REGLUGERÐ
um breyting á reglugerð nr. 381/1994, um bifreiðagjald,
með breytingu skv. reglugerð nr. 642/1996.
1. gr.
a-liður 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Bifreiðar í eigu þeirra, sem njóta örorkustyrks, örorkubóta, bensínstyrks eða umönnunarbóta og -greiðslna vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt eiga þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem njóta örorkustyrks, örorkubóta eða bensínstyrks er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé annað hvort skráður eigandi í ökutækjaskrá eða skráður umráðamaður í ökutækjaskrá samkvæmt eignarleigusamningi. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds af bifreiðum í eigu þeirra sem fá greiddar ummönnunarbætur eða -greiðslur vegna örorku barna nær til einnar bifreiðar og er bundinn því skilyrði að skráður eigandi bifreiðar samkvæmt ökutækjaskrá fari með forsjá barnsins. Óheimilt er að fella niður bifreiðagjald af bifreiðum sem eru yfir 3.500 kg að eigin þyngd og nýttar eru í atvinnurekstri. Ef sá sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngst.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðuneytinu, 19. september 1997.
F. h. r.
Indriði H. Þorláksson.
Bergþór Magnússon.