Reglugerð
um próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.
1. gr.
Prófnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, annast próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.
2. gr.
Próf skulu að jafnaði haldin einu sinni ár hvert.
Prófnefnd skal auglýsa fyrirhuguð próf með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Prófmenn geta þreytt próf í einni eða fleiri prófgreinum hverju sinni. Skulu þeir sem hyggjast þreyta próf tilkynna það prófnefnd eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir upphaf prófa. Tilkynningu skulu fylgja skilríki um að fullnægt sé skilyrðum 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur. Prófnefnd skal meta hvort framangreindum skilyrðum er fullnægt en mati hennar má skjóta til ráðherra.
3. gr.
Próf skulu vera skrifleg og prófgreinar a.m.k. fjórar. Prófnefnd tekur hverju sinni ákvörðun um fjölda sjálfstæðra úrlausnarefna innan hverrar prófgreinar, efnissvið þeirra og lengd próftíma.
Í prófunum skal einkum láta reyna á fræðilega og verklega kunnáttu á sviði endurskoðunar, reikningsskila og skattamála. Jafnframt er heimilt að leggja fram úrlausnarefni sem snerta önnur svið í störfum endurskoðenda.
Prófverkefni skulu samin af einstökum prófnefndarmönnum eða þeim, sem prófnefndin felur það starf. Verkefnin og vægi úrlausnarefna innan þeirra, skulu lögð fyrir prófnefnd til samþykktar.
4. gr.
Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum.
Við mat á úrlausnum skal gefin ein einkunn fyrir hverja prófgrein.
Einkunnir skulu gefnar í heilum, eða heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Lágmarkseinkunn til að standast próf er 7,5 í hverri prófgrein.
Tveir aðilar skulu meta sjálfstætt úrlausnir prófmanna, annars vegar sá sem samdi viðkomandi verkefni og hins vegar aðili sem prófnefnd tilnefnir. Þeir ráða í sameiningu úrlausnarefni í hverri prófgrein og dæma úrlausnir. Mat þeirra er endanlegt.
5. gr.
Einkunnir skulu birtar prófmönnum innan tveggja mánaða frá því að prófum lýkur. Heimilt er ráðherra að framlengja þann frest um allt að einn mánuð.
Prófnefnd skal afhenda þeim prófmönnum sem standast próf skírteini því til staðfestingar.
6. gr.
Innan eins mánaðar frá því að niðurstöður prófa liggja fyrir getur prófmaður óskað eftir því við prófnefnd að fá nánari upplýsingar um frammistöðu sína í prófunum. Prófnefnd ákveður hverju sinni hvort upplýsingar verða gefnar með viðræðum við einstaka prófmenn eða á fundi sem boðað er til með öllum prófmönnum þar sem þeim er sameiginlega gerð grein fyrir því hvað teljast fullnægjandi svör við einstökum úrlausnarefnum.
7. gr.
Ef prófmaður nær ekki tilskilinni lágmarkseinkunn sbr. 4. gr. er honum heimilt að þreyta próf að nýju þegar próf eru haldin skv. 2. gr.
Frá því að prófmaður nær fullnægjandi árangri í fyrstu prófgrein og þar til hann hefur lokið þeirri síðustu mega líða þrjú ár hið mesta.
8. gr.
Þegar prófmaður er skráður í próf skal hann greiða prófgjald. Ráðherra ákveður prófgjald ár hvert.
9. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 18/1997, um endurskoðendur, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 403/1989, um verkleg próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa.
Fjármálaráðuneytinu, 24. júlí 1998.
Geir H. Haarde.
Ragnheiður Snorradóttir.