Fjármálaráðuneyti

228/1993

Reglugerð um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra. - Brottfallin

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra sem afhenda ber tollstjórum vegna tollmeðferðar vara við innflutning, umflutning og útflutning. Ennfremur gildir reglugerðin, eftir því sem við á, um tollafgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 310/1992, um tollmeðferð póstsendinga, og reglugerð nr. 64/1991, um bráðabirgðatollafgreiðslur.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gildir þessi reglugerð hvorki um tollafgreiðslur vara, sem ekki er skylt að færa á farmskrá og ekki eru háðar neins konar innflutnings- eða útflutningsbanni eða takmörkunum, enda sé um að ræða vörur sem undanþegnar eru öllum opinberum gjöldum við tollafgreiðslu, né heldur um SMT-tollafgreiðslur, sbr. reglugerð nr. 309/1992. Um tollskýrslugerð vegna vara á farmskrá sem njóta sérstakra tollfríðinda við innflutning gilda reglur nr. 479/1988.

Tollskýrslueyðublöð.

2. gr.

Við tollskýrslugerð á að nota eyðublöð sem skulu, eftir því sem við á, vera að formi til í samræmi við sýnishorn í fylgiskjölum I-III með þessari reglugerð, enda leiði ekki annað af alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og notkun eyðublaða við tollskýrslugerð samkvæmt þeim.

Tollskýrslueyðublöð skal prenta á skrifpappír sem vegur að minnsta kosti 40 gr. hver fermetri. Pappírinn skal vera nægilega ógagnsær til að áritun á aðra hlið hans hafi ekki áhrif á læsileika hinnar hliðarinnar og svo sterkur að hann rifni ekki eða krumpist auðveldlega við notkun. Pappírinn skal vera hvítur en texti, línur og annað áprentað með ljósgrænum prentlit. Stærð eyðublaða skal vera 210x297 mm (A4) en að öðru leyti skulu þau vera í samræmi við fyrirmyndir í fylgiskjölum I-III.

Þegar tollskýrslur eru fylltar út í tölvukerfi er skýrslugjafa heimilt að nota óáprentaðan hvítan pappír af þeirri gerð sem um ræðir í 2. mgr. og prenta á hann í tölvuprentara texta, línur og annað, sem fyrirmyndir í fylgiskjölum sýna, auk upplýsinga sem veita ber í tollskýrslum.

3. gr.

Ríkistollstjóri sér um prentun tollskýrslueyðublaða.

Þeir sem þurfa að afhenda tollskýrslur geta sjálfir lagt sér til eyðublöð í stað þess að nota eyðublöð tollyfirvalda, enda séu þau eyðublöð eins að formi og eyðublöð tollyfirvalda, sbr. þó 3. mgr.

Tollskýrslueyðublöð sem tollyfirvöld leggja til skulu auðkennd með merki tollstjórnarinnar, sem er bókstafurinn T með skjaldarmerki ríkisins á legg stafsins. Eyðublöð sem aðilar leggja sér sjálfir til mega vera merkt framleiðanda og/eða notanda.

Aðflutningsskjöl.

4. gr.

Innflytjandi skal afhenda tollstjóra aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl um aðflutta vöru áður en hún er tekin úr vörslu farmflytjanda, sett í tollvörugeymslu eða tekin úr tollvörugeymslu eða af frísvæði til ráðstöfunar innanlands. Aðflutningsskjöl skulu þó afhent tollstjóra eigi síðar en 3 mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins.

Aðflutningsskjöl skal afhenda tollstjóra í því tollumdæmi þar sem er greiðslustaður aðflutningsgjalda, sbr. reglugerð nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, með síðari breytingum.

5. gr.

Eftirtalin skjöl skulu fylgja aðflutningsskýrslu, eftir því sem við á:

1. vörureikningur, sbr. 6. gr.,

2. farmbréf eða flutningsskjal sem gefið er út í tengslum við flutning vörunnar, sbr. þó 2. mgr.,

3. flutningsgjaldsreikningur,

4. vottorð um uppruna vöru ef óskað er fríðindameðferðar samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, nema upprunayfirlýsing sé á vörureikningi,

5. önnur skjöl er varða hina innfluttu vöru og skipta máli vegna tollmeðferðar, t.d. vottorð um innflutningsleyfi ef því er að skipta, staðfesting á heimild til sérstakrar tollafgreiðslu ef við á eða önnur vottorð af sérstöku tilefni.

Ef á framlögðum flutningsgjaldsreikningi eða tilkynningu farmflytjanda til viðtakanda um vörusendingu er gerð grein fyrir sömu atriðum og gert er í hefðbundnum farmbréfum, auk sendingarnúmers, er ekki þörf á að leggja fram farmbréf nema tollstjóri krefjist þess sérstaklega.

6. gr.

Á vörureikningi eiga upplýsingar um eftirtalin atriði að koma fram:

1. nafn og heimili seljanda (sendanda),

2. nafn og heimili kaupanda (viðtakanda),

3. útgáfustað og -dag,

4. hvenær sala fór fram,

5. fjölda stykkja, tegundir umbúða, þunga, merki og númer,

6. þær vörur sem eru í sendingu, tegundir, gerðir og magn (fjölda, þyngd eða mál, eftir atvikum),

7. söluverð einstakra vörutegunda og í hvaða mynt verð er tilgreint,

8. greiðsluskilmála, greiðsluskilyrði og afhendingarskilyrði, afslátt og annan frádrátt og ástæður fyrir því að afsláttur er veittur eða frádráttur er gerður.

Innflytjandi vöru skal, áður en aðflutningsskjöl eru afhent tollstjóra, færa tollskrárnúmer samkvæmt íslensku tollskránni (átta stafa númer) inn á viðkomandi vörureikning, fyrir framan eða aftan heiti vörunnar. Í stað þess að færa tollskrárnúmer inn á vörureikning er innflytjanda heimilt að láta fylgja samantekt um vörutegundir miðað við tollflokka og verðmæti.

7. gr.

Heimilt er að leggja fram frumrit eða samrit skjala samkvæmt 5. gr., enda leiði ekki annað af alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Með sama hætti er heimilt að leggja fram slík skjöl sem innflytjandi hefur fengið með gagnaflutningstækni.

Ef tollstjóri telur ástæðu til, getur hann jafnan áskilið að innflytjandi framvísi frumriti umræddra skjala.

Umflutningsskjöl.

8. gr.

Leiði ekki annað af 9. gr. skal afhenda tollstjóra, í því tollumdæmi þar sem umflutningsvöru er skipað á land úr flutningsfari, umflutningsskýrslu um hana.

Umflutningsskýrsla skal afhent tollstjóra áður en vara er flutt í vörslu þess farmflytjanda sem annast mun útflutning hennar.

Umflutningsskýrslu skulu fylgja gögn samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar eftir því sem við á.

Ef umflutningsvöru er skipað í útflutningsfar í öðru tollumdæmi, skal tollstjóri á uppskipunarstað þegar tilkynna tollstjóra á útflutningsstað um umflutning.

9. gr.

Ekki ber nauðsyn til að afhenda umflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna umflutnings vöru í eftirtöldum tilvikum:

1. sami farmflytjandi annast flutning vöru til og frá landinu,

2. farmflytjendur til og frá landinu hafa millilandaför í reglubundnum förum á milli landa,

3. flutningsmiðlarar hafa umsjón með umflutningi.

Þegar ákvæði 1. mgr. eiga við skulu viðkomandi farmflytjendur eða flutningsmiðlarar senda viðkomandi tollstjóra eða tollstjórum sérstakar umflutningstilkynningar samkvæmt nánari reglum sem ríkistollstjóri setur.

Farmflytjendur og flutningsmiðlarar skulu varðveita í bókhaldi sínu öll skjöl og skilríki sem gefin hafa verið út vegna umflutnings samkvæmt þessari grein.

10. gr.

Ákvæði 2. mgr. 11. gr. skulu gilda um umflutningsskýrslur og umflutningstilkynningar.

Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. getur tollstjóri jafnan krafist umflutningsskýrslu og fylgigagna eða annarra gagna, sbr. 18. gr., ef nauðsyn ber til að hans mati. Með sama hætti getur tollstjóri áskilið að sett sé hæfileg trygging til greiðslu aðflutningsgjalda bregðist útflutningur umflutningsvöru.

Útflutningsskjöl.

11. gr.

Útflytjandi skal afhenda tollstjóra útflutningsskýrslu um vöru í því tollumdæmi þar sem útflutningsvara er flutt í far.

Útflutningsskýrsla skal afhent tollstjóra áður en vara er flutt í útflutningsfar og það tímanlega að tollskoðun verði komið við.

12. gr.

Skipstjórar íslenskra veiðiskipa, sem flytja sjálf út eigin veiði til sölu erlendis, skulu gefa útflutningsskýrslu um afla við komu til fyrstu tollhafnar sem skipið kemur til hér á landi á leið sinni frá útlöndum eða, ef skipið kemur ekki til hafnar áður en það flytur aftur afla til sölu erlendis, þegar það næst kemur til tollhafnar hér á landi. Komi veiðiskipið ekki fyrst til þeirrar tollhafnar þar sem það er skrásett og útgerð skips er, skal senda útflutningsskýrsluna til tollstjóra þar.

13. gr.

Ákvæði 5.-7. gr. skulu gilda um fylgiskjöl útflutningsskýrslu eftir því sem við getur átt.

Almenn ákvæði.

14. gr.

Sá sem ráðstafar vöru til tollmeðferðar skal undirrita með eigin hendi það eintak tollskýrslu sem hann afhendir tollstjóra.

15. gr.

Tollskýrslur og önnur tollskjöl skal afhenda tollstjóra í einriti. Tollstjóri skal halda þeim skjölum eftir, en sá sem ráðstafar vöru til tollmeðferðar skal varðveita afrit eða samrit þeirra.

Ef þörf er á að leiðrétta tollskjöl, sem afhent hafa verið tollstjóra, skal leggja fram nýja tollskýrslu eða fylgiskjal sem leiðrétta þarf.

16. gr.

Tollyfirvöld skulu veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um skýrslugerð og tollskjöl sem krafist er vegna tollmeðferðar vara.

Ríkistollstjóri skal annast útgáfu leiðbeininga um tollskýrslugerð.

17. gr.

Tollstjóri getur neitað að taka við skjölum vegna tollmeðferðar vöru ef tollskýrsla er ekki rétt og nákvæmlega útfyllt, tilskilin gögn eru ekki afhent eða öðrum skilyrðum um tollmeðferð vöru er ekki fullnægt.

18. gr.

Tollyfirvöld geta áskilið að lögð séu fram skjöl og skilríki er varða vörusendingu ef það er nauðsynlegt til að staðreyna að atriði sem skipta máli varðandi tollmeðferðina hafi verið rétt tilgreind í tollskjölum eða ef það af öðrum ástæðum þykir nauðsynlegt vegna tollmeðferðar vörusendingarinnar.

Ef tollskjölum er ekki skilað innan þess frests sem ákveðinn er í þessari reglugerð eða ef ekki eru gefnar fullnægjandi upplýsingar eða lögð fram skjöl sem skylt er að leggja fram er heimilt að stöðva tollafgreiðslu til viðkomandi aðila.

19. gr.

Sá sem ráðstafar vöru til tollmeðferðar ber ábyrgð á því að þær upplýsingar séu réttar sem veittar eru í tollskýrslu og fylgiskjölum hennar.

20. gr.

Ríkistollstóri getur sett nánari reglur um framkvæmd samkvæmt reglugerð þessari.

Gildistaka o.fl.

21. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimildum í 14., 15., 18., 20., 23., 121. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, skal öðlast gildi 1. júlí 1993. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 38/1969, um afhendingu aðflutningsskjala til tollmeðferðar, reglugerð nr. 257/1970, um gerð og afhendingu aðflutningsskýrslu til tollmeðferðar, auglýsing nr. 92/1972, um notkun heimildar í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 1/1970, um tollskrá o.fl. og 1.-3. gr. auglýsingar nr. 401/1987, um tollamál.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal auglýsing nr. 64/1992, um gjaldskrá fyrir tollskýrslueyðublöð, sbr. reglugerð nr. 288/1992, um breyting á henni, falla úr gildi þegar í stað.

Við gildistöku reglugerðar þessarar skal nota eyðublöð samkvæmt henni í stað þeirra eyðublaða sem um ræðir í reglugerð nr. 41/1957, um tollheimtu og tolleftirlit, og reglugerð nr. 56/1961, um tollvörugeymslur, með síðari breytingum, þar sem fjallað er um framlagningu tollskjala í þeim tilvikum sem reglugerð þessi fjallar um.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til tölvuvinnsla upplýsinga úr útflutningsskýrslum verður tekin upp skulu útflytjendur afhenda tollstjórum útflutningsskýrslur í þríriti í samræmi við fyrirmynd í fylgiskjali IV, ásamt tilheyrandi tollskjölum í einriti. Ríkistollstjóri skal auglýsa þegar tölvuvinnsla upplýsinga úr útflutningsskýrslum verður tekin upp og frá þeim tíma skulu útflytjendur nota útflutningsskýrslueyðublöð í samræmi við 2. gr. reglugerðar þessarar.

Fjármálaráðuneytið, 4. júní 1993.

F.h.r.
Indriði H. Þorláksson

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Viðauki:

sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica