Prentað þann 9. jan. 2025
766/2019
Reglugerð um ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Markmið og gildissvið.
- 2. gr. Skilgreiningar.
- 3. gr. Skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.
- 4. gr. Upplýsingar í ríki-fyrir-ríki skýrslu.
- 5. gr. Form ríki-fyrir-ríki skýrslu.
- 6. gr. Leiðbeiningar við útfyllingu eyðublaðs vegna ríki-fyrir-ríki skýrslu.
- 7. gr. Notkun upplýsinga úr ríki-fyrir-ríki skýrslum og trúnaðarkvaðir.
- 8. gr. Gildistaka.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Reglugerð þessi kveður á um skyldu til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Í skýrslunni skal gera grein fyrir tekjum, sköttum og efnahagslegri starfsemi fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu í þeim ríkjum þar sem lögaðilar innan hennar hafa skattalega heimilisfesti. Ákvæði 1. og 2. mgr. 91. gr. a. laga nr. 90/2003, eiga ekki við um innlent móðurfélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu ef tekjur heildarsamstæðunnar á síðasta reikningsári voru lægri en 750 milljónir evra.
Ríki-fyrir-ríki skýrslu skal afhenda í því ríki sem móðurfélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu er heimilisfast, sbr. þó 2.-4. mgr. 3. gr., og þaðan skal henni deilt án beiðni til annarra ríkja sem samstæðufélög starfa í á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.
2. gr. Skilgreiningar.
Fjölþjóðleg heildarsamstæða (e. group of multinational enterprises): Tvö eða fleiri fjölþjóða félög innan samstæðu með skattalega heimilisfesti í fleiri en einu ríki eða félag með skattalega heimilisfesti í einu ríki en er líka skattskylt í öðru ríki vegna starfsemi fastrar starfsstöðvar í þess eigu. Heildarsamstæða samanstendur af móðurfélagi ásamt dótturfélögum, föstum starfsstöðvum og/eða öðrum lögaðilum.
Samstæðufélag (e. constituent entity):
- Lögaðili innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem er hluti af samstæðureikningi hennar eða væri hluti af samstæðureikningi ef samstæðan væri skráð á markað.
- Lögaðili innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem er ekki hluti af samstæðureikningi þar sem hann nær ekki stærðarviðmiðum.
- Útibú lögaðila innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu, sbr. lið a og b, sem er hluti af samstæðureikningi hennar eða væri hluti af samstæðureikningi að því tilskildu að það útbúi aðskilið yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrir slíkan aðila vegna reikningsskila, skattframtala eða innra eftirlits.
Móðurfélag innan heildarsamstæðu (e. ultimate parent entity): Samstæðufélag sem fer með bein eða óbein yfirráð yfir öðrum samstæðufélögum innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu og ber að útbúa samstæðureikning samkvæmt löggjöf í því ríki þar sem samstæðufélagið er með skattalega heimilisfesti eða bæri að útbúa slíkan reikning ef félag væri skráð þar á markað. Samstæðufélag getur ekki talist vera móðurfélag innan heildarsamstæðu ef annað samstæðufélag fer með bein eða óbein yfirráð yfir því.
Staðgöngufélag móðurfélags (e. Surrogate parent entity):Samstæðufélag innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem hefur verið tilnefnt sem staðgengill móðurfélags innan heildarsamstæðu og ber ábyrgð á að skila ríki-fyrir-ríki skýrslum fyrir hönd heildarsamstæðunnar í heimilisfestarríki sínu enda sé eitthvert skilyrða 2. mgr. 3. gr. uppfyllt.
Kerfisbrestur (e. Systemic failure): Ríki semhefur gert samkomulag við annað ríki um sjálfvirk upplýsingaskipti milli bærra stjórnvalda á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil en sjálfvirk upplýsingaskipti fara ekki fram vegna ástæðna sem ekki eru í samræmi við samkomulagið eða til staðar er viðvarandi ástand í ríki þar sem sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum fara ekki fram.
Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu (e. OECD Transfer Pricing Guidelines for Multinational Enterprises and Tax Administrations): Leiðbeiningarreglur OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og skattyfirvöld sem samþykktar voru af OECD árið 1995, með síðari breytingum.
3. gr. Skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Móðurfélagi fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu, sem er skattskylt í samræmi við 2. gr. laga nr. 90/2003, er skylt að skila ríkisskattstjóra, eigi síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs, ríki-fyrir-ríki skýrslu með þeim upplýsingum, sem kveðið er á um í 4. gr.
Skylda til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu, innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr., með þeim upplýsingum sem kveðið er á um í 4. gr., hvílir á öðrum samstæðufélögum innan heildarsamstæðunnar þótt þau teljist ekki vera móðurfélag hennar hafi þau skattalega heimilisfesti hér á landi og:
- hinu erlenda móðurfélagi fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu er ekki skylt að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. mgr., í því ríki sem það er með skattalega heimilisfesti; eða
- heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur gert samning við Ísland þar sem kveðið er á um upplýsingaskipti, en við lok reikningsársins er ekki í gildi samkomulag milli bærra stjórnvalda sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil skv. 1. mgr.
- ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að kerfisbrestur sé til staðar í heimilisfestarríki móðurfélags sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur frá því ríki.
Þegar fleiri ein eitt samstæðufélag innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu er með skattalega heimilisfesti hér á landi og eitt eða fleiri skilyrði skv. framangreindri málsgrein eru uppfyllt, þá getur fjölþjóðlega heildarsamstæðan tilnefnt eitt af samstæðufélögunum til að uppfylla skyldur um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. með þeim upplýsingum sem kveðið er á um í 4. gr. Tilkynna þarf til ríkisskattstjóra að skilin séu gerð í því skyni að uppfylla kröfur gagnvart öllum samstæðufélögum slíkrar fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem eru með skattalega heimilisfesti hér á landi.
Skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu er ekki til staðar þegar staðgöngufélag móðurfélags er skilaskylt í öðru ríki að því gefnu að skilyrðin skv. 3. mgr. 91. gr. a. séu uppfyllt.
4. gr. Upplýsingar í ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Ríki-fyrir-ríki skýrsla skal innihalda samanlagðar upplýsingar um fjárhæð hagnaðar/taps fyrir tekjuskatt, áfallinn tekjuskatt á yfirstandandi rekstrarári, greiddan tekjuskatt, skráð hlutafé, óráðstafað eigið fé, fjölda starfsmanna ásamt upplýsingum um efnislegar eignir aðrar en handbært fé að því er varðar hvert það ríki þar sem fjölþjóðlega heildarsamstæðan starfar.
Í ríki-fyrir-ríki skýrslu skulu jafnframt koma fram efnislegar upplýsingar um samstæðufélögin, þar sem m.a. er upplýst í hvaða ríki hvert og eitt samstæðufélag innan heildarsamstæðunnar er heimilisfast og hver sé aðalstarfsemi félagsins.
5. gr. Form ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Fylla skal út sérstakt eyðublað á ensku fyrir skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Tilgreina skal í ríki-fyrir-ríki skýrslunni hver sé gjaldmiðill hinna tölulegu upplýsinga.
6. gr. Leiðbeiningar við útfyllingu eyðublaðs vegna ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Við útfyllingu eyðublaðs, sbr. 5. gr., skal fara eftir sérstökum leiðbeiningum ríkisskattstjóra sem byggja á viðauka III og IV við 5. kafla leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu.
7. gr. Notkun upplýsinga úr ríki-fyrir-ríki skýrslum og trúnaðarkvaðir.
Skattyfirvöldum er heimilt að nota upplýsingar úr ríki-fyrir-ríki skýrslum í þeim tilgangi að meta almenna áhættu vegna milliverðlagningar og annarra aðgerða sem hætta er á að rýri skattstofna og flytji til hagnað, þ.m.t. áhættuna af því að aðilar í fjölþjóðlegri heildarsamstæðu fylgi ekki reglum um milliverðlagningu og til að framkvæma tölfræðilegar og efnahagslegar greiningar.
Allar upplýsingar, sem skattyfirvöld taka við samkvæmt reglugerð þessari eru trúnaðarmál og gilda um þær sömu reglur og gilda um upplýsingar sem veittar eru á grundvelli marghliða samnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 74/1996 með síðari breytingum.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 6. mgr. 91. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1166/2016 um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.