Viðskiptaráðuneyti

954/2001

Reglugerð um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga. - Brottfallin

I. KAFLI
Útreikningur aðlagaðs gjaldþols.
1. gr.
Aðlagað gjaldþol vátryggingafélags
sem á annað vátryggingafélag að dóttur- eða hlutdeildarfélagi.

Félag sem á annað félag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi er í reglugerð þessari nefnt hluteignarfélag.

Aðlagað gjaldþol vátryggingafélags sem á annað vátryggingafélag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi er gjaldþol þess skv. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, að frádregnum fjárhæðum sem verða til við að sömu eignir séu taldar beint eða óbeint hjá fleiri en einum aðila, sbr. 4. gr., svo og að frádregnum öllum eignum sem verða til við gagnkvæma fjármögnun, sbr. 5. gr. Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, hluteignarfélaga vátryggingafélagsins og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga.

Eignarhlutir í dóttur- og hlutdeildarfélögum skulu endurmetnir skv. ákvæðum 3. gr. þannig að m.a. séu felldar niður óefnislegar eignir þeirra félaga.

Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um eða heimilað að önnur aðferð en framangreind sé notuð við útreikning aðlagaðs gjaldþols, sbr. 12. gr.


2. gr.
Aðlagað gjaldþol móðurfélags sem ekki lýtur
gjaldþolsreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags, sem ekki er háð eftirliti eftirlitsstjórnvalds í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eða félags sem hefur eignarhald á vátryggingafélagi að meginstarfsemi, er aðlagað gjaldþol móðurfélagsins reiknað samkvæmt ákvæðum 1. gr. eins og það væri íslenskt vátryggingafélag. Við útreikninginn skal taka tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.


II. KAFLI
Mat á aðlöguðu gjaldþoli.
3. gr.
Endurmat á eignarhlutum í dóttur- og hlutdeildarfélögum.

Við mat á aðlöguðu gjaldþoli skv. 1. gr. skal endurmeta þá eignarhluti í hlutdeildar- og dótturfélögum sem mynda hluta af gjaldþoli. Við endurmatið skal nota sömu aðferðir og notaðar eru við að meta gjaldþol vátryggingafélags, sbr. 1. og 2. mgr. 29. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, og 2. gr. reglugerðar nr. 494/1997 um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreikning lágmarksgjaldþols.

Hlutfall í fjárhæð eignaliða sem geta verið hluti af gjaldþoli hlutdeildar- eða dótturfélags skal vera það sama og notað er við reikningsskil þegar hlutdeild í eigin fé er metin. Þannig endurmetin fjárhæð skal notuð í stað hlutdeildar í bókfærðu eigin fé hlutdeildar- og dótturfélaga við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli.

Gjaldþol erlendra dóttur- og hlutdeildarfélaga sem eru vátryggingafélög skal meta eftir sömu reglum og gilda um íslensk vátryggingafélög. Heyri dóttur- eða hlutdeildarfélagið undir eftirlitsstjórnvöld í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er Fjármálaeftirlitinu þó heimilt að nota gjaldþolsmat eftirlitsstjórnvalds heimaríkisins við mat á því félagi.


4. gr.
Lækkun aðlagaðs gjaldþols vegna tví- eða margnýtingar eignaliða.

Við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli skal draga frá gjaldþoli, sbr. 1. gr.:

1. Þær eignir sem einnig mynda hluta af gjaldþoli hlutdeildarfélags eða dótturfélags.
2. Þær eignir hlutdeildar- og dótturfélaga sem einnig mynda hluta af gjaldþoli þess félags sem verið er að ákvarða aðlagað gjaldþol fyrir.
3. Þær eignir hlutdeildar- og dótturfélaga sem mynda hluta af gjaldþoli annars hlutdeildar- eða dótturfélags.

Þessum aðferðum skal beita hvort sem eignin er bein eða óbein, þannig að tryggt sé að hver eignaliður sé ekki nýttur oftar en einu sinni í aðlöguðu gjaldþoli viðkomandi félags.


5. gr.
Lækkun aðlagaðs gjaldþols vegna gagnkvæmrar fjármögnunar.

Ekki skal telja til aðlagaðs gjaldþols neinar eignir sem verða til við gagnkvæma fjármögnun vátryggingafélagsins sem verið er að reikna aðlagað gjaldþol fyrir, sbr. 1. gr. og hlutdeildar- eða dótturfélags, hluteignarfélags vátryggingafélagsins, né annars hlutdeildar- eða dótturfélags hluteignarfélags vátryggingafélagsins.

Ekki skal telja til aðlagaðs gjaldþols eignir hlutdeildar- og dótturfélaga sem myndaðar eru með gagnkvæmri fjármögnun við annað hlutdeildar- eða dótturfélag.

Gagnkvæm fjármögnun telst það meðal annars að eitt félag eigi hlutafé í öðru félagi eða kröfu á það, en það félag eigi eignir sem teljist til gjaldþols fyrra félagsins.


6. gr.
Takmarkanir á nýtingu ákveðinna gjaldþolsliða.

Ágóðajöfnunarskuld og framtíðarhagnað í líftryggingum má aðeins telja sem hluta af gjaldþoli þess líftryggingafélags þar sem þessir liðir eru myndaðir, sbr. 6. og 9. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 494/1997 um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreikning lágmarksgjaldþols. Sama máli gegnir um ágóðaskuld vátryggingafélags, sbr. áðurnefndan 6. tölul., og eignfærðan sölukostnað, sbr. 10. tölul. sömu greinar í reglugerð nr. 494/1997.

Óinnborgað hlutafé í hlutdeildar- og dótturfélögum getur aðeins myndað hluta gjaldþols í viðkomandi hlutdeildar- eða dótturfélagi. Óinnborgað hlutafé, sem hugsanlega skuldbindur hluteignarfélagið, skal ekki talið með. Óinnborgað hlutafé í því vátryggingafélagi sem aðlagað umframgjaldþol er reiknað fyrir, skal ekki talið til gjaldþols ef það skuldbindur hlutdeildar- eða dótturfélag sem er vátryggingafélag. Óinnborgað hlutafé í hlutdeildar- eða dótturfélagi skal ekki talið með ef það skuldbindur annað hlutdeildar- eða dótturfélag séu bæði félögin vátryggingafélög.

Telji Fjármálaeftirlitið að eignaliðir sem mynda hluta af gjaldþoli hlutdeildar- eða dótturfélags sem er vátryggingafélag, aðrir en þeir sem um ræðir í 1. og 2. mgr., séu ekki tiltækir til þess að uppfylla gjaldþolskröfu vátryggingafélagsins sem verið er að reikna aðlagað gjaldþol fyrir, þá má aðeins telja þessa liði með í aðlöguðu gjaldþoli í þeim mæli sem þeir mynda hluta af gjaldþoli hlutdeildar- eða dótturfélagsins.

Samtala liða skv. 1.-3. mgr. í hverju hlutdeildar- eða dótturfélagi má ekki vera hærri en lágmarksgjaldþol viðkomandi hlutdeildar- eða dótturfélags.


7. gr.
Ófullnægjandi gjaldþol dótturfélags.

Ef dótturfélag er vátryggingafélag sem ekki uppfyllir lágmarkskröfur um gjaldþol skal draga frá eignarhlut hluteignarfélags fjárhæð sem samsvarar eignarhlut minnihlutaeigenda í því sem vantar upp á að gjaldþol sé fullnægjandi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæði þessarar greinar telji það að ábyrgð móðurfélags sé skýrt og ótvírætt takmörkuð við hlutafjáreignina.


8. gr.
Skortur á upplýsingum um erlend félög.

Hafi Fjármálaeftirlitið ekki aðgang að upplýsingum sem eru nauðsynlegar til þess að reikna aðlagað gjaldþol og varða hlutdeildar- eða dótturfélag í öðru ríki, hvort sem það ríki er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða ekki, þá skal draga bókfært virði þess félags frá liðum sem geta verið hluti af gjaldþoli. Ekki má líta á dulinn hagnað af slíkri hlutdeild sem lið sem getur verið hluti af gjaldþoli.


III. KAFLI
Lágmark aðlagaðs gjaldþols.
9. gr.

Lágmark aðlagaðs gjaldþols vátryggingafélags, sbr. 1. gr., er lágmarksgjaldþol félagsins skv. 30., 31. og 33. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi að viðbættri hlutdeild í lágmarksgjaldþoli allra hlutdeildar- og dótturfélaga sem eru vátryggingafélög.

Lágmarksgjaldþol móðurfélags sem ekki er vátryggingafélag, sbr. 2. gr., er samanlögð hlutdeild í lágmarksgjaldþoli allra hlutdeildar- og dótturfélaga sem eru vátryggingafélög.

Lágmarksgjaldþol hlutdeildar- og dótturfélaga skal reiknað samkvæmt nefndum ákvæðum, jafnvel þótt aðrar reglur gildi í heimaríki þeirra.

Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að þann hluta lágmarksgjaldþols sem stafar af starfsemi í endurtryggingum líftrygginga skuli ákvarða á grundvelli iðgjalda með sömu aðferð og beitt er í skaðatryggingastarfsemi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi.


IV. KAFLI
Undanþáguheimildir.
10. gr.
Heimild til þess að fella niður útreikning á aðlöguðu gjaldþoli.

Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá skyldu til að meta aðlagað gjaldþol vátryggingafélags þegar vátryggingafélagið er hlutdeildar- eða dótturfélag vátryggingafélags með starfsleyfi gefið út hér á landi eða eignarhaldsfélags á vátryggingasviði. Skilyrði þessa er að aðlagað gjaldþol sé metið fyrir hluteignarfélagið, og að vátryggingafélagið sem undanþáguna fær sé tekið með við það mat.

Einnig má veita undanþágu frá skyldu til að meta aðlagað gjaldþol þegar eigandi eignarhluta sem lýst er í 1. mgr. lýtur eftirliti eftirlitsstjórnvalds í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, enda hafi eftirlitsstjórnvöld þeirra ríkja sem í hlut eiga komist að samkomulagi um að heimaríki eigandans annist eftirlitið.

Forsenda þess að veitt sé undanþága frá skyldu til þess að reikna aðlagað gjaldþol er að Fjármálaeftirlitið og viðkomandi eftirlitsstjórnvöld telji að eignir sem mynda hluta af gjaldþoli skiptist eðlilega á þau fyrirtæki sem koma við sögu.


11. gr.
Heimild til þess að halda einstökum dóttur- eða hlutdeildarfélögum
utan útreiknings á aðlöguðu gjaldþoli.

Halda má einstöku dóttur- eða hlutdeildarfélagi utan við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli ef félagið hefur óverulega þýðingu fyrir útreikninginn eða ef fjárhagsstaða þess gæfi villandi mynd miðað við markmið eftirlits með aðlöguðu gjaldþoli.


12. gr.
Notkun á öðrum aðferðum við að reikna aðlagað gjaldþol.

Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um eða heimilað að í stað aðferðarinnar sem lýst er í þessari reglugerð sé aðlagað gjaldþol og lágmark þess metið með aðferð 1 eða aðferð 3 í 3. kafla viðauka I við tilskipun 1998/78/ESB.


V. KAFLI
Lokaákvæði.
13. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 5. mgr. 29. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, til lögfestingar á viðaukum við tilskipun 1998/78/ESB um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Hún skal fyrst koma til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vátryggingafélaga vegna reikningsársins 2001.


Viðskiptaráðuneytinu, 17. desember 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kjartan Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica