1. gr.
1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Aðilar, sem taka búvörur bænda til sölu, vinnslu eða endursölu, svo sem mjólkurbú, sláturhús, verslanir og veitingahús, skulu innheimta iðgjöld samkvæmt 1. mgr. 3. gr. eftir fyrirmælum sjóðstjórnar. Sama gildir um framlög samkvæmt 2. mgr. 3. gr., nema ráðherra ákveði að greiða þau úr ríkissjóði í sambandi við niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum. Söluaðili skal innheimta iðgjöld jafnóðum og greiðslur til bænda fara fram og gera skil á þeim til sjóðsins mánaðarlega. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að skil séu gerð sjaldnar, en ævinlega skal við það miðað að skil til sjóðsins fari fram eigi síðar en 10 dögum eftir að greiðslur til bænda fara fram. Gjalddagi innheimtra iðgjalda skal að öðru jöfnu vera 25. næsta mánaðar eftir greiðslumánuð og eindagi 30 dögum síðar. Hverri greiðslu skal fylgja skilagrein fyrir næstliðið greiðslutímabil. Á slíkri skilagrein skal tilgreina fyrir hvern iðgjaldsgreiðanda: kennitölu iðgjaldsgreiðanda, nafn iðgjaldsgreiðanda, tímabil sem greitt er fyrir, upphæð iðgjalds, upphæð mótframlags, ef við á, og samtölu iðgjalds og mótframlags, ef við á. Að auki skal tilgreina samtölur allra upphæða á skilagreininni.
Ennfremur skal tilgreina heimilisfang, ef sjóðstjórn óskar þess. Hafi skilagrein ekki borist að nefndum fresti liðnum, en stjórn sjóðsins heimilt, auk dráttarvaxta samkvæmt 7. gr., að beita dagsektum fyrir hvern dag frá því fimm dögum eftir að ábyrgðarbréf um dagsektir er póstlagt til söluaðila, til þess tíma er skilagrein berst sjóðstjórn.
2. gr.
1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Iðgjöldum launþega samkvæmt 2. mgr. 4. gr. ber launagreiðanda að halda eftir af launum og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin framlagi. Gjalddagi iðgjalda og framlaga hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Sé um að ræða sumarfólk, sem einungis starfar á tímabilinu maí-september, er þó heimilt að gera skil í einu lagi fyrir sumarið, með gjalddaga 10. október. Á skilagrein skal tilgreina fyrir hvern launþega: kennitölu launþega, nafn launþega, tímabil sem greitt er fyrir, upphæð iðgjalds, upphæð mótframlags og samtölu iðgjalds og mótframlags. Að auki skal tilgreina samtölur allra upphæða á skilagreininni.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. gr. heimild í 27. gr. laga nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda og öðlast gildi 1. janúar 1990.
Fjármálaráðuneytið, 13. september 1989.
F. h. r.
Snorri Olsen.
Ágústa Helga Sigurðardóttir.