Tollstjóri skal fella niður virðisaukaskatt og vörugjald af þeim vetnisbifreiðum sem fluttar eru inn til landsins í rannsóknarskyni, svo og virðisaukaskatt, vörugjald og toll af sérhæfðum varahlutum í þær, eins og kveðið er á um í reglugerð þessari. Allur innflutningur vetnisbifreiða og sérhæfðra varahluta í þær telst vera innflutningur í rannsóknarskyni.
Undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts og vörugjalds skv. 1. gr. nær til vetnisbifreiða í vöruliðum 8701, 8702, 8703, 8704, 8705, 8709, 8711 og 8713, sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni og hafa í för með sér hverfandi mengun.
Undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts, vörugjalds og tolls skv. 1. gr. nær til varahluta sem falla undir eftirfarandi tollskrárnúmer og eru ónothæfir í önnur ökutæki:
1. | Tæki til framleiðslu á vatnsgasi (gas generators), úr tnr. 8405.1000. |
2. | Sprengihreyflar í vörulið 8407, úr tnr. 8407.3100, 8407.3200, 8407.3300, 8407.3400 og 8407.9000. |
3. | Hlutar í sprengihreyfla í vörulið 8409, úr tnr. 8409.9100 og 8409.9900. |
4. | Vetnismótorar (efnarafall + straumbreytir + rafhreyfill), riðstraumsrafall með meira en 75 kVA til og með 375 kVA útafl (strætó með u.þ.b. 250 kW), úr tnr. 8501.6200. |
5. | Hlutar eingöngu eða aðallega nothæfir til véla í vörulið 8501 eða 8502, úr tnr. 8503.0000. |
6. | Straumbreytar (Inverters), úr tnr. 8504.4000. |
7. | Efnarafalar (Fuel cells) í vörulið 8506, úr tnr. 8506.8009 og hugsanlega úr öðrum númerum. |
8. | Rafgeymar (Battery pack) í vörulið 8507, mismunandi tnr. eftir gerð. |
9. | Hlutar og fylgihlutir fyrir vélknúin ökutæki í tnr. 8701-8705, úr tnr. 8708.2900 og 8708.9900. |
10. | Hlutar fyrir vinnuvagna o.fl. í vörulið 8709, úr tnr. 8709.9000. |
11. | Hlutar og fylgihlutar til ökutækja í tnr. 8711-8713, úr tnr. 8711.9900. |
Aðili sem hyggst flytja til landsins vetnisbifreið í rannsóknarskyni, og/eða sérhæfða varahluti í hana, og njóta við það réttar til niðurfellingar gjalda vegna innflutningsins, skal beina ósk um niðurfellingu gjalda hverju sinni til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu.
Umsókn skal borin fram í aðflutningsskýrslu, ebl. E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu aðflutningsgjalda af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem í nefndum heimildum er að finna fyrir undanþágu gjaldanna og ráðstöfun vörunnar.
Tollstjórinn í Reykjavík annast gerð og útgáfu undanþágutilvísana og leiðbeininga um notkun þeirra.
Innflytjendum samkvæmt reglugerð þessari ber að haga bókhaldi sínu með þeim hætti að aðgengilegt sé fyrir tollyfirvöld að staðreyna að sala eða nýting vöru, sem gjöld hafa verið felld niður af, sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
Misnotkun á gjaldfríðindum samkvæmt reglugerð þessari getur varðað refsingu samkvæmt ákvæðum tollalaga.
Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar rétt til niðurfellingar gjalda samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða synjun tollstjóra um tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður tollstjóra í ábyrgðarbréfi og upplýsingar um kæruheimild til ríkistollanefndar, sbr. 2. mgr.
Úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. er heimilt að kæra til ríkistollanefndar innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollanefnd skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 72/2005, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 97/1987, um vörugjald og tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 2005 og fellur úr gildi 31. desember 2008 og tekur til vetnisbifreiða, og sérhæfðra varahluta í vetnisbifreiðar, sem tollafgreidd eru á gildistíma hennar.