Fjármála- og efnahagsráðuneyti

218/2020

Reglugerð um skyldur og ábyrgð forstöðumanna ríkisaðila í A-hluta ríkissjóðs við framkvæmd fjárlaga.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að starfsemi ríkisaðila skili tilætluðum árangri, rekstur sé skil­virkur og afkoma í samræmi við fjárveitingar ríkisaðila, samþykktar áætlanir og staðfestar stefnur.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin tekur til forstöðumanna ríkisaðila í A-hluta ríkissjóðs, stjórna ríkisaðila og annarra ábyrgðaraðila við ákvarðanir um rekstur, fjárstýringu, nýtingu fjármuna og upplýsingamiðlun skv. 31., 32., 35. og 36. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Reglugerðin tekur einnig til ráðuneyta er varðar rekstur og útgjöld verkefna sem þau bera ábyrgð á.

Reglugerðin tekur auk þess til stjórna sem fara fyrir ríkisaðila í samræmi við þau lög sem um stofnunina gilda.

 

3. gr.

Ábyrgð og skyldur forstöðumanna.

Forstöðumaður ber ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemin samræmist stefnu málaflokksins, skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið. Forstöðumaður ber ábyrgð á reiknings­skilum og að bókhald sé fært á réttum tíma í samræmi við reglur Fjársýslu ríkisins þannig að fjárhagskerfi ríkisins gefi á hverjum tíma sem réttasta mynd af fjárhags­stöðu.

Forstöðumaður ber ábyrgð á að fjárstýring stofnunar sé samkvæmt reglum fjármála- og efna­hags­ráðuneytis um sjóðsstöðu og sjóðsstýringu og að langtímasamningar séu samkvæmt gildandi reglum þar um.

Þegar stjórn ber ábyrgð á rekstri, fjárstýringu og reikningsskilum og jafnframt er skipaður eða ráðinn forstöðumaður til þess að annast um þessi verkefni, samkvæmt nánari fyrirmælum í sérlögum, skal hlutaðeigandi ráðherra sjá til þess að í erindisbréfi forstöðumanns og eftir atvikum í skipunar­bréfi stjórnar sé kveðið skýrt á um verkaskiptingu á milli stjórnar og forstöðumanns.

 

4. gr.

Stefnumótun ríkisaðila í A-hluta til þriggja ára.

Ár hvert skulu ríkisaðilar móta stefnu til a.m.k. þriggja ára fyrir starfsemi sína í samræmi við gildandi stefnu í viðeigandi málaflokki, sbr. 31. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Í stefn­unni skulu koma fram áherslur í starfsemi og skýr mælanleg markmið. Gera skal grein fyrir mæli­kvörðum, settum markmiðum og aðgerðum þeim tengdum.

Stefnan skal sett fram á eyðublaði sem hlutaðeigandi ráðherra lætur stofnun í té og drög að henni kynnt hlutaðeigandi ráðherra eigi síðar en við skil á ársáætlun ár hvert. Stefnan skal rúmast innan fjárveitinga málaflokks, sbr. fylgirit með fjárlagafrumvarpi og vera staðfest af hlutaðeigandi ráðherra í fjárveitingabréfi til ríkisaðila, sbr. 6. gr.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið gefur út verklagsreglur um stefnumótun og áætlanagerð ríkis­aðila.

 

5. gr.

Ársáætlun.

Ríkisaðilar vinna ársáætlun í samræmdu áætlanakerfi ríkisaðila samkvæmt verklagsreglum um áætlanagerð sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gefur út.

Áætlanagerð skal hefjast eigi síðar en við framlagningu fjárlagafrumvarps ár hvert og drögum skilað til hlutaðeigandi ráðherra eigi síðar en 15. október. Áætlunin skal rúmast innan ramma fjár­veitinga komandi árs og áætlaðs höfuðstóls. Þá skal gerð grein fyrir sundurliðun eftir kostnaðar­liðum, tilfærslum, fjárfestingum og rekstrartekjum og dreif­ingu innan ársins.

Þegar fjárlög hafa verið samþykkt á Alþingi aðlaga hlutaðeigandi ráðherra og ríkisaðilar rekstrar­áætlanir að fjárveitingum sem tilgreindar eru í fylgiriti með fjárlögum. Ársáætlun skal sam­þykkt af hlutaðeigandi ráðherra og færð í fjárhagskerfi ríkisins fyrir 31. desember ár hvert.

 

6. gr.

Fjárveitingabréf.

Við lok hvers árs, eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, skulu ráðuneyti senda stofnunum sínum bréf þar sem fram koma m.a. fjárveitingar til ríkisaðila og staðfesting á ársáætlun og stefnu til þriggja ára. Á þeim grundvelli eru settar fram áherslur sem stofnun skal hafa til hliðsjónar í starfsemi ársins og hverju stofnunin skal gera skil í ársskýrslu til ráðuneytisins.

Einnig skulu í bréfinu koma fram skyldur ráðuneytis gagnvart stofnuninni er varðar endurgjöf á áætlanir, stefnur og árangur.

 

7. gr.

Skylda til þess að tilkynna um frávik frá ársáætlun.

Forstöðumaður, eða eftir atvikum stjórn ríkisaðila, skal ávallt stýra rekstri stofnana í samræmi við samþykkta ársáætlun. Komi í ljós að útgjöld stefni umfram áætlanir skal for­stöðumaður tafar­laust skýra hlutaðeigandi ráðuneyti frá því, hverjar séu ástæður þess og hvaða aðgerðum verði beitt. Tilkynning til ráðuneytis skal vera með formlegum hætti og þar skal forstöðumaður greina frá ítar­legri greiningu vandans, tillögum að útfærslu lausna og tímaáætlun aðgerða. Forstöðumanni ber skylda til þess að leita allra mögulegra úrræða til þess að bregðast við því fráviki sem orðið hefur frá fjárveitingu.

Ef afkoma, rekstur eða árangur í starfsemi ríkisaðila er ekki í samræmi við samþykktar áætlanir getur hlutaðeigandi ráðherra falið óháðum aðila að taka út starfsemi ríkisaðila með því að greina rekstrarvanda og helstu tækifæri til úrbóta.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 67. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1061/2004 um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 27. febrúar 2020. 

 

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Steinunn Sigvaldadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica