Félagsmálaráðuneyti

791/2000

Reglugerð um breyting á reglugerðum er varða tollamál. - Brottfallin

I. KAFLI
Breyting á reglugerð nr. 526/2000, um tollmeðferð vara
sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins.
1. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo:
Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum er heimilt að taka aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir hafa skv. 1. mgr.


II. KAFLI
Breyting á reglugerð nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda
af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi.
2. gr.

Í stað orðanna "tollstjórans í Reykjavík" í 3. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar kemur: tollstjóra þar sem vara var tollafgreidd.


III. KAFLI
Breyting á reglugerð nr. 160/1990, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning
bifreiða og bifhjóla, með síðari breytingum.
3. gr.

Við 12. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem orðast svo:
Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá ívilnun á aðflutningsgjöldum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, svo og misnotkun ívilnunar sem veitt hefur verið samkvæmt þeim, getur m.a. varðað við 126. gr. og 130. gr. tollalaga.


4. gr.

13. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá því er ákvörðun tollstjóra lá fyrir. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því er gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


IV. KAFLI
Breyting á reglugerð nr. 722/1997, um SMT-tollafgreiðslu.
5. gr.

10. gr. reglugerðarinnar fellur brott.


6. gr.

2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Ríkistollstjóri rekur upplýsinga- og gagnamiðlun um tölvukerfi ríkistollstjóra gegn greiðslu þjónustugjalda. Þjónustugjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ríkistollstjóri gefur út og skal birta hana í Lögbirtingablaði. Gjaldskráin skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu, m.a. við úrvinnslu gagna og flutning þeirra um upplýsingaveitur. Þjónustugjöld má innheimta með aðflutningsgjöldum.


7. gr.

17. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Um uppgjör og gjalddaga vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum.


V. KAFLI
Lagastoð og gildistaka.
8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. gr., 6. gr., 8. tölul. 14. gr., 1. mgr. 32. gr. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.


Fjármálaráðuneytinu, 30. október 2000.

F. h. r.
Árni Kolbeinsson.
Bergþór Magnússon.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica