1. gr.
Gildissvið.
Eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari skal ríkisskattstjóri endurgreiða þann virðisaukaskatt sem fellur til vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari tekur ekki til frístundahúsnæðis eins og það er skilgreint í 2. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.
2. gr.
Skilyrði endurgreiðslu.
Með varmadælu skv. 1. málsl. 1. gr. er átt við dælubúnað og leiðslur sem mynda lokað gas- eða vökvakerfi sem stuðlar að betri nýtingu raforku við upphitun á íbúðarhúsnæði.
Skilyrði endurgreiðslu er að varmadælan sem umsóknin varðar hafi verið sett upp í íbúðarhúsnæði sem er í eigu umsækjanda.
Heimild til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari nær til þess virðisaukaskatts sem fellur til vegna kaupa á varmadælu en ekki til þess virðisaukaskatts sem fellur til vegna uppsetningar á dælunni, þ.m.t. er akstur og ráðgjöf. Ef sami aðili selur varmadælu og uppsetningu skal aðgreina verð hvors um sig á sölureikningi. Frá þessu skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi getur með öðrum sannanlegum hætti upplýst um verð varmadælunnar.
Þegar um innlendan söluaðila er að ræða er jafnframt skilyrði að seljandi varmadælunnar sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki sem viðskiptin áttu sér stað.
3. gr.
Umsókn.
Umsókn um endurgreiðslu skal beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Með umsókn skal fylgja frumrit sölureiknings eða greiðsluskjal frá tollyfirvöldum og staðfesting á því að sölureikningur hafi verið greiddur.
4. gr.
Endurgreiðslutímabil.
Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir (janúar-febrúar, mars-apríl, o.s.frv.). Þeir sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar skulu eftir lok hvers endurgreiðslutímabils senda ríkisskattstjóra endurgreiðslubeiðni ásamt tilskildum gögnum skv. 3. gr. Endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og auðið er en þó aldrei síðar en 30 dögum eftir að beiðnin barst ríkisskattstjóra.
5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi og gildir til 29. maí 2019.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 12. september 2014.
F. h. r.
Guðmundur Árnason.
Guðrún Þorleifsdóttir.