REGLUGERÐ
um breyting á reglugerð nr. 381/1994, um bifreiðagjald.
1. gr.
2. gr. orðast svo:
Bifreiðagjald skal vera 5,86 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar. Sé bifreið þyngri en 1000 kg skal að auki greiða 3,80 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar sem er umfram 1000 kg. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 2.993 kr. né hærra gjald en 18.915 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili.
2. gr.
Eftirfarandi breyting verður á 3. gr. reglugerðarinnar:
a. a-liður orðast svo: Bifreiðir í eigu þeirra, sem njóta örorkustyrks, örorkubóta, bensínstyrks eða umönnunarbóta og -greiðslna vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt eiga þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Réttur til niðurfellingar samkvæmt þessum staflið er bundinn því skilyrði að um fólksbifreið sé að ræða og að bifreið sé skráð eign þess aðila er nýtur niðurfellingar. Ef sá sem á rétt á niðurfellingu á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngst.
b. Við d-lið bætist nýr málsliður er orðast svo: Jafnframt er innheimtumönnum ríkissjóðs heimilt að fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabili.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:
a. Orðin "en eindagi er síðasti dagur næsta mánaðar eftir gjalddaga" í 1. málsl. 1. mgr. falla brott og við bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Eindagar bifreiðagjalds eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert.
b. Í stað fjárhæðarinnar "1.141 kr." í 3. málsl. 3. mgr. kemur: 523 kr.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:
a. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er verður 3. málsl. sem orðast svo: Eiganda eða umráðamanni bifreiðar er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið bifreiðagjald fyrr en eftir eindaga.
b. Við greinina bætist ný málsgrein er verður svohljóðandi:
Óheimilt er að skrá eigendaskipti að bifreið nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt.
5. gr.
6. gr. orðast svo:
Innheimtumaður ríkissjóðs annast álagningu, niðurfellingu og aðra framkvæmd bifreiðagjalds samkvæmt reglugerð þessari. Ákvörðun innheimtumanns ríkissjóðs um bifreiðagjald er kæranleg til fjármálaráðuneytisins í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglugerðarinnar:
a. Í stað orðanna "lögreglustjórar, í Reykjavík tollstjóri" í 1. mgr. kemur: innheimtumenn ríkissjóðs.
b. Í stað orðanna "Bifreiðaskoðun Íslands hf." kemur: skoðunarstöðvum.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðuneytinu, 12. desember 1996.
F. h. r.
Jón Guðmundsson.
Hermann Jónasson.