Við 1. gr. reglugerðar nr. 705/2001 (hér eftir "reglugerðarinnar") bætast eftirfarandi skilgreiningar:
Evrópsk tækniforskrift: Sameiginleg tækniforskrift, evrópskt tæknisamþykki eða landsstaðall sem fylgir evrópskum staðli.
Hönnunarsamkeppni: Innlend málsmeðferð þar sem samningsstofnun, einkum á sviði byggingarlistar, verkfræði- eða gagnavinnslu, getur útvegað sér áætlun eða hönnun sem dómnefnd hefur valið að lokinni samkeppni, með eða án verðlauna.
Opinbert fyrirtæki: Hvert það fyrirtæki sem opinber yfirvöld hafa beint eða óbeint yfirráð yfir í krafti eignarhalds á því, fjárfestingar í því eða vegna reglna sem því eru settar. Álitið er að um yfirráð af hálfu opinberra yfirvalda sé að ræða þegar þessi yfirvöld beint eða óbeint:
– eiga meirihluta skráðs hlutafjár fyrirtækisins eða
– ráða meirihluta atkvæða sem fylgja hlutabréfum sem gefin eru út af fyrirtækinu eða
– hafa rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða aðrar stjórnarstöður á vegum fyrirtækisins.
Rammasamkomulag: Samkomulag gert milli einhverrar samningsstofnunar sem reglugerð þessi gildir um og eins eða fleiri birgja eða verktaka í þeim tilgangi að ákveða þá skilmála, einkum um verð og, þar sem við á, fyrirhugað magn, sem gilda um samninga sem boðnir verða út og gerðir á tilteknu tímabili.
Tækniforskrift: Þær tæknilegu kröfur sem eru sérstaklega gerðar í útboðsgögnum og skilgreina einkenni verka, efnis, vöru eða aðfanga og gefa hlutlæga lýsingu á verki, efni, vöru eða aðföngum á þann hátt að þau komi að þeim notum sem samningsstofnanir ætlast til. Þessi tæknifyrirmæli geta varðað gæði, skil, öryggi og stærð svo og kröfur til efna, vöru eða aðfanga varðandi gæðaprófun, íðorð, tákn, prófun og aðferðir við prófun, umbúðir, áletrun eða merkingar. Þegar um er að ræða verksamninga geta þau haft að geyma reglur um hönnun og kostnaðarútreikninga, skilmála um prófun, skoðun og samþykkt verka og aðferða eða tækni við byggingar ásamt öllum öðrum tæknilegum skilyrðum sem samningsstofnun hefur færi á að setja, samkvæmt almennum og sérstökum reglum, um fullbúin verk og um efni og hluta sem til þeirra teljast.
Verk: Byggingarframkvæmdir eða mannvirkjagerð í heild sinni sem ætlað er að gegna efnahagslegu hlutverki.
Í stað orðanna "kerfi sín yfir þjóðvegi" í a-lið 3. gr. reglugerðarinnar kemur: kerfi sín yfir, undir eða á þjóðvegi.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar:
a. | Í stað orðanna "tekur til samninga" í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: tekur til skriflegra samninga fjárhagslegs eðlis. |
b. | Við 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar bætist: og þegar efnt er til hönnunarsamkeppni. |
c. | Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein svohljóðandi: |
Verksamningar mega einnig ná til vöru og þjónustu sem nauðsynlegar eru við framkvæmd þeirra. |
Á eftir 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Mat á áætluðu verðmæti samnings sem tekur bæði til vara og þjónustu skal byggja á heildarverðmæti varanna og þjónustunnar, óháð verðmæti þeirra hvors um sig. Mat á áætlaðri fjárhæð skal einnig ná til verðmætis samsetningar- eða uppsetningarvinnu. Útreikning fjárhæðar rammasamkomulags skal byggja á áætlaðri hámarksfjárhæð allra samninga sem gert er ráð fyrir á viðkomandi tímabili. Verðmæti vöru sem ekki er nauðsynleg við framkvæmd ákveðins verksamnings á ekki að bæta við samningsfjárhæðina svo að ekki sé hægt að beita ákvæðum reglugerðar þessarar við innkaup á þeirri vöru.
Á eftir I. kafla reglugerðarinnar kemur nýr kafli, II. kafli, Tækniforskriftir og staðlar, með tveimur nýjum greinum, svohljóðandi, og breytast kafla- og greinanúmer samkvæmt því:
a. (8. gr.)
Kaupandi skal láta tækniforskriftir fylgja almennum gögnum eða útboðsgögnum með hverjum samningi.
Tækniforskriftir skal skilgreina með tilvísun í evrópskar tækniforskriftir ef þær eru til.
Ef evrópskar tækniforskriftir eru ekki til skal eftir fremsta megni skilgreina tækniforskriftir með tilvísun í aðra staðla sem notaðir eru innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Kaupandi skal skilgreina frekari kröfur sem nauðsynlegar eru til viðbótar evrópskum tækniforskriftum eða öðrum stöðlum. Þegar það er gert skulu þær taka tækniforskriftir sem gera kröfur um skil fram yfir þær sem gefa til kynna hönnun eða eiginleikalýsingu nema samningsstofnun hafi hlutlægar ástæður til að telja slíkar tækniforskriftir ófullnægjandi vegna efnis samningsins.
Kaupanda er heimilt að víkja frá 2. mgr. ef:
a) | það er tæknilega útilokað að tryggja á fullnægjandi hátt að vara samræmist evrópskum tækniforskriftum; |
b) | notkun þessara staðla, í sambandi við aðlögun viðtekinna venja að evrópskum tækniforskriftum, skyldaði kaupanda til að afla sér aðfanga sem hæfðu ekki þeim tækjabúnaði sem þegar er í notkun eða hefði í för með sér ótilhlýðilegan kostnað eða tæknilega örðugleika. Kaupandi má aðeins nýta sér þessa undanþágu sem lið í nákvæmlega skilgreindri og skjalfestri áætlun um að taka upp evrópskar tækniforskriftir. |
c) | viðeigandi evrópsk tækniforskrift hentar ekki í ákveðnu tilviki eða hún tekur ekki tillit til tækniþróunar sem átt hefur sér stað síðan hún var samþykkt. Kaupandi sem nýtir sér þessa undanþágu skal kynna viðeigandi staðlastofnun eða öðrum stofnunum sem hafa völd til að endurskoða evrópskar tækniforskriftir ástæður þess að hann telur evrópsku tækniforskriftina ekki henta og fara fram á endurskoðun hennar. |
d) | verkefnið er hrein nýjung sem evrópskar tækniforskriftir eiga ekki við um. |
b. (9. gr.)
Kaupandi skal að ósk birgja eða verktaka sem áhuga hafa á samningi afhenda tækniforskriftir sem vísað er til reglulega í vörukaupa-, verk- eða þjónustusamningum þeirra eða tækniforskriftir sem þeir ætla að nota í samningum sem fjallað er um í reglubundnum kynningarauglýsingum.
Þegar slíkar tækniforskriftir eru byggðar á gögnum sem áhugasamir birgjar, verktakar eða þjónustuveitendur hafa aðgang að nægir að vísa til þessara gagna.
Á eftir 1. málsl. 8. gr. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Á það jafnframt við þegar efnt er til hönnunarsamkeppni.
Á eftir 1. mgr. 8. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Við fyrirkomulag innkaupa samkvæmt reglugerð þessari skulu samningsstofnanir tryggja að birgjum, verktökum og þjónustuveitendum sé ekki mismunað.
k-liður 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar skal vera svohljóðandi:
k. Þegar vörur eru keyptar við sérstaklega hagstæðar aðstæður annaðhvort frá birgi sem er að leggja niður starfsemi sína, frá skiptastjórum búa sem eru tekin til gjaldþrotaskipta er gengið er til samkomulags við lánardrottna, við nauðungarsölu eða frá þrotabúi;
Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi:
Kaupanda er heimilt að skoða rammasamkomulag sem samning í merkingu reglugerðar þessarar og ganga frá því í samræmi við reglugerð þessa. Þegar samningar eru gerðir á grundvelli rammasamkomulags er kaupanda heimilt að viðhafa málsmeðferð sem ekki felur í sér undanfarandi útboð. Kaupanda er óheimilt að misnota rammasamkomulag til að hindra, takmarka eða raska samkeppni.
12. gr. reglugerðarinnar verður 11. gr. reglugerðarinnar og breytist greinatala samkvæmt því.
Í stað orðanna "í I. þætti XV. viðauka tilskipunarinnar" í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar kemur: í I. þætti XV. viðauka og í XVIII. viðauka tilskipunarinnar.
Á eftir 5. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Tilboðum skal skila skriflega annaðhvort beint eða með pósti. Heimilt er að tilboðum sé skilað með öðrum hætti svo framarlega sem hægt er að tryggja að hvert tilboð innihaldi allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat þess, að tilboðsleynd sé haldin á meðan matsgerð stendur yfir, að slík tilboð séu staðfest skriflega eða með staðfestu endurriti eins fljótt og auðið er og að tilboð séu opnuð eftir að afhendingarfrestur er útrunninn.
Á eftir 22. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
a.
Um frávikstilboð gilda ákvæði V. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, með síðari breytingum. Kaupandi skal setja fram í útboðsgögnum lágmarksskilyrði sem frávikstilboð verða að uppfylla og allar sérkröfur um framsetningu þeirra.
Kaupanda er óheimilt að hafna frávikstilboði eingöngu á þeim grundvelli að það sé byggt á tækniforskriftum sem skilgreindar eru með tilvísun í evrópskar tækniforskriftir eða innlendar tækniforskriftir.
b.
Um óeðlilega lág tilboð gilda ákvæði VIII. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, með síðari breytingum. Kaupanda er heimilt að taka til athugunar skýringar reistar á hlutlægum rökum þess efnis að byggingar- eða framleiðsluaðferð eða tæknilegar lausnir sem beitt er séu hagkvæmar, aðstæður fyrir framkvæmdir, sem bjóðandi nýtur, séu einstaklega hagstæðar eða um vörunýjung eða nýstárlega verkkunnáttu sé að ræða sem bjóðandi kemur fram með.
Kaupanda er eingöngu heimilt að hafna tilboðum sem eru óeðlilega lág vegna fenginna ríkisstyrkja eftir að hann hefur ráðfært sig við bjóðanda og ef bjóðandinn hefur ekki verið fær um að sýna fram á að Eftirlitsstofnun EFTA hafi verið tilkynnt um umræddan ríkisstyrk eða að hann hafi verið samþykktur af Eftirlitsstofnun EFTA. Kaupandi sem hafnar tilboði við þessar aðstæður ber að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA þar um.
Á eftir 23. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, svohljóðandi:
Heimilt er að hafna tilboðum í vörukaupasamninga þegar hlutfall framleiðsluvara sem upprunnar eru í þriðja landi, samanber reglugerð ráðsins (EBE) nr. 802/68 frá 27. júní 1968 um sameiginlega skilgreiningu á hugtakinu uppruni vara, nemur meira en 50% af heildarfjárhæð þeirra vara sem tilboðið nær til. Að því er varðar þessa grein telst hugbúnaður notaður í búnað fjarskiptakerfa vera framleiðsluvara.
Þegar tvö eða fleiri tilboð eru jafngild skal taka þau tilboð fram yfir sem ekki er heimilt að hafna á grundvelli 1. mgr. Að því er varðar þessa grein skal verð teljast jafnt ef verðmunurinn er ekki meiri en 3%.
Ekki skal taka eitt tilboð fram yfir annað á grundvelli 2. mgr. ef samþykkt þess myndi skuldbinda kaupanda til að kaupa efni sem hefðu önnur tæknileg einkenni sem samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða sem leiddu til tæknilegra erfiðleika við rekstur eða viðhald eða óeðlilegs kostnaðar.
Við 24. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Kaupanda er heimilt að gera kröfu um leynd til að vernda trúnaðarupplýsingar sem hann veitir aðgang að í sambandi við afhendingu tækniforskrifta til áhugasamra birgja, verktaka eða þjónustuveitenda, þegar dæmt er um hæfi eða valið er við hvaða birgja, verktaka og þjónustuveitendur skuli gengið til samninga.
Ákvæði þessarar reglugerðar takmarka ekki rétt birgja, verktaka eða þjónustuveitenda að krefjast þess að kaupandi fari með upplýsingar sem þeir láta af hendi sem trúnaðarmál í samræmi við landslög.
Á eftir 24. gr. reglugerðarinnar koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
a.
Kaupendur skulu hafa aðgang að staðfestingarkerfi í samræmi við 2. kafla tilskipunar Ráðherraráðsins nr. 92/13/EBE frá 25. febrúar 1992 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um beitingu á reglum bandalagsins um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Tilskipun Ráðherraráðsins nr. 92/13/EBE er birt sem viðauki við reglugerð þessa.
b.
Telji Eftirlitsstofnun EFTA að um augljóst brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup sé að ræða er henni heimilt að grípa til þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í 3. kafla tilskipunar Ráðherraráðsins nr. 92/13/EBE frá 25. febrúar 1992 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um beitingu á reglum bandalagsins um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
c.
Þeir aðilar sem telja að þeir geti, við útboð og gerð samninga um opinber verkefni er falla undir reglugerð þessa, orðið fyrir tjóni vegna meints brots á reglum um opinber innkaup geta farið fram á sáttameðferð sem kveðið er á um í 4. kafla tilskipunar Ráðherraráðsins nr. 92/13/EBE frá 25. febrúar 1992 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um beitingu á reglum bandalagsins um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Á eftir 25. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, svohljóðandi:
Í samræmi við 3. gr. tilskipunar Ráðherraráðsins nr. 93/38/EBE frá 14. júní 1993 er íslenska ríkinu heimilt að fara fram á það við Eftirlitsstofnun EFTA að kveðið verði á um að hagnýting landsvæðis í þeim tilgangi að leita að eða nema olíu, gas, kol eða annað eldsneyti í föstu formi teljist ekki starfsemi sem skilgreind er í fyrri lið b-liðar 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar og að aðili teljist ekki starfa samkvæmt sérleyfi eða einkarétti þó að hann stundi einhverja þessa starfsemi að því tilskyldu að öll skilyrði þau sem tiltekin eru í 3. gr. tilskipunar Ráðherraráðsins nr. 93/38/EBE frá 14. júní 1993 séu uppfyllt.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, með síðari breytingum, og tekur gildi þegar í stað.