1. gr.
Skylda launagreiðanda til launaafdráttar.
Launagreiðendum er skylt að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð eru á launþega og innheimta ber samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og IV. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Launagreiðendum er jafnframt skylt að kröfu innheimtumanns að halda eftir af launum launþega til greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann ber sjálfskuldarábyrgð á samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Með þing- og sveitarsjóðsgjöldum er átt við tekjuskatt, útsvar, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa, ofgreiddar barnabætur, ofgreiddar vaxtabætur og önnur ótalin gjöld sem innheimt eru með vísan til laga um tekjuskatt og samsvarandi gjöld samkvæmt samningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki.
2. gr.
Form kröfu um launaafdrátt og skilagreina.
Innheimtumaður ríkissjóðs sendir kröfu um launaafdrátt til launagreiðanda á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og er ríkisskattstjóra jafnframt heimilt að ákveða á hvaða formi skilagreinar launagreiðanda skuli vera.
3. gr.
Hámark og forgangur við launaafdrátt.
Frádráttur launagreiðanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, þing- og sveitarsjóðsgjalda, lögbundinna iðgjalda í lífeyrissjóð og stéttarfélag og meðlags samkvæmt kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga skal aldrei vera meiri en sem nemur 75% af heildarlaunum launþega. Launþegi getur óskað eftir að gera greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda, sbr. 7. gr.
Afdráttur vegna eftirtalinna gjalda skal ganga framar afdrætti vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda:
4. gr.
Skil launagreiðanda á afdregnum launum eða launum
sem bar að halda eftir og dráttarvextir.
Sex dögum eftir útborgun launa skal launagreiðandi ótilkvaddur standa skil á afdregnum launum eða launum sem honum bar að halda eftir samkvæmt 1. gr. ásamt skilagrein. Sé lokadagur skilafrests almennur frídagur lengist fresturinn til næsta virka dags.
Launagreiðandi sem eigi hefur skilað á réttum degi fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir skv. 1. gr. skal greiða dráttarvexti skv. 7. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, frá útborgunardegi launa.
5. gr.
Ábyrgð launagreiðanda og launþega.
Launagreiðandi ber sjálfskuldarábyrgð á þing- og sveitarsjóðsgjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt 1. gr. Launagreiðandi og launþegi bera óskipta ábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda og getur innheimtumaður gengið að hvorum aðila fyrir sig.
Launþegi ber þó ekki ábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem hann sannar með launaseðli að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Hafi launagreiðandi vanrækt að standa skil á afdregnum þing- og sveitarsjóðsgjöldum skal stofna kröfu á launagreiðanda án undanfarandi tilkynningar til hans og beina innheimtu að launagreiðanda en ekki launþega.
6. gr.
Aðför.
Krafa vegna fjár sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari reglugerð er aðfararhæf samkvæmt lögum gagnvart launagreiðanda án undangengins dóms eða sáttar.
7. gr.
Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar.
Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar skal eingöngu gerð um þing- og sveitarsjóðsgjöld. Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar hefur ekki áhrif á lögboðna gjalddaga. Lögboðnir dráttarvextir leggjast á þing- og sveitarsjóðsgjöld þrátt fyrir að um þau hafi verið gerð greiðsluáætlun.
Ef innheimtumaður samþykkir að lækka launaafdrátt skal launþegi undirrita greiðsluáætlun þar sem hann viðurkennir kröfuna og nýjan upphafstíma fyrningarfrests. Innheimtumanni er heimilt að fresta útsendingu aðfararbeiðni meðan greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar er í gildi. Greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar frestar ekki innheimtuaðgerðum sem þegar eru hafnar.
Innheimtumanni er heimilt að gera greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar að beiðni launþega í eftirfarandi tilvikum:
Hafi afdráttur launagreiðanda þegar átt sér stað er heimilt að endurgreiða launþega það sem af var dregið umfram greiðsluáætlun. Endurgreiðsla getur þó ekki farið fram samkvæmt ákvæði þessu fyrr en launagreiðandi hefur skilað til innheimtumanns því fé sem haldið var eftir.
Ríkisskattstjóri setur verklagsreglur um greiðsluáætlanir, m.a. um lækkun launaafdráttar og viðmið um lágmarksfjárhæðir.
8. gr.
Launaafdráttur við gjaldþrotaskipti.
Launaafdráttur er heimill á meðan launþegi ber ábyrgð á kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti, skv. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
Undirritun greiðsluáætlunar um lækkun launaafdráttar vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem falla undir gjaldþrotaskipti launþega rýfur ekki fyrningu þeirra.
9. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 11. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 124/2001, um launaafdrátt.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 9. mars 2020.
F. h. r.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
Guðrún Inga Torfadóttir.