Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1091/2006

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 460/2003 um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja. - Brottfallin

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á fylgiskjalinu "Hjálpartæki frá Tryggingastofnun ríkisins" með reglugerðinni:

Á flokknum 21 Hjálpartæki til tjáskipta, upplýsinga og viðvörunar verða eftirfarandi breytingar:

Flokkurinn 2151 Viðvörunarkerfi orðast svo:

Öryggiskallkerfi:

TR hefur gert samninga um öryggiskallkerfisþjónustu. Greiðsla TR er háð því að þjónusta sé fengin hjá samningsbundnum fyrirtækjum.

Eftirfarandi gildir um greiðsluþátttöku TR um styrk til kaupa á þjónustu vaktstöðvar:

1. TR er heimilt að taka þátt í kaupum á þjónustu viðurkenndrar vaktstöðvar fyrir einstakling sem er svo sjúkur að honum er nauðsyn á slíkri þjónustu og býr einn eða samvistaraðili er af heilsufarsástæðum ófær um að veita aðstoð, vinnur utan heimilis fullan vinnudag eða er orðinn 67 ára. Greiðsluþátttaka er til allt að þriggja ára í senn. Greiðsluþátttaka getur verið vegna miðtaugakerfissjúkdóma/skaða, sem hafa í för með sér lömun eða flog eða alvarlegra hjarta- og lungnasjúkdóma.

2. Notendur eru flokkaðir í tvo áhættuhópa eftir sjúkdómseinkennum. Í öðrum þeirra eru notendur með sjúkdómsástand sem kallar á sérstök viðbrögð við neyðarboði, en í hinum eru notendur með sjúkdómsástand, sem að jafnaði kallar á almenn viðbrögð við neyðarboði.

3. Greiðsluþátttaka TR tekur aðeins til einkaheimila, en ekki til þjónustuíbúða á vegum sveitarfélaga eða stofnana eða neins forms sambýlis eða stofnana, þar sem TR eða aðrir opinberir aðilar greiða kostnað af rekstrinum eða annast þjónustu/gæslu að verulegu leyti.

4. Greiðsluþátttaka TR skal nema kr. 6.750 vegna frumuppsetningar á viðvörunarkerfi, sem vaktstöð á og þjónustar og TR hefur samþykkt. TR greiðir vaktstöð kr. 5.850 fyrir mánaðarlega þjónustu vegna notkunar viðvörunarkerfisins og viðbragða við boðum. Vaktstöð krefur notanda um það sem mögulega vantar á heildarfjárhæð mánaðarlegs þjónustugjalds.

5. Áður en til greiðslu TR kemur skal liggja fyrir samþykkt umsókn, byggð á nákvæmu vottorði læknis um sjúkdómsástand og þörf fyrir þjónustuna.

6. Eftirtaldar lágmarkskröfur eru gerðar varðandi búnað og þjónustu vaktstöðvar:

a) Allur búnaður skal vera viðurkenndur af þar til bærum aðilum. Boðyfirfærslukerfið skal vera tengt með símalínu við vaktstöð sem starfar allan sólarhringinn og skal það bjóða upp á flutning neyðarboðs ásamt talsambandi við vaktstöð. Annaðhvort skal ástand símalínu og búnaðar prófað með sjálfvirku prófunarboði til vaktstöðvar einu sinni á sólarhring ásamt því að tæki hjá notanda vakti innkomandi línu eða sambandið milli sendibúnaðar notanda og vaktstöðvar skal vera sívaktað. Til viðbótar þessu skal kerfið prófað einu sinni í mánuði með prófunarboðum notenda og auk þess skulu notendur heimsóttir a.m.k. tvisvar á ári til að ganga úr skugga um að þeir kunni að nota búnaðinn.

b) Viðbrögð við neyðarboði, sem leiðir til útkalls, skulu vera í því fólgin, að starfsmaður vaktstöðvar, sem hefur lykla að viðkomandi húsnæði, eða annar þar til bær aðili, fari tafarlaust á staðinn og grípi til viðeigandi ráðstafana.

Viðvörunarbúnaður vegna hættu:

TR er heimilt að taka þátt í greiðslu vegna viðvörunarbúnaðar vegna hættu, s.s. af völdum hita, elds eða reyks, fyrir þá sem eru með minnisskerðingu vegna elliglapa eða heilaskaða.

21 51 03

Öryggiskallkerfi (til ytra kalls í gegnum símakerfi), fastur styrkur m/ákv. hámarki kr. 6.750 í frumuppsetningu og kr. 5.850 í mánaðargjaldi

21 51 06

Krampaviðvörunartæki fyrir flogaveika 70%

21 51 09

Viðvörunarbúnaður vegna hættu, s.s. af völdum hita, elds eða reyks 50% (t.d. fyrir eldavélar)

Á flokknum 12 Ferlihjálpartæki og hjálpartæki við flutning verða eftirfarandi breytingar:

Við 2. mgr. í undirflokknum Rafknúnir hjólastólar í flokknum 1221 Hjólastólar bætist nýr málsliður er orðast svo: Einstaklingur 67 ára eða eldri sem er með skerta færni getur fengið úthlutað einfaldari rafknúnum hjólastól (svokallaðri rafskutlu) til að auðvelda sjálfstæða búsetu að uppfylltum almennum skilyrðum um rafknúna hjólastóla, sbr. hér að framan, enda sé ekki bifreið á heimili hans.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr., sbr. a-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2007.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. desember 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica