Prentað þann 2. apríl 2025
1030/2014
Reglugerð um starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til fjármálafyrirtækja sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
2. gr. Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins um notkun á föstum umboðsmönnum.
Innlend fjármálafyrirtæki sem hyggjast veita þjónustu eða stofna útibú samkvæmt V. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum skulu tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Ásamt upplýsingum sem ber að veita skv. 2. mgr. 36. gr. eða 1. mgr. 37. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki skal fjármálafyrirtæki einnig taka fram hvort það hyggst nota fasta umboðsmenn (e. tied agents).
3. gr. Innleiðing.
Reglugerð þessi innleiðir í íslenskan rétt ákvæði 2. mgr. 31. gr. og 2. mgr. 32. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2005.
4. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og tekur þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 13. nóvember 2014.
F. h. r.
Tómas Brynjólfsson.
Leifur Arnkell Skarphéðinsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.