Reglugerð um starfsháttu læknaráðs.
Læknaráð velur úr sínum hópi ritara og vararitara.
Ritari heldur gerðabók læknaráðs í heild og undirskrifar ásamt forseta erindi þau, er hann ritar í umboði ráðsins. Læknaráði er heimilt með samþykki ráðherra að ráða starfsmann utan ráðsins til að hafa á hendi skjalavörzlu, gerðabókaritun og önnur ritstörf fyrir ráðið.
Læknaráð starfar í þrem þriggja manna deildum:
1. Réttarmáladeild. Hún er skipuð kennaranum í réttarlæknisfræði við háskólann, sem er formaður deildarinnar, yfirlækni geðveikrahælis ríkisins og yfirlækni handlæknisdeildar Landsspítalans.
2. Heilbrigðismáladeild. Hún er skipuð landlækni, sem er formaður deildarinnar, kennaranum í heilbrigðisfræði við háskólann og yfirlækni lyflæknisdeildar Landsspítalans.
3. Siðamáladeild. Hún er skipuð læknaráðsmanni sérstaklega til þess kjörnum af læknaráði, og er hann formaður deildarinnar, kennaranum í réttarlæknisfræði við háskólann og formanni Læknafélags Íslands.
Réttarmáladeild fjallar um réttarmál, sem ber undir læknaráð, heilbrigðismáladeild um heilbrigðismál og siðamáladeild um mál varðandi hegðun og framkomu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna, sbr. 2. gr. laga nr. 14 1942.
Hver deild heldur sérstaka gerðabók.
Forseti læknaráðs veitir viðtöku erindum, er læknaráði berast, og beinir þeim í samráði við ritara til þeirrar deildar, er þau heyra undir, eða leggur þau fyrir ráðið í heild, ef það þykir eiga við.
Nú er ekki vafi á, að mál, sem læknaráði berst, heyrir ekki undir það, eða mál er borið undir ráðið af öðrum aðila eða á annan hátt en áskilið er, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 14 1942, og er þá forseta, í samráði við ritara, heimilt í umboði ráðsins að vísa málinu frá. Í vafatilfellum er skylt að hafa samráð við þá deild, er helzt má ætla, að um kunni að bera, eða vísa til úrskurðar ráðsins í heild.
Deild læknaráðs hagar störfum í samræmi við ákvæði laga nr. 14 1942, um læknaráð. Henni er heimilt að kveðja sér til aðstoðar og ráðuneytis hvern læknaráðsmann utan deildar sem er. Ef deild æskir ráðuneytis sérfræðings utan læknaráðs, er henni það heimilt í samráði við forseta.
Nú víkur deildarmaður sæti samkvæmt ákvæðum upphafs 5. gr. laga nr. 14 1942, eða fyrir það, að mál, sem deild fjallar um, er utan sérfræðisviðs deildarmanna, og kveðja þá deildarmenn þeir, sem eftir sitja, í samráði við forseta, læknaráðsmann í hið auða sæti, nema ástæða þyki til að æskja þess, að til verði kvaddur sérfræðingur utan ráðsins samkvæmt ákvæðum niðurlags sömu greinar hinna tilvitnuðu laga.
Ef ágreiningur verður milli forseta og deildarmanna um það, hvort deildarmanni beri að víkja sæti, eða hvern kveðja skuli í sæti deildarmanns, sem vikið hefur sæti, eða hvort til skuli kveðja sérfræðing utan ráðsins til ráðuneytis deild, eða hvern sérfræðing, sker læknaráð í heild úr. Læknaráð í heild ákveður og um skipun deildar, ef allir deildarmenn hafa vikið sæti.
Niðurstaða réttarmáladeildar og heilbrigðismáladeildar, hvorrar um sig, um mál, er fullnaðarniðurstaða læknaráðs, nema læknaráðsmaður krefjist, að málið sé borið undir læknaráð í heild.
Siðamáladeild gerir einungis tillögur til læknaráðs um afgreiðslu mála.
Þegar deild læknaráðs hefur lokið afgreiðslu máls, endursendir hún forseta malsskjölin ásamt þríritaðri álitsgerð. Í álitsgerð skal rekja málsatvik þannig, að stutt en glöggt yfirlit fáist yfir öll atriði, sem máli skipta, þegar meta skal niðurstöðu álitsgerðarinnar. Þegar mál ber ekki undir læknaráð í heild, skal forseti gera öllum læknaráðsmönnum kost á því utan fundar að kynna sér skjöl málsins ásamt álitsgerð deildar.
Nú hafa máli verið gerð fullnægjandi skil samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, og afgreiðir þá forseti málið í umboði læknaráðs til rétts hlutaðeiganda.
Forseti og ritari semja að hverju ári liðnu skýrslu til dómsmálaráðherra um starfsemi læknaráðs og búa undir prentun yfirlit yfir þær niðurstöður ráðsins, sem ástæða þykir til að birta almenningi. Skýrsluna og yfirlitið skal bera undir ráðið í heild. Yfirlitið skal birta í Heilbrigðisskýrslum.
Í heilbrigðismálaráðuneytinu, 24. nóvember 1942.
Jakob Möller
Gústav A. Jónasson.