REGLUGERÐ
um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga.
Almennt.
1. gr.
Ársreikningaskrá skal annast þau störf félagaskrár, sbr. VIII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum, sem varða móttöku, geymslu og birtingu ársreikninga, úrtakskannanir og athuganir.
Skilaskyldir aðilar.
2. gr.
Félögum sem tilgreind eru í 1. og 2. gr. laga nr. 144/1994, ber að skila til ársreikningaskrár gögnum samkvæmt reglugerð þessari til birtingar.
Skilaskyldan hvílir á stjórn og framkvæmdastjóra. Hjá félögum sem ekki hafa formlega stjórn hvílir skilaskyldan á öllum félagsaðilum sameiginlega.
Birtingarskyld gögn.
3. gr.
Ársreikning eða eftir atvikum samstæðureikning ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningurinn var samþykktur skal senda ársreikningaskrá.
Ef samþykkt á ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps kemur ekki fram í ársreikningnum eða skýrslu stjórnar skal til viðbótar gögnum skv. 1. mgr. senda staðfest endurrit úr gerðabók aðalfundarins þar sem greint er frá ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps.
4. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. er félagi, sem tvö ár í röð fer ekki fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum á reikningsskiladegi, heimilt að senda ársreikningaskrá samandregna útgáfu af rekstrarreikningi, efnahagsreikningi og skýringum sbr. reglugerð nr. 694/1996, um framsetningu ársreikninga í samandregnu formi:
1. eignir nema 200 milljónum króna;
2. rekstrartekjur nema 400 milljónum króna;
3. fjöldi ársverka á reikningsári nemur a.m.k. 50.
Heimild þessi nær þó hvorki til félaga sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á opinberu verðbréfaþingi né til félaga sem leggja ekki hömlur á viðskipti með eignarhluta sína.
5. gr.
Þegar sérstakar samkeppnisaðstæður mæla með því geta félög sem fara tvö reikningsár í röð á reikningsskiladegi ekki fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum, sent ársreikningaskrá samandreginn rekstrarreikning sbr. reglugerð nr. 694/1996:
1. eignir nema 500 milljónum króna;
2. rekstrartekjur nema 1.000 milljónum króna;
3. fjöldi ársverka á reikningsári er a.m.k. 250.
6. gr.
Ársreikninga dótturfélaga, sem haldið er utan samstæðureiknings samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 144/1994, skal senda ársreikningaskrá með ársreikningi eða samstæðureikningi móðurfélags.
Form birtingar og fyrirvarar.
7. gr.
Ef félag birtir ársreikning sinn eða samstæðureikning í heild skal hann vera í sama formi og hann var samþykktur á aðalfundi og með áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna. Vekja skal athygli á hvers konar fyrirvara endurskoðenda eða fyrirsvarsmanna og tilgreina ástæður þeirra.
Nú er ársreikningur eða samstæðureikningur ekki birtur í heild, sbr. 4. og 5. gr., skal þá koma fram með ótvíræðum hætti að hann sé samandreginn. Áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna þarf ekki að fylgja með samandreginni útgáfu en koma skal fram ef áritun var með fyrirvara og hvers efnis hann er.
Heimilt er að birta ársreikning á tölvutæku formi. Skal þá fylgja með yfirlýsing frá endurskoðanda eða skoðunarmanni um að skjalið sé í samræmi við frumrit ársreiknings og skýrslu stjórnar.
Skilafrestur.
8. gr.
Félagi sem skylt er að gera ársreikninga eða samstæðureikning samkvæmt lögum nr. 144/1994, skal eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, senda ársreikningaskrá gögn samkvæmt 3. gr.
Félag, sem hefur hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á opinberu verðbréfaþingi, skal senda ársreikning sinn þegar í stað eftir samþykkt þeirra og eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs.
Árlega skal birta í Lögbirtingablaði lista yfir þau félög sem skilað hafa ársreikningi samkvæmt reglugerð þessari til ársreikningaskrár.
Aðgangur að gögnum.
9. gr.
Veita skal aðgang að þeim gögnum sem skilað er samkvæmt reglugerð þessari. Heimilt er að afhenda ljósrit af gögnum þessum gegn gjaldi, sbr. lög nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
Skoðun gagna.
10. gr.
Ársreikningaskrá skal gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslum stjórna í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga nr. 144/1994. Heimilt er að krefjast þeirra upplýsinga hjá hverju félagi sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.
Hafi ársreikningur verið tekinn til skoðunar samkvæmt þessari grein skal það koma fram í gögnum ásamt athugasemdum og niðurstöðum ársreikningaskrár.
Erlend félög og sameignar- og samlagsfélög.
11. gr.
Útibú erlendra félaga, erlend dótturfélög og sameignar- og samlagsfélög sem skráð eru hér á landi skulu með sama hætti senda ársreikningaskrá ársreikninga sína eða eftir atvikum samstæðureikninga eftir þeim reglum sem tilgreindar eru í 73. - 76. gr. laga nr. 144/1994.
Skattstjórar.
12. gr.
Ársreikningaskrá getur ákveðið að félög skv. 2. gr. megi skila þessum gögnum til skattstjóra þess umdæmis þar sem félögin eru framtalsskyld.
Viðurlög og málsmeðferð.
13. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum sbr. 83. gr. laga nr. 144/1994. Ef ekki er sinnt ákvæðum reglugerðar þessarar skal ársreikningaskrá senda skattrannsóknarstjóra ríkisins málið til meðferðar skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 361/1995, um skattrannsóknir og málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 88. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.
Gildistaka.
14. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 89. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðuneytinu, 18. desember 1998.
F. h. r.
Magnús Pétursson.
Ragnheiður Snorradóttir.