Reglugerð um aðgang að hlutafélagaskrá og samvinnufélagaskrá og gjaldtöku.
Aðgangur að hlutafélagaskrá og samvinnufélagaskrá á tölvutæku formi.
1. gr.
Með samningi við Hagstofu Íslands getur félag fengið afnot af hlutafélagaskrá og samvinnufélagaskrá Hagstofunnar á tölvutæku formi og annast miðlun til annarra á þeim upplýsingum sem skrárnar hafa að geyma. Fyrir slíka heimild skal miðlari greiða Hagstofunni 180.000 kr. árgjald. Jafnframt skal miðlari fyrir hönd Hagstofunnar krefja viðskiptavini sína um 300 kr. gjald fyrir hverja vélræna fyrirspurn úr skránum. Miðlari stendur Hagstofunni skil á þessu gjaldi mánaðarlega. Ekkert gjald skal miðlari þó greiða fyrir fyrstu 600 fyrirspurnirnar ár hvert.
2. gr.
Með samningi við Hagstofu Íslands getur einstaklingur, félag eða stofnun fengið afnot af hlutafélagaskrá og samvinnufélagaskrá á tölvutæku formi til eigin nota á þeim upplýsingum sem skrárnar hafa að geyma. Fyrir slíka heimild skal viðkomandi greiða Hagstofunni 180.000 kr. árgjald. Jafnframt skal viðkomandi greiða Hagstofunni mánaðarlega 300 kr. gjald fyrir hverja vélræna fyrirspurn úr skránum. Ekkert gjald skal þó greiða fyrir fyrstu 600 fyrirspurnirnar ár hvert.
II. KAFLI
Gjöld fyrir vottorð og útskriftir.
3. gr.
Fyrir vottorð hjá Hagstofunni um einstök hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög, sem byggð eru á tölvuskráðum upplýsingum, skal greiða 1.000 kr. gjald. Í vottorði kemur fram heiti félags, heimilisfang, kennitala og póstfang. Þá er getið um rekstrarform, stjórn félagsins, stjórnarformann, framkvæmdastjóra, prókúruhafa og hverjir riti firmað. Endurskoðendur eru tilgreindir svo og hlutafé félagsins. Jafnframt eru útibú tilgreind ef til eru og getið um lausnarskyldu á hlutum og hömlur á meðferð hlutabréfa ef við á. Tilgangi félagsins er einnig lýst.
Fyrir útskriftir hjá Hagstofunni úr tölvuskrá um einstök hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög skal greiða 700 kr. gjald.
4. gr.
Fyrir vottorð um einstök hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög, sem byggja á frekari gögnum en fram koma í tölvuskráðum upplýsingum, skal greiða 1.800 kr. gjald.
III. KAFLI
Gjöld fyrir ljósritun gagna.
5. gr.
Fyrir ljósritun á samþykktum, stofnsamningum og stofnfundargerðum hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga skal greiða 1.000 kr. gjald fyrir fyrstu 20 blöðin. Fyrir hvert blað umfram það skal greiða 50 kr. gjald.
IV. KAFLI
Gildistökuákvæði.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, nr. 2 30. janúar 1995, sbr. 9. gr. laga nr. 41 16. maí 1997, 2. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138 28. desember 1994, sbr. 8. gr. laga nr. 43 16. maí 1997 og 2. mgr. 10. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22 27. mars 1991, sbr. 2. gr. laga nr. 44 16. maí 1997.
Reglugerðin öðlast gildi 1. mars 1998.
Hagstofu Íslands, 4. febrúar 1998.
Davíð Oddsson.
Hallgrímur Snorrason.