Fjármálaráðuneyti

607/1995

Reglugerð um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. - Brottfallin

Reglugerð

um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

I.KAFLI

Hlutverk.

1.gr.

            Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir fjármálaráðherra.

2.gr.

            ÁTVR hefur með höndum eftirtalin verkefni:

  1. Innkaup og innflutning á vínanda og áfengi.
  2. Birgðahald og innflutning á vínanda og áfengi.
  3. Sölu á vínanda og áfengi til framleiðenda áfengra dryggja, lækna og lyfsala og annarra sem rétt hafa til lyfjasölu svo og sölu á vínanda sem eldsneyti, til iðnaðar, efnarannsókna, náttúrugripasafna og annarra starfstengdra nota.
  4. Rekstur vínbúða.
  5. Innkaup, innflutning, heildsölu og dreifingu á tóbaki.
  6. Framleiðslu á neftóbaki.

3.gr.

            ÁTVR skal sinna verkefnum þeim sem versluninni eru falin í 2. gr. í samræmi við lög nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, áfengislög nr. 82/1969, með síðari breytingum og reglugerð þessa. Starfsemi ÁTVR skal miða við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna, sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila arði sem telst hæfilegur, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri hennar.

II.KAFLI.

Stjórn

4.gr.

            Ráðherra skipaar þrjá menn í stjórn ÁTVR til tveggja ára í senn og jafnmarga til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.

5.gr.

            Yfirstjórn ÁTVR er í höndum stjórnar í umboði ráðherra. Stjórnin markar stefnu og samþykkir starfsáætlun og rekstraráætlun hvers árs að fenginni tillögu forstjóra. Hún hefur eftirlit með rekstri. Hún kynnir ráðherra starfsáætlun, rekstraráætlun og skýrslu forstjóra um starfsemi og afkomu ÁTVR.

6.gr.

            Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Fundir stjórnar eru lögmætir ef a.m.k. tveir stjórnarmanna eru á fundinum. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar til bókar. Forstjóri ÁTVR situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

7.gr.

            Rísi ágreiningur á stjórnarfundi um afgreiðslu einstakra mála sem stjórnin fjallar um getur hver stjórnarmanna eða forstjóri óskað þess að málið verði lagt fyrir ráðherra.

8.gr.

            Ráðherra skipar forstjóra ÁTVR. Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri. Hann ræður starfsfólk og ákveður starfssvið þess í samræmi við þarfir verslunarinnar. Hann ber ábyrgð á bókhaldi og fjárreiðum, semur starfsáætlun og rekstraráætlun fyrir hvert ár í samráði við stjórnina og leggur þær fyrir stjórnina til samþykktar. Hann semur árlega skýrslu um starfsemi og afkomu og kynnir stjórninni hana. Hann sér um framkvæmd þeirra mála sem stjórnin felur honum og kemur fram út á við fyrir hönd ÁTVR.

III.KAFLI

Deildaskipting.

9.gr.

            ÁTVR starfar í tveimur deildum, söludeild og aðfangadeild. Starfsemi deildanna, eignum, rekstrarkostnaði o.fl. skal haldið aðgreindu í bókhaldi.

            Varanlegir rekstrarfjármunir skulu í bókhaldi færðir sem hluti annarrar hvorrar deilda hennar eftir því til starfsemi hvorrar deildar þeir eru nýttir. Eign sem báðar deildir nýta skal talin til eignar hjá hvorri deild um sig í því hlutfalli sem eignin er nýtt til starfsemi hennar.

            Kostnaður af rekstri skal færður á aðra hvora deildina í bókhaldi, eftir því af hvaða starfsemi kostnaður stafar. Kostnaði, sem eigi verður þannig aðgreindur, skal skipt á deildir í hlutfalli við not deildanna af viðkomandi starfsemi.

IV.KAFLI

Söludeild.

10.gr.

            Söludeild ÁTVR hefur með höndum eftirtalin verkefni:

  1. Rekstur vínbúða.
  2. Birgðahald og dreifingu á áfengi til vínbúða.
  3. Ákvarðanir um innkaup á áfengi í samræmi við reglur um vöruval.
  4. Sölu á vínanda og áfengi til framleiðenda áfengra drykkja, lækna og lyfsala og annarra sem rétt hafa til lyfjasölu svo og sölu á vínanda sem eldsneyti, til iðnaðar, efnarannsókna, náttúrugripasafna og annarra starfstengdra nota.
  5. Heildsölu og dreifingu á tóbaki.
  6. Framleiðslu á neftóbaki.

11.gr.

            Söludeild skal sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með það að markmiði að starfsemi deildarinnar sé sem hagkvæmust. Söluálagningu skal miða við að deildin afli tekna, sem nægi til að greiða rekstrarkostnað hennar og skila arði sem telst hæfilegur, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri hennar.

Ákvarðanir um innkaup.

12.gr.

            Söludeild tekur ákvarðanir um innkaup á áfengi. Ákvarðanir skulu byggjast á reglum um vöruval, sbr. 13-20. gr.

            Þegar ákvörðun hefur verið tekin um innkaup á sölutegund skal aðfangadeild falið að annast útvegun vörunnar.

Vöruval

13.gr.

            Stjórn ÁTVR skal setja sérstakar reglur um val á vöru til sölu í vínbúðum. Reglurnar skulu annars vegar miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda og hins vegar að því að tryggja framleiðendum og innflytjendum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í vínbúðum. Reglurnar skulu hljóta staðfestingu ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

14.gr.

            Í vöruvalsreglum ÁTVR skal sölutegundum áfengis, sem ÁTVR hefur á boðstólum, skipt í eftirtalda söluflokka eftir sölumeðferð: kjarna, reynsluflokk, mánaðarflokk, sérflokk og sérpantanir. Áfengi í kjarna og í reynsluflokki skal einnig skipt upp í vöruflokka eftir þeim megineinkennum sem áfengið hefur vegna framleiðsluaðferða eða hráefnis sem notað var við framleiðsluna. Heimilt er að skipta einstökum vöruflokkum frekar upp, t.d. eftir útsöluverði. Einnig er heimilt að kveða á um hámarksstærð og lágmarksstærð umbúða sölutegunda í einstökum vöruflokkum.

15.gr.

            Þær sölutegundir áfengis, sem skráðar eru til almennrar ótímabundinnar sölu í flestum vínbúðum ÁTVR hverju sinni eru í kjarna. Í kjarna skal bæta þeim sölutegundum sem færast upp úr reynsluflokki hverju sinni, sbr. 16. gr. Nái sölutegund í kjarna ekki tilteknu hlutfalli af heildarsölu sölutegunda í sama vöruflokki á tilteknu sölutímabili, skal hún falla úr kjarna og skal þá ekki keypt inn að nýju þegar birgðir hennar þrjóta. Með heildarsölu er átt við samanlagða sölu í þeim vínbúðum sem hafa falar allar tegundir í kjarna, að frátalinni sölu á vöru í sérflokki og sérpöntunum.

            Ef tvær eða fleiri sölutegundir sömu áfengistegundar eru boðnar til sölu og hvorug eða engin þeirra nær áskildu söluhlutfalli, en samanlögð sala áfengistegundar nær söluhlutfallinu, þá skal sú sölutegund, sem mest hefur selst, haldast áfram í kjarna, en aðrar sölutegundir skulu falla úr kjarna. Í vöruvalsreglum ÁTVR skal kveðið á um söluhlutfall samkvæmt ákvæði þessu.

16.gr.

            ÁTVR skal á hverjum tíma selja tímabundið og til reynslu sölutegundir, sem ekki hafa áunnið sér rétt til sölu í kjarna. Sölutegundir sem seldar eru með þessum hætti flokkast í reynsluflokk. Í vöruvalsreglum ÁTVR skal kveðið nánar á um sölu áfengis í reynsluflokki, m.a. um sölustaði, sölutímabil, söluhlutfall sem sölutegund í reynsluflokki þarf að ná til að færast í kjarna og val á áfengistegundum til reynslusölu.

17.gr.

            ÁTVR getur haft til sölu í vínbúðum sínum áfengistegundir, sem hvorki eru í kjarna né reynsluflokki, ef þær eru sérstaklega ætlaðar til sölu á ákveðnum árstímum, enda séu þær að innihaldi frábrugðnar öðrum áfengistegundum frá sama áfengisframleiðanda og hefð fyrir sölu þeirra á ákveðnum árstíma. Þær áfengistegundir sem boðnar eru til sölu með þessum hætti skulu flokkast í mánaðarflokk. Þær skulu ekki vera lengur til sölu en í sex vikur samfellt.

18.gr.

            Auk vöru í kjarna, reynsluflokki og mánaðarflokki getur ÁTVR haft á boðstólum í einni eða fleiri vínbúðum sínum áfengistegundir, sem ekki teljast til þessara flokka, en nauðsynlegt þykir að bjóða til sölu til að tryggja viðunandi fjölbreytni í vöruúrvali og þjóna eftirspurn kaupenda. Áfengistegundir seldar með þessum hætti skulu flokkast í sérflokk. Á skrifstofu ÁTVR skal leggja fram skrá yfir sölutegundir þær og magn þeirra sem áform eru um að skrá í sérflokk og leita verðboða. Skráin skal liggja frammi a.m.k. sex vikum áður en ákvörðun er tekin um kaup.

19.gr.

            ÁTVR skal halda uppi pöntunarþjónustu á áfengi, sem ekki er boðið til sölu skv. ákvæðum 15. - 18. gr. M.a. skulu áfengisbirgjar eiga þess kost að skrá vörur sínar á pöntunarlista ÁTVR, sem liggja skal frammi í vínbúðum. Með skráningu á pöntunarlista skuldbinda birgjar sig til afgreiðslu á pöntunum til ÁTVR innan tiltekinna tímamarka á föstu verði og taka ábyrgð á seldri vöru.

            Í vöruvalsreglum skal nánar kveðið á um sölu áfengis í pöntunarþjónustu, m.a. um verðlagningu og söluskilmála.

20.gr.

            Vöruvalsreglur skulu endurskoðaðar fyrir 1. mars ár hvert í ljósi fenginnar reynslu og í því skyni að ná fram markmiðum þeim er fram koma í 13. gr. Að lokinni endurskoðun hverju sinni skulu reglurnar staðfestar af ráðherra á ný og birgar í heild.

Birgðahald og dreifing.

21.gr.

            Söludeild skal halda birgðir fyrir áfengi eftir því sem nauðsynlegt reynis til að þjónusta vínbúðir. Skal birgðahald verrar sölutegundar miðað við það sem hagkvæmt er með tilliti til aðfangakostnaðar og geymslukostnaðar, þ.m.t. fjárbindingar í birgðum.

            Söludeild annast dreifingu á áfengi frá geymslusvæði ÁTVR til vínbúða.

22.gr.

            Sala á áfengi frá vínbúðum til þeirra sem hafa áfengisheildsöluleyfi eða leyfi til vínveitinga og til þeirra sem um ræðir í d-lið 1. mgr. 10. gr., skal skráð sérstaklega, sbr. 9. gr. reglugerð nr. 585/1995, um framleiðslu, heildsölu og innflutning áfengis.

Vínbúðir.

23.gr.

            Söludeild ÁTVR rekur vínbúðir, þar sem áfengi er selt í smásölu.

            Ákvarðanir er varða rekstur á einstökum vínbúðum, t.d. um afgreiðslutím, mannahald o.fl. skulu teknar með hliðsjón af því, hvað er hagkvæmt á hverjum stað.

24.gr.

            Staðarval fyrir vínbúðir skal miðast við að vörudreifing sé sem sambærilegust um allt land að teknu tilliti til aðstæðna og hagkvæmni. Við staðarval skal tekið mið af líklegu þjónustusvæði, fjölda íbúa á svæðinu, kostnaði við stofnun og rekstur og fjarlægð frá öðrum vínbúðum.

25.gr.

            Óski sveitarstjórn eftir því að ÁTVR opni vínbúð í sveitarfélaginu, að undangengnu samþykki í almennri kosningu skv. 2. mgr. 10. gr. áfengislaga, skal fara fram athugun á umsókn með hliðsjón af ákvæðum 24. gr. Einnig skal kannað hversu hagkvæmur rekstur vínbúðar í sveitarfélaginu yrði, m.a. með tilliti til áhrifa á hagkvæmni nærliggjandi vínbúða.

            að lokinni könnun skv. 1. mgr. skal stjórn ÁTVR gera tillögu um það, hvernig með umsókn sveitarstjórnar skuli farið og afgreiðsla málsins borin undir ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu.

26.gr.

            Þegar ákvörðun um opnun vínbúðar liggur fyrir skal kanna heppilega staðsetningu hennar innan sveitarfélagsins út frá hagkvæmnissjónarmiðum, öryggissjónarmiðum og öðrum þeim sjónarmiðum er máli kunna að skipta. Skal í því efni haft samráð við viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórn. Stjórn ÁTVR ákveður staðsetninguna að fengnum tillögum forstjóra.

            Við flutning á vínbúð á milli staða innan sveitarfélags skal hafa sama hátt á og lýst er í 1. mgr.

Smásöluálagning og smásöluverð

27.gr.

Verð á einstökum sölutegundum áfengis skal ver hið sama í öllum vínbúðum ÁTVR.

28.gr.

            Verð á áfengi frá vínbúð skal ákveðið þannig að við afhendingarverðið frá aðfangadeild, sbr. 2. mgr. 36. gr., skal bætt þeim kostnaði við birgðahald, sem sérstaklega má rekja til mismunandi veltuhraða vöru og mismunandi greiðslukjara gagnvart birgjum. Við þannig ákveðið kostnaðarverð skal bætt álagningu, sem ákveðin er með tilliti til kostnaðar söludeildar og þess að hún skili arði eins og kveðið er á um í 11. gr. Álagningarhlutfallið skal vera hið sama innan hvers álagningarflokks, sbr. 29. gr.

            Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ÁTVR heimilt að lækka tímabundið smásöluverð vöru sem felld hefur verið úr kjarna, sbr. 15. gr.

29. gr.

            Við ákvörðun álagningarhlutfalla skv. 1. mgr. 28. gr. skal áfengi skipt upp í þjrá álagningarflokka, öl, léttvín og aðra áfenga drykki. Hverjum álagningarflokki má skipta upp í undirflokka eftir sölumagni, veltuhraða og eðli vöru. Skal álagning reiknuð fyrir hvern undirflokk um sig og ver hin sama fyrir allar sölutegundir innan hans.

30.gr.

            Við sölu á áfengi sem undanþegið er áfengisgjaldi eða ber lækkað áfengisgjald skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, sbr. 13. - 16. gr. reglugerðar nr. 477/1995, um áfengisgjald, skal álagning ÁTVR vera hin sama í krónum talin og við sölu á gjaldskyldu áfengi.

31.gr.

            Stjórn ÁTVR ákveður verðlagningu vínanda.

32.gr.

            Verð á tóbaki sem ÁTVR selur skal ákveðið með reglum sem fjármálaráðuneytið setur. Verð á neftóbaki sem ÁTVR framleiðir og selur skal ákveðið með sama hætti.

V. KAFLI.

Aðfangadeild.

33.gr.

            Aðfangadeild hefur með höndum eftirtalin verkefni:

  1. Innkaup og innflutning á áfengi og vínanda.
  2. Afhendingu á áfengi og vínanda inn á geymslusvæði söludeildar.
  3. Innkaup og innflutning á tóbaki til sölu og til neftóbaksgerðar.

34.gr.

            Aðfangadeild skal sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með það að markmiði að starfsemi deildarinnar sé sem hagkvæmust. Afhendingarverð þeirrar vöru sem deildin afhendir söludeild skal ákveðið þannig að það nægi til að greiða allan rekstrarkostnað deildarinnar.

Innkaup á áfengi.

35.gr.

            Aðfangadeild kaupir inn áfengi og vínanda frá innlendum eða erlendum heildsölum eða framleiðendum í samræmi við óskir söludeildar, sbr. 12. gr. Hagkvæmnissjónarmið skulu ráða því af hvaða aðila áfengi er keypt og skal tilboða leitað í innkaup eftir því sem við á.

            Við mat á hagkvæmni innkaupa skal miðað við afhendingarverð til söludeildar, eins og það er ákveðið skv. 2. mgr. 36. gr., að viðbættum sérstökum kostnaði við birgðahald, sbr. 1. ml. 1. mgr. 28. gr.

Afhending á áfengi til söludeildar.

36.gr.

            Aðfangadeild skal afhenda áfengi inn á geymslusvæði söludeildar í Reykjavík. Þó er heimilt að semja sérstaklega um afhendingu áfengis á öðrum stöðum, sé það hagkvæmt að mati ÁTVR og leiði ekki til hækkunar á dreifingarkostnaði söludeildar.

            Reikna skal verð á allt áfengi sem aðfangadeild afhendir söludeild og skal það vera hið sama fyrir hverja sölutegund um sig. Skal verðið nema kostnaði vegna innkaupanna miðað við afhendingu inn á geymslusvæði söludeildar, þ.e. innkaupsverði, flutningskostnaði, áfengisgjaldi og öðrum sérgreindum kostnaði vegna öflunar vörunnar að viðbættu álati.

            Álag skal ákvarðað þannig að það næti til að greiða kostnað af rekstri aðfangadeildar.

VI.KAFLI

Ýmis ákvæði.

37.gr.

            Stjórnarmenn, forstjóri og allir starfsmenn ÁTVR eru bundnir þagnarskyldu um öll þau atriði er þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

38.gr.

            Reikningsár ÁTVR er almanaksárið. Um bókhald, gerð ársreiknings og endurskoðun gilda lög nr. 145/1994, um bókhald, og eftir því sem við geta átt lög nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, og lög nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun. Ráðherra staðfestir ársreikning að lokinni endurskoðun.

39.gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr.63/1969, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. desembe 1995. Ákvæði 13. - 20. gr. öðlast þá ekki gildi fyrr en 1. mars 1996.

Fjármálaráðuneytið, 30. nóvember 1995.

Friðrik Sophusson.

Indriði H. Þorláksson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica