentu og notuð var við eingreiðslu skaðabóta samkvæmt formúlunni:

VX = H*VL/VU*r,

c) úttekt hvers árs samkvæmt formúlunni: ÚÁ = ÚÁs*VL/VU,

d) höfuðstól næsta árs samkvæmt formúlunni: Hn = H+VB+VX-ÚÁ.

Táknin hafa eftirfarandi þýðingu:

H = Höfuðstóll í upphafi árs.
r = Vaxtaprósenta (4,5% á ári eða 0,375% á mánuði).
n = Fjöldi ára sem skaðabætur eru greiddar fyrir.
VU = Neysluvísitala í upphafi árs.
VL = Neysluvísitala í lok árs.
VB = Verðbætur.
VX = Vextir.
ÚÁ = Úttekt ársins.
ÚÁs = Úttekt síðasta árs.
Hn = Höfuðstóll næsta árs.

Fjárhæð fjármagnstekna sem heimilt er að hækka tekjuviðmiðun hvers árs er því samtala a- og b-liðar samkvæmt formúlunni: VB + VX.

4. gr.

Áætlun á hækkanir tekjuviðmiðunar.

Við upphaf hvers árs skal Tryggingastofnun áætla hækkun tekjuviðmiðunar á grundvelli áætlaðra vaxta og verðbóta af skaðabótunum í samræmi við útreiknireglur a- og b-liðar 3. gr. Hækkun tekjuviðmiðunar skal þó aldrei vera hærri en sannanlegar fjármagnstekjur örorkulífeyrisþegans.

Við upphaf og lok þess tímabils sem eingreiðsla skaðabóta er fyrir skal vegna greiðslu fyrir hluta úr ári hækka tekjuviðmiðun fjármagnstekna hlutfallslega.

5. gr.

Endureikningur bóta.

Við endurreikning bóta ársins, sbr. 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga, skal umreikna tekjuviðmiðunina miðað við framlagðar upplýsingar um fjármagnstekjur og endanlegar upplýsingar um breytingu neysluvísitölu.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. og 12. mgr. 16. gr., sbr. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 643/1996 um útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar hjá örorkulífeyrisþegum, sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 5. ágúst 2010.

Árni Páll Árnason.

Ágúst Þór Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica