I. KAFLI
Um Tollskóla ríkisins og starfsnám.
1. gr.
Við embætti tollstjórans í Reykjavík skal starfræktur Tollskóli ríkisins er veiti tollstarfsmönnum almenna menntun í tollfræðum, sbr. 3. og 5. gr., svo og sérmenntun í ýmsum greinum á sviði tollheimtu og tollgæslu.
Tollstjórinn í Reykjavík skal veita skólanum forstöðu og ræður stundakennara og annað starfslið til skólans. Tollgæslustjóri hefur umsjón með kennslu og prófun tollgæslumanna að því er varðar tollgæslustörf.
Yfirumsjón með starfsemi tollskólans hefur skólanefnd sem skipuð er starfsmanni fjármálaráðuneytisins tilnefndum af fjármálaráðherra, tollstjóranum í Reykjavík og tollgæslustjóra. Starfsmaður fjármálaráðuneytisins er formaður skólanefndar.
Skólanefnd kveður nánar á um námsefni í samræmi við ákvæði 3. og 5. gr. og skal gera tillögur um kennara til forstöðumanns skólans. Skal nefndinni heimilt að fella niður eða bæta við námsgreinum eftir því sem þörf þykir.
2. gr.
Almennu námi í tollskólanum í tollfræðum skal að jafnaði lokið innan tveggja ára frá ráðningu tollstarfsmanns. Skal því skipt í grunnnám er fari fram í tveimur önnum, sbr. 3. og 5. gr., og starfsnám er fari fram að loknu grunnnámi fyrri annar.
3. gr.
Tollstarfsmenn sem ráðnir hafa verið til reynslu í fastar tollstöður við tollendurskoðun eða tollgæslustörf að aðalstarfi skulu kvaddir til náms í tollskólanum svo fljótt sem við verður komið að mati viðkomandi tollstjóra og tollgæslustjóra.
Fyrri önn grunnnáms tollskólans skal standa yfir í tvo mánuði hið skemmsta.
Kennsla á fyrri önn grunnnáms skal miða að því að veita nemandanum nægjanlega undirstöðuþekkingu til þess að hann geti hafið störf sem nýliði við tollendurskoðun og tollgæslu. Eftirfarandi námsgreinar skulu kenndar:
1. Skipan tollheimtu og tolleftirlits.
Áhersla skal lögð á að veita nemendum almenna fræðslu um skipan tollamála innan stjórnkerfisins og þær grundvallarreglur sem stjórn þeirra er byggð á, tollstjórnina, starfsmenn við tollheimtu og tolleftirlit og almenna verkaskiptingu þeirra, réttindi og skyldur tollstarfsmanna samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi og menntun þeirra innan tollkerfisins.
2. Tollalöggjöf og reglur.
Nemendum skulu kynnt í grundvallaratriðum ákvæði laga um tollheimtu og tolleftirlit og tollvörugeymslur o. fl. svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim. Jafnframt skal farið yfir helstu lög og reglur um innflutningsbann, innflutningstakmarkanir og einkasölu.
3. Tollflokkun.
Nemendum skal veitt fræðsla um uppbyggingu flokkunarkerfis tollskrárinnar, meginreglur um flokkun vara í tollskránni og leiðbeint um notkun helstu skýringarrita. Jafnframt skal gerð grein fyrir þeim gjöldum sem lögð eru á innfluttar vörur með tilliti til flokkunar þeirra samkvæmt tollskrárlögum.
4. Vörufræði.
Gerð skal grein fyrir hugtakinu vara í tollalegum og almennum skilningi og framleiðslu, efnissamsetningu, gerð, eðli, virkni og notagildi ýmissa vörutegunda. Skal leitast við að tengja kennslu vettvangs- og skoðunarferðum í stofnanir og fyrirtæki sem vinna að rannsókn eða framleiðslu mikilvægustu vörutegunda. Miða skal að því að í starfsnámi geti nemandi hagnýtt sér nám í vörufræði við flokkun vara samkvæmt tollskrá.
5. Gerð aðflutningsskýrslu og útreikningur aðflutningsgjalda.
Farið skal yfir helstu reglur sem gilda um afhendingu og frágang aðflutningsskýrslu, vörureiknings og annarra staðfestingarskjala. Kennd skulu undirstöðuatriði við ákvörðun tollverðs og útreikningur þeirra gjalda sem innheimt eru í tolli. Leiðbeint skal um notkun þeirra eyðublaða sem notuð eru vegna tollheimtu og tolleftirlits, s. s. aðkomuskjala, aðflutningsskýrslu, endursendingarbeiðna og útflutningsvottorða, skoðunargjörða, búslóðayfirlýsinga, tollseðla og bráðabirgðatollafgreiðslna.
6. Reikningshald, verslunarréttur og milliríkjaviðskipti.
Kennd skulu grundvallaratriði bókhalds og reikningsskila svo og þau ákvæði verslunarréttar er snerta flutning varnings milli landa. Lögð skal áhersla á þau ákvæði sem snerta milliríkjaviðskipti og kynnt þau gögn er almennt eru notuð í því sambandi, t. d. farmskírteini, vörureikningar o. fl.
7. Tollgæslufræði.
Nemendum skal gerð grein fyrir starfssviði tollgæslunnar og helstu eftirlitsþáttum sem tengjast samgöngum við landið. Kynntar skulu í meginatriðum þær aðferðir er tollgæslan beitir við eftirlitsstörf, m. a. til að hindra ólöglegan inn- og útflutning.
8. Tungumál.
Áhersla skal lögð á að æfa nemendur í réttritun íslensku, liðlegri setningaskipan og setningu greinarmerkja svo og að kynna þeim undirstöðuatriði í málfræði hennar. Gera skal nemandann hæfan til að tjá sig bæði munnlega og skriflega. Kennd skal enska og danska eftir því sem þurfa þykir og skal áhersla lögð á orðaforða og lestur efnis sem snertir þau viðfangsefni sem tollstarfsmenn sinna í starfi sínu.
9. Vélritun og skýrslugerð.
Veitt skal leiðsögn í vélritun svo sem þurfa þykir. Kennd skulu grundvallaratriði skýrslugerðar og tilkynninga. Farið skal yfir niðurröðun efnis, málfar og efnisatriði frumskýrslna. Tekin verði til meðferðar eftirtalin atriði: Tilgangur skýrslugerðar, notkun skýrslueyðublaða og niðurröðun efnis, lýsing á vörum, tilkynningar mótteknar og útsendar, vitni, grunaður, vettvangslýsing og skráning, röðun og vistun skjala.
10. Löggæsluæfingar.
Tollstarfsmenn skulu fá líkamlega þjálfun er miði að því að gera þá hæfa til þess að framfylgja með festu lögum og reglu og með valdi ef nauðsyn ber til. Kennd skulu undirstöðuatriði við handtöku og sjálfsvörn. Jafnframt skulu tollgæslumenn fá sundkennslu og æfingar í björgun manna frá drukknun.
4. gr.
Þegar tollstarfsmaður hefur lokið fyrri önn grunnnáms skv. 3. gr. og staðist próf að því loknu hefst starfsnám hans sem standa skal yfir í a. m. k. átta mánuði.
Verði því við komið að mati viðkomandi tollstjóra og tollgæslustjóra, skal starfsnám fara fram að hluta við tollembætti sem skipað er fjölmennu liði tollstarfsmanna þar sem reyni á sem flesta þætti tollheimtu- og tolleftirlitsstarfsins.
Starfsnám skal fara fram undir eftirliti viðkomandi tollstjóra, tollgæslustjóra, eða yfirmanns sem tilnefndur er af þeim, og skal því hagað í samræmi við reglur sem skólanefnd setur.
Yfirmaður tollstarfsmanns sem eftirlit hefur með starfsnámi hans skal að því loknu og áður en nám á síðari önn grunnnáms hefst senda skólanefnd skýrslu um starfsnám tollstarfsmannsins.
5. gr.
Tollstarfsmaður sem lokið hefur starfsnámi skv. 4. gr. skal svo fljótt sem aðstæður leyfa kvaddur til náms á síðari önn grunnnáms sem standa skal yfir í fjóra mánuði hið skemmsta. Kennsla á síðari önn skal miða að því að veita tollstarfsmanni staðgóða menntun í almennu tollheimtu- og tollgæslustarfi. Eftirfarandi námsgreinar skulu kenndar:
1. Skipan tollheimtu og tolleftirlits.
Farið skal yfir meginefni laga um tollheimtu og tolleftirlit og laga um tollvörugeymslur o. fl. og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim. Skal fræðsla sérstaklega veitt um eftirfarandi:
2. Tollskylda og tollfrelsi.
Nemendum skal gerð grein fyrir meginreglum þeim sem fjalla um tollskyldu og tollfrelsi samkvæmt ákvæðum laga um tollskrá o. fl. og sérlaga svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim. Kennslan skal taka m. a. til eftirfarandi:
3. Tollflokkun.
Farið skal fræðilega yfir greiningu vara samkvæmt flokkum, köflum, undirköflum og númerum tollskrárinnar. Skal áhersla lögð á beitingu almennra reglna um túlkun tollskrárákvæða og leiðbeint um notkun lögskýringargagna, útskurða og álita um tollflokkun vara og skýringarrita við tollnafnaskrá Tollsamvinnuráðsins.
4. Vörufræði.
Samhliða námi í flokkun vara í tollskrá skal kennd vörufræði. Kennsla í þeirri grein skal taka til námsefnis á sviði matvælarfræði, eðlis- og efnafræði, efnaiðnaðar, viðarfræði, spunaiðnaðar, málmfræði, vélfræði og rafmagnsfræði. Nám skal eftir föngum tengt vettvangs- og kynnisferðum í stofnanir og fyrirtæki sem stunda rannsóknir eða framleiðslu í þessum greinum.
5. Aðflutningsskjöl og útreikningur aðflutningsgjalda.
Gerð skal ítarleg grein fyrir meginreglum þeim sem gilda um afhendingu og frágang aðflutningsskýrslu og staðfestingarskjala sem afhenda ber með henni vegna tollmeðferðar á aðfluttum vörum, m. a. vörureikningi, pökkunarlista, farmskírteini, flutningsskilríki o. þ. h. Jafnframt skal nemendum veitt kennsla í reglum þeim sem gilda um ákvörðun tollverðs vöru og umreikning þess í innlenda fjárhæð samkvæmt reglum um tollafgreiðslugengi.
Farið skal yfir lög og reglur um álagningu gjalda sem innheimt eru við tollmeðferð á vöru og kynntir þeir eftirlitsþættir sem sérstaklega ber að hafa í huga við endurskoðun útreiknings innflytjanda í aðflutningsskýrslu og önnur atriði sem upplýsa skal í aðfluntingsskýrslu. Í þessu sambandi skal gerð grein fyrir ferli tollskjala vegna upplýsingaöflunar og endurskoðunar og vörslu þeirra af hálfu Hagstofu Íslands og ríkisendurskoðunar.
Ennfremur skal leiðbeint um eftirfarandi atriði: Undirstöðuatriði verðútreikninga, endurgreiðslubeiðnir, bifreiðalýsingu, innflutningsleyfi, framhalds- og gegnumflutningur, skjöl varðandi tímabundinn innflutning, heilbrigðisvottorð og matsgerðir og tjónaskýrslur.
6. Reikningshald og verslunarréttur.
Lögð skal áhersla á þá þætti sem snerta viðfangsefni sem unnið er að í tollstarfseminni. Gerð skal grein fyrir aðalatriðum í reikningsskilum fyrirtækja. Kennsla skal miða að því að nemendur geti framkvæmt vörutalningar í fyrirtækjum með hliðsjón af bókhaldi þeirra vegna uppgjörs gjalda af vörunum eða framleiðslu úr þeim.
7. Útflutningur.
Gerð skal grein fyrir reglum um útflutning og skjölum og eyðublöðum sem honum tengjast. Leiðbeint skal um útreikning útflutningsgjalda og eftirlit með heimtu þeirra.
8. Ýmis lög og reglur.
Farið skal yfir meginreglur laga, reglugerða og annarra fyrirmæla sem fjalla um eftirfarandi atriði:
1. Varnir, gegn alidýra- og jurtasjúkdómum og öðrum sjúkdómum.
2. Verslun með einkasöluvörur.
3. Innflutningstakmarkanir á sendi- og móttökutækjum, vopnum, sprengiefnum, lyfjum, geislavirkum efnum, eiturefnum og fíkniefnum.
4. Skipan innflutnings- og gjaldeyrismála.
9. Tollgæslufræði.
Veitt skal sérstök fræðsla um starfssvið tollgæslunnar, umferðarrétt og rétt til eftirlits og rannsókna á hafnarsvæðum og flugvöllum og rétt til rannsókna og töku vara sem þar eru geymdar, rétt til leitar í skipum, flugvélum og húsum, á mönnum og í farangri, upplýsingaskyldu gagnvart tollyfirvöldum og afgreiðslu vara í utanlandsferðum.
Kynnt skal eftirlit með útflutningi, tollvörugeymslum og tollfrjálsu fylgifé, búnaði og vistun í förum í utanlandsferðum og upplýst um reglur þær sem gilda um innflutning sendiráða erlendra ríkja og starfsmanna þeirra og stjórnarpóst.
10. Refsiréttur.
Skýrð skulu grundvallarhugtök almennra hluta refsiréttarins og þau tengd algengustu brotum á sviði tollamála. Gerð skal grein fyrir hugtökunum tilraun og hlutdeild, ásetningur, fullframning brots, varnaðaráhrif refsinga, hugtakinu refsing og önnur viðurlög og brot í opinberu starfi.
11. Meðferð opinberra mála.
Farið skal yfir meginreglur laga um meðferð opinberra mála og aðgreiningu þeirra frá einkamálum svo og tengsl opinberra mála og refsiréttar. Veitt almennt yfirlit um skipulag og hlutverk dómstólanna, ákæruvaldsins, tollyfirvalda og tollgæslunnar; kæruskyldu og frumkvæði tollgæslunnar til aðgerða vegna refsiverðrar háttsemi; frumrannsókn opinbers máls og ráðstöfun þess að henni lokinni; heimildum dómara og tollyfirvalda til þess að ljúka opinberu máli án málshöfðunar; rannsókn og meðferð opinbers máls fyrir dómi; fullnustu refsidóma; almennt um sakborning og réttarstöðu hans; valdbeitingu tollgæslumanna, handtöku, gæsluvarðhaldi, haldi á vörum og leit; yfirheyrslu sakbornings og vitnis.
12. Rannsókn brota.
Kenndar skulu aðalreglur um rannsókn afbrota og farið yfir rannsókn nokkurra flokka afbrota á sviði tollamála. Kennd skal yfirheyrslutækni, aðferð við leit í skipum, flugvélum og öðrum farartækjum, húsum og opnum svæðum, leit á mönnum og í farangri. Leiðbeint skal um notkun helstu tækja og gagna sem notuð eru við rannsókn mála.
13. Sálarfræði.
Farið skal yfir nokkur hagnýt atriði sálarfræðinnar varðandi tollheimtu- og tollgæslustarfið og samskipti við fólk.
14. Erlend mál.
Kennsla skal beinast að tungumálum, ensku og norðurlandamáli, sem einkum reynir á í tollstarfinu og skal áhersla lögð á lestur efnis er veitir tollstarfsmönnum þjálfun í úrvinnslu þeirra gagna sem tengjast tollafgreiðslu vara og afgreiðslu fara í utanlandsferðum.
15. Löggæsluæfingar.
Æfingar í framkvæmd ýmissa tollgæsluaðgerða, meðferð og beiting tollgæslutækja, sjálfsvörn, sund og leikfimi.
6. gr.
Í lok annar grunnnáms skv. 3. og 5. gr. skulu nemendur prófaðir í námsgreinunum og þeim gefnar einkunnir í heilum tölum frá 1-10. Til þess að standast próf þarf nemandi að fá einkunnina 5 hið minnsta í hverri grein. Fyrir verklega þjálfun, þ. m. t. starfsnám, má gefa tvær einkunnir, fullnægjandi eða ófullnægjandi.
Skrifleg próf dæmir hlutaðeigandi kennari einn. Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess, innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur staðist próf, ekki una mati kennarans, getur hann snúið sér til skólanefndar. Skal þá skólanefnd, í samráði við forstöðumann tollskólans, skipa prófdómara í hverju tilviki.
Við munnleg próf skal vera prófdómari og dæma kennari og prófdómari í sameiningu. Hvor um sig skal gefa sjálfstæða einkunn fyrir úrlausn og gilda þær jafnt í einkunnagjöf. Kennarar eða meirihluti nemenda geta óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi, telji þeir til þess sérstaka ástæðu.
Skólanefnd setur nánari reglur um framkvæmd prófa.
7. gr.
Um framhaldsnám o. fl.
Tollstarfsmenn skulu eftir því sem við verður komið eiga kost á endurmenntunarnámskeiði innan fimm ára frá því að þeir luku námi við tollskólann og síðan á a. m. k. 10 ára fresti. Á námskeiðinu skal rifja upp námsefni grunnnámsins og kynntar lagabreytingar og nýjungar sem snerta störf tollstarfsmanna.
8. gr.
Við tollskólann skal heimilt að starfrækja framhaldsdeild. Kennsla framhaldsdeildar skal miða að því að gera nemendur hæfa yfirmenn í tollheimtu- og tollgæslustörfum. Námsefni skal ákveðið af skólanefnd í samráði við fjármálaráðuneytið, sem ákveður fjölda þátttakenda í náminu að undangenginni auglýsingu.
Um próf í námsefni við framhaldsdeild tollskólans skulu gilda ákvæði 6. gr.
Miða skal að því að yfirmenn verði ekki skipaðir nema þeir hafi lokið framhaldsdeildarprófi.
9. gr.
Í tollskólanum skulu haldin námskeið í ýmsum sérgreinum tollheimtu og tolleftirlits, þ. á. m. tollflokkun, vörufræði, bókhaldi og reikningsskilum, rannsókn brota, fíkniefnarannsóknum o. fl. samkvæmt nánari ákvörðun skólanefndar.
10. gr.
Við tollskólann skulu haldin námskeið fyrir lausráðna starfsmenn og starfsmenn í hlutastarfi. Jafnframt skal heimilt að halda sérstök námskeið fyrir almennt skrifstofufólk er starfar að tollamálum. Námsefni og kennsla skulu ákveðin af skólanefnd með hliðsjón af námsefni skv. 3. og 5. gr.
11. gr.
Við tollskólann skal vera a. m .k. einn yfirkennari í fullu starfi. Auk almennrar kennslu skal hann hafa umsjón með öflun kennslubóka og annars námsefnis og skipulagningu skólastarfsins undir stjórn forstöðumanns hans sem jafnframt getur falið honum önnur störf við embættið.
12. gr.
Skólanefnd er heimilt í samráði við viðkomandi skólayfirvöld að láta kennslu og próf í einstökum námsgreinum skv. 3. og 5. gr. fara fram í almennum skólum og sérskólum skólakerfisins telji hún kennslu betur fyrir komið með þeim hætti.
Skólanefnd getur í samráði við forstöðumann tollskólans heimilað tollstarfsmönnum og starfsmönnum fyrirtækja sem fást við innflutning og útflutning á vörum eða þjónustu að taka þátt í námi í einni eða fleiri námsgreinum sem kenndar eru við skólann eða námskeiði sem þar er haldið, enda geti það fallið að og samrýmst eðlilegu skólahaldi. Skulu fyrirtæki sem óska eftir að láta starfsmenn sína taka þátt í starfsemi skólans með ofangreindum hætti greiða skólagjöld eins og þau eru ákveðin af fjármálaráðuneytinu á hverjum tíma.
II. KAFLI
Um veitingu í fastar tollstöður.
13. gr.
Þeir sem ráðnir verða í tollstöður við tollendurskoðun eða tollgæslu skulu auk almennra skilyrða 3. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
1. Umsækjandi skal hafa lokið grunnskóla, fjölbrautarskóla, menntaskóla eða sérskóla er veiti sambærilega menntun. Sérstök áhersla er lögð á góða kunnáttu í íslensku. Skal honum skylt að gangast undir hæfnispróf í íslensku og vélritun. Umsækjandi skal hafa vald á einhverju Norðurlandamálanna, ensku eða þýsku.
2. Umsækjandi um stöðu tollgæslumanns skal auk skilyrða 1. tl. fullnægja þeim skilyrðum að vera á aldrinum 20-30 ára, andlega og líkamlega heilbrigður og skal honum skylt að gangast undir læknisskoðun trúnaðarlæknis sé þess krafist. Jafnframt skal hann hafa almenn ökumannsréttindi til bifreiðaaksturs og vera syndur.
Heimilt er að víkja frá einstökum skilyrðum 1. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því.
14. gr.
Skólanefnd, sbr. 1. gr., skal sent afrit af umsókn viðkomandi ásamt tilheyrandi gögnum.
Getur nefndin látið umsækjanda gangast undir almennt hæfnispróf eða hæfnispróf í einstökum greinum og óskað eftir frekari gögnum um einstök atriði umsóknar áður en endanleg ákvörðun er tekin um afgreiðslu hennar.
15. gr.
Þegar tollstarfsmaður hefur verið ráðinn til starfa við tollendurskoðun eða tollgæslustörf ber að líta á fyrstu tvö starfsár hans sem reynslu- og námstíma, sbr. 3.-5. gr.
16. gr.
Eigi skal ráða eða skipa í fastar tollstöður við tollendurskoðun eða tollgæslu aðra en þá sem staðist hafa próf frá tollskólanum. Víkja má frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.
17. gr.
Lausráðnir starfsmenn sem sinna tímabundnum verkefnum skulu sækja undirbúningsnámskeið sem haldin eru fyrir þá, nema miklum erfiðleikum sé bundið að koma því við að senda þá á námskeið.
18. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæm 5. gr. laga nr. 59 28. maí 1969 um tollheimtu og tolleftirlit með síðari breytingum öðlast þegar gildi. Ákvæði reglugerðar þessarar taka þó ekki til yfirstandandi náms við tollskólann og skal um kennslu og próf í því námi fara venju samkvæmt.
Fjármálaráðuneytið, 18. febrúar 1983.
Ragnar Arnalds.
Höskuldur Jónsson.