Fjármála- og efnahagsráðuneyti

493/2024

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.

1. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Aðili, sem selur virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á heilu almanaksári, getur óskað eftir því við ríkisskattstjóra að nota almanaksár sem uppgjörstímabil á næsta almanaksári. Sækja skal um breytt uppgjörstímabil til ríkisskattstjóra fyrir 15. febrúar vegna yfirstandandi almanaksárs á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til eftirtalinna aðila:

  1. Aðila sem falla undir 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 5. gr.
  2. Aðila sem skráðir eru samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sér­staka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.
  3. Umboðsmanna og annarra sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi skatt­skyld viðskipti, skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.

Þegar velta þess aðila sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil er orðin 4.000.000 kr. eða hærri skal hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila, sbr. 1. gr., gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hefur á sölu og kaup hans á almanaksárinu. Frá og með því uppgjörs­tímabili ber honum að gera upp virðisaukaskatt á gjalddögum almennra uppgjörstímabila skv. 1. mgr. 8. gr.

Aðili sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil skal gera skil á virðisaukaskatti viðkomandi árs á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils sem starfsemi lýkur á.

Hafi aðili sem notar almanaksárið sem uppgjörstímabil ekki skilað lögboðinni virðisaukaskatts­skýrslu vegna undanfarins almanaksárs fyrir ákvörðun virðisaukaskatts skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, skal hann gera upp virðisaukaskatt næsta almanaksárs þar á eftir samkvæmt almennum uppgjörstímabilum, sbr. 1. gr. Ríkisskattstjóri skal tilkynna aðila um breytt uppgjörstímabil sam­kvæmt þessu ákvæði.

 

2. gr.

Í stað "6. mgr." í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: 3. mgr.

 

3. gr.

2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, öðlast þegar gildi.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 9. apríl 2024.

 

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Brynhildur Kr. Aðalsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica