Með orðinu vátryggingamiðlari í reglugerð þessari er átt við einstaklinga eða lögaðila sem fengið hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga.
Vátryggingamiðlurum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum vátryggingamiðlara eða þeirra sem starfa á hans ábyrgð.
Ábyrgðartrygging skal tekin hjá vátryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi hér á landi.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að leggja fram samsvarandi tryggingu í stað vátryggingar enda veiti hún sambærilega vernd að mati Fjármálaeftirlitsins.
Vátryggingamiðlari skal senda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á endurnýjun starfsábyrgðartryggingar.
Ábyrgðartrygging skal tekin til eins árs í senn og nema minnst 80 milljónum króna vegna hvers einstaks tjónsatviks sem verður á vátryggingartímabilinu. Heildarfjárhæð vátryggingarbóta innan hvers tímabils skal nema minnst 120 milljónum króna. Fjárhæðir þessar skulu miðast við vísitölu neysluverðs og skulu taka breytingum á fimm ára fresti í fyrsta skipti 1. janúar 2008, í samræmi við breytingar á samræmdri vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem birt er af Hagstofu Íslands frá gildinu 117,7 og breytingar á opinberu viðmiðunargengi evru, miðað við grunngengi 80 kr.
Ábyrgðartrygging samkvæmt 3. gr. skal taka til starfsemi vátryggingamiðlara hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu vátryggingartaka í vátryggingaskilmálum, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi vátryggingafélags, eða annars sem veitt hefur tryggingu.
Tilhögun eigin áhættu skal getið í vátryggingaskilmálum, eða skilmálum annarrar tryggingar. Um hana og tilgreiningu hennar fer að öðru leyti samkvæmt þeim reglum, sem gilda um vátryggingarsamninga.
Sá er veitt hefur vátryggingu og greitt bætur á endurkröfurétt á hendur þeim, sem valdið hefur tjóni ef hann hefur valdið því með háttsemi, sem telst stórkostlegt gáleysi.
Falli ábyrgðartrygging úr gildi, skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingartaka og Fjármálaeftirlitinu þegar í stað. Vátryggingatímabili telst ekki lokið fyrr en liðnir eru 14 dagar frá því að slík tilkynning var send með sannanlegum hætti. Að þeim tíma liðnum telst starfsleyfi vátryggingamiðlara fallið úr gildi, nema önnur fullnægjandi ábyrgðartrygging hafi verið fengin.
Skilmálar ábyrgðartryggingar samkvæmt reglugerð þessari skulu látnir Fjármálaeftirlitinu í té áður en þeir eru boðnir vátryggingamiðlurum.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 20. gr. laga um miðlun vátrygginga, nr. 32 frá 11. maí 2005, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 352/1997.
Vátrygging sem vátryggingamiðlari hefur í gildi við gildistöku reglugerðar þessarar má halda gildi sínu til 1. júlí 2005. Frá þeim degi skulu ábyrgðartryggingar vátryggingamiðlara sem fengið hafa starfsleyfi vera í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Vátryggingamiðlari skal afhenda Fjármálaeftirlitinu staðfestingu á starfsábyrgðartryggingu.