Innheimtumenn ríkissjóðs skulu innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum skemmtunum, sbr. 2. gr. laga nr. 58/1970, einnig þótt skemmtanaskattur sé ekki innheimtur af samkomu vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Innheimtumaður skal aðeins falla frá innheimtu ef tvímælalaust er að samkoma sé undanþegin virðisaukaskatti. Þeir löggæslumenn, sem annast löggæslu á viðkomandi skemmtun, skulu þegar að skemmtun lokinni afhenda samkomuhaldara virðisaukaskattsskýrslu, sem útfylla skal þá þegar í samræmi við fjölda seldra aðgöngumiða. Löggæslumenn skulu síðan innheimta á staðnum greiðslu samkvæmt skýrslunni og afhenda innheimtumanni innheimtuféð ásamt skýrslu næsta virkan dag.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu samkomuhús með fastan rekstur skila virðisaukaskatti á venjulegum gjalddögum, sbr. 24. gr. laga nr. 50/1988.
Innheimta skv. 1. gr. er bráðabirgðaskil virðisaukaskatts. Við skil skal útfylla virðisaukaskattsskýrslu þar sem fram kemur skattskyld velta (aðgangseyrir án virðisaukaskatts) og útskattur. Sé um innskatt að ræða vegna samkomunnar skal samkomuhaldari tilgreina hann á virðisaukaskattsskýrslu á reglulegum gjalddaga, sbr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Á þeirri skýrslu skal vísa til fyrri skýrslu um skattskylda veltu (aðgangseyri) og útskatt.
Ákvörðun lögreglustjóra um innheimtu skv. 1. gr. er kæranleg til skattstjóra í því umdæmi þar sem samkomuhaldari er heimilisfastur samkvæmt ákvæðum 29. gr. laga nr. 50/1988.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 289/1990, um sama efni.
Fjármálaráðuneytið, 7. febrúar 1991.
Ólafur Ragnar Grímsson
Guðrún Ásta Sigurðardóttir