Viðskiptaráðuneyti

852/2000

Reglugerð um viðbótareiginfjárlið fyrir viðskiptabanka, sparisjóði, aðrar lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu. - Brottfallin

1. gr.

Til eiginfjárþáttar A, sbr. 3. mgr. 54. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 10. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 13/1996, um fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, er heimilt að telja skuldabréf sem uppfylla skilyrði 2. og 3. gr. þessarar reglugerðar.

2. gr.

Skuldabréf samkvæmt 1. gr. skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

       1.Skuldabréfið tilgreini ekki gjalddaga.

 

       2.Endurgreiðsla höfuðstóls skuldabréfs er einungis heimil samkvæmt ákvörðun útgefanda að fengnu samþykki  Fjármálaeftirlitsins og í fyrsta lagi 10 árum frá útgáfudegi skuldabréfs. Samþykki Fjármálaeftirlitsins er háð því að eigið fé útgefanda eftir endurgreiðsluna sé viðunandi að mati eftirlitsins.

 

       3.Vaxtagreiðslur eru einungis heimilar innan þeirra marka sem óráðstafað eigið fé leyfir, enda séu lágmarks eiginfjárkröfur jafnframt uppfylltar eftir að tekið hefur verið tillit til vaxtagreiðslna. Komi ekki til vaxtagreiðslna á tilteknu ári eða árabili safnast þær ekki upp. Að liðnum 10 árum frá útgáfudegi er heimilt að hækka þá vexti sem kveðið er á um í skuldabréfinu um að hámarki 1% stig. Vaxtagreiðslur samkvæmt þessum tölulið skulu miðast við niðurfærðan höfuðstól, sbr. 4. tl., sé um slíkt að ræða.

 

       4.Unnt sé að færa niður höfuðstól skuldabréfsins til að mæta rekstrartapi hjá útgefanda enda sé undanfari slíkrar niðurfærslu að eigið fé útgefanda hafi farið niður fyrir kröfur um lágmark eigin fjár eins og þær eru á hverjum tíma. Uppfylli útgefandi kröfur um lágmarks eigin fé á nýjan leik er heimilt að færa niðurfærslu höfuðstólsins til fyrra horfs að hluta eða öllu leyti.

 

       5.Við gjaldþrot eða slit útgefanda séu kröfur samkvæmt skuldabréfinu, að meðtöldum þeim hluta sem samsvarar niðurfærslu, sbr. 4. tl., greiddar á eftir öllum öðrum kröfum á útgefanda en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár.

 

3. gr.

Útgefandi skuldabréfs samkvæmt 1. gr. skal hafa fengið andvirði þess til ráðstöfunar.

Skuldabréfið má ekki vera tryggt af útgefanda eða ábyrgst af aðilum tengdum útgefanda eða með neinum öðrum hætti, sem lagalega eða fjárhagslega gefur kröfuhafa forgang eða betri rétt gagnvart öðrum kröfuhöfum.

Skuldabréfið skal bókfært sem sérstakur eiginfjárliður í reikningsskilum og vextir samkvæmt 3. tl. 2. gr. skulu bókfærðir sem vaxtagjöld.

Samtala skuldabréfa samkvæmt 1. gr. má að hámarki nema 15% af eiginfjárþætti A í eiginfjárútreikningi og gildir sú regla bæði fyrir móðurfélag og samstæðu.

 

4. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 7. mgr. 54. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, 10. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og 9. mgr. 32. gr. laga nr. 13/1996, um fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, og öðlast þegar gildi.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 21. nóvember 2000.

 

Valgerður Sverrisdóttir.

Benedikt Árnason.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica