1. gr.
Í reglugerð þessari merkir hugtakið lánastofnun viðskiptabanka og sparisjóð, sbr. lög nr. 43/ 1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og aðra lánastofnun, sbr. lög nr. 123/ 1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
Reglugerð þessi gildir um starfsemi útibúa erlendra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana á Íslandi sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og hlotið hafa starfsleyfi lögbærra yfirvalda í því ríki. Hún gildir einnig um umboðsskrifstofur eftir því sem við á.
2. gr.
Stjórnandi útibús skal fullnægja skilyrðum 38. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, auk þess að vera mæltur á íslenska tungu.
3. gr.
Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur með höndum eftirlit með útibúum sem starfa samkvæmt þessari reglugerð í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands, laga um viðskiptabanka og sparisjóði og eftir atvikum annarra starfsheimilda sinna.
4. gr.
Útibú sem starfa hér á landi samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta sömu lögum og reglum og lánastofnanir með höfuðstöðvar á Íslandi, svo sem reglum um bindingu og laust fé og upplýsingagjöf til íslenskra stjórnvalda samkvæmt gildandi lögum og reglum á hverjum tíma.
5. gr.
Útibú sem starfa hér á landi samkvæmt reglugerð þessari skulu birta eftirtalin gögn og upplýsingar:
1. Vegna þeirrar lánastofnunar sem útibúið er hluti af:
a. Ársreikning ásamt ársskýrslu.
b. Samstæðureikning ásamt samstæðuársskýrslu.
c. Álit þess aðila sem ber ábyrgð á endurskoðun árs- og samstæðureiknings.
2. Vegna útibúsins sjálfs:
a. Tekjur og gjöld útibús, sem rekja má til atriða 1, 3, 4, 6, 7, 8 og 15 í 27. gr. eða atriða 4 og 9 í lið A og atriða 1-4 og 7 í lið B í 28. gr. tilskipunar 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, sem birt er í sérriti EES-gerða nr. 36, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993.
b. Meðalfjölda starfsmanna útibús.
c. Heildarkröfur og skuldbindingar tengdar útibúi, sundurliðaðar annars vegar í þær sem varða lánastofnanir og hins vegar þær sem varða aðra viðskiptavini, ásamt heildarfjárhæð slíkra krafna og skuldbindinga tilgreindra í íslenskum krónum.
d. Heildareignir og fjárhæðir er samsvara atriðum 2-6 um eignir, 1-3 um skuldbindingar og 1-2 um liði utan efnahagsreiknings eins og skilgreint er í 4. gr. og hliðstæðum greinum fyrrgreindrar tilskipunar 86/635/EBE og - í þeim tilvikum sem greinir í atriðum 2, 5 og 6 um eignir - sundurliðun verðbréfa eftir því hvort þau hafi verið talin til áhættufjármuna eða ekki samkvæmt 35. gr. fyrrgreindrar tilskipunar 86/635/EBE.
Upplýsingar samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. þessarar greinar skulu staðfestar af endurskoðanda, sem öðlast hefur löggildingu samkvæmt íslenskum lögum, um réttmæti þeirra og hvort þær samræmist ársreikningnum. Senda skal upplýsingarnar til bankaeftirlitsins innan tíu daga frá áritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Gögn samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. skulu send bankaeftirlitinu innan fjögurra mánaða frá lokum reikningsárs.
Bankaeftirlitið getur krafist þess að gögn og upplýsingar samkvæmt þessari grein séu birt á íslensku í þýðingu löggilts skjalaþýðanda.
6. gr.
Erlend lánastofnun sem opnar umboðsskrifstofu hér á landi skal tilkynna það til viðskiptaráðherra í síðasta lagi er skrifstofan er opnuð. Í tilkynningunni skulu vera upplýsingar um heimilisfang umboðsskrifstofunnar og nafn stjórnanda hennar.
Umboðsskrifstofu er heimilt að miðla upplýsingum og veita ráðgjöf hér á landi á vegum erlendrar lánastofnunar. Umboðsskrifstofu er óheimilt að taka við innlánum, veita útlán, stunda verðbréfaviðskipti eða aðra þá starfsemi sem greinir í 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 13. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytið, 25. maí 1994.
F. h. r.
Þorkell Helgason.
Finnur Sveinbjörnsson.