1. gr.
Gildissvið.
Reglugerðin kveður á um hlutverk og valdsvið úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva, skipan nefndarinnar, kærufresti, réttaráhrif kæru, málsmeðferð, efni og birtingu úrskurða og aðra þætti sem lúta að starfsumhverfi nefndarinnar.
2. gr.
Hlutverk.
Hlutverk úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva er að leysa með skjótum, vönduðum og óhlutdrægum hætti úr kærum sem nefndinni berast vegna ágreinings sem rísa kann í tilefni af eignarskráningu í verðbréfamiðstöð eða annarra atriða sem falla undir gildissvið laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Þetta á þó ekki við um skaðabótakröfur. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum.
Kæruaðild samkvæmt reglugerð þessari eiga eftirtaldir aðilar:
Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til viðskiptaráðherra.
3. gr.
Skipan og þóknun úrskurðarnefndar.
Í úrskurðarnefnd sitja þrír menn sem skipaðir eru af viðskiptaráðherra. Formaður skal fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaður héraðsdómari. Formaður stýrir störfum nefndarinnar og ber á henni ábyrgð. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á rafrænni skráningu eignarréttinda. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna sem greiðist úr ríkissjóði og miðast við útlagða vinnu við meðferð þeirra mála sem til kasta nefndarinnar koma.
4. gr.
Kærufrestur.
Kæru skal beina til úrskurðarnefndar innan tólf vikna frá því að skráning fór fram í verðbréfamiðstöð. Kæru sem berst eftir lok þessa frests skal vísað frá nefndinni.
Þrátt fyrir 1. mgr. getur úrskurðarnefnd í sérstökum tilvikum tekið mál til úrskurðar eftir að hinn almenni tólf vikna frestur er runninn út. Við mat á því hvort um sérstakt tilvik teljist vera að ræða skal úrskurðarnefndin m.a. líta til ástæðna þess að kæra barst ekki innan tólf vikna frestsins og hvort veigamiklar röksemdir mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
5. gr.
Framlagning og form kæru.
Kæru skal leggja fram skriflega í viðskiptaráðuneytinu innan lögboðins frests. Skal hún studd nauðsynlegum gögnum og lögð fram í þríriti, undirrituð af kæranda eða umboðsmanni hans. Viðskiptaráðuneytið framsendir formanni úrskurðarnefndar kæruna ásamt fylgigögnum og telst nefndin hafa tekið til starfa við móttöku kærunnar. Ráðuneytið og úrskurðarnefndin geta krafist sönnunar á umboði.
Í kæru skulu koma fram upplýsingar um til hvaða atriða kæran tekur, ásamt kröfum kæranda, málsatvikalýsingu, málsástæðum og rökstuðningi.
Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 1. og 2. mgr. skal úrskurðarnefnd beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal úrskurðarnefnd vísa kærunni frá.
6. gr.
Málsmeðferð.
Málsmeðferð úrskurðarnefndar skal vera í samræmi við ákvæði VI. kafla laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum og reglugerð þessari.
Úrskurðarnefnd skal taka mál til meðferðar án tafar eftir að kæra berst henni.
Málsmeðferð fyrir nefndinni er skrifleg.
Úrskurðarnefnd skal taka afstöðu til atriða er varða form málsins, m.a. hæfis nefndarmanna með tilliti til ákvæða stjórnsýslulaga og frávísunar. Aðilum skal gefinn kostur á að tjá sig um formsatriði áður en úrskurðarnefndin tekur afstöðu til þeirra, nema slíkt sé talið augljóslega óþarft.
Nú er kæra tæk til efnismeðferðar og lætur nefndin þá gagnaðilum kæranda í té kæru ásamt fylgiskjölum og gefur þeim kost á að tjá sig skriflega um hana innan hæfilegs frests. Hæfilegur frestur í þessu sambandi getur verið tvær til þrjár vikur eftir umfangi máls. Kæranda skal með sama hætti látin í té greinargerð og fylgiskjöl gagnaðila.
Óski aðilar eftir að leggja fram frekari greinargerðir í málinu skulu þeir þegar í stað koma fram með rökstudda beiðni þar að lútandi. Orðið skal við beiðninni nema úrskurðarnefndin telji slíkt augljóslega óþarft. Afrit af greinargerðum skulu send öðrum aðilum málsins.
Úrskurðarnefnd er jafnan heimilt að beina því til málsaðila, verðbréfamiðstöðvar eða reikningsstofnunar að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja ákveðinn frest í því skyni. Úrskurðarnefnd er heimill aðgangur að öllum gögnum hjá verðbréfamiðstöð og reikningsstofnun sem tengjast kærumáli.
Úrskurðarnefnd er heimilt að óska eftir áliti eða upplýsingum frá sérfræðingum, meti hún það nauðsynlegt. Þetta á einkum við ef mál er sérlega flókið. Skulu aðilar fá tækifæri til að tjá sig um slík álit eða upplýsingar innan tilskilins frests. Leitast skal við að halda sérfræðikostnaði í lágmarki.
Að lokinni gagnaöflun skal mál tekið til úrskurðar. Ef gögn eru ekki lögð fyrir úrskurðarnefnd innan tilskilins frests er úrskurðarnefnd heimilt að kveða upp úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna, enda telji hún málið nægilega upplýst.
Úrskurðarnefndin skal ákveða tímafresti sem tryggja hraða málsmeðferð kærumála. Hafi kærandi ekki lagt fram gögn innan tilskilinna tímafresta má taka ákvörðun þó það sé til tjóns fyrir viðkomandi aðila.
7. gr.
Uppkvaðning úrskurðar.
Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan tólf vikna frá því að kæra berst henni. Sé mál flókið og viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna það málsaðilum og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær úrskurðar sé að vænta.
Afl atkvæða nefndarmanna ræður niðurstöðu máls. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni, eða niðurstaða getur ekki ráðist af atkvæðamagni, ræður atkvæði formanns.
8. gr.
Efni úrskurðar.
Úrskurðir skulu vera skriflegir og rökstuddir. Í þeim skal greina:
Úrskurðir skulu undirritaðir af öllum nefndarmönnum sem að honum standa. Formaður nefndarinnar ber ábyrgð á ritun og birtingu úrskurða eftir að nefndin hefur komist að niðurstöðu um efni úrskurðar og úrskurðarorð.
9. gr.
Birting úrskurða.
Úrskurðir skulu færðir í gerðabók eða varðveittir með öðrum tryggum hætti. Úrskurðarnefnd getur leiðrétt augljósar villur í úrskurði og úrskurðarorðum.
Úrskurðarnefnd skal kynna aðilum kærumáls niðurstöðu sína með sannanlegum hætti án tafar eftir að niðurstaða liggur fyrir. Úrskurðarnefnd skal birta alla úrskurði sína opinberlega á heimasíðu sinni eða fela viðskiptaráðuneytinu að birta úrskurðina með slíkum hætti.
Úrskurðarnefnd ber ábyrgð á því að birtir úrskurðir hafi ekki að geyma upplýsingar sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni málsaðila eða annarra sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.
10. gr.
Afturköllunkæru.
Sá aðili sem kærir mál til úrskurðarnefndar getur afturkallað kæru sína hvenær sem er á meðan málsmeðferð stendur.
11. gr.
Þagnarskylda.
Nefndarmönnum úrskurðarnefndar og sérfræðingum á hennar vegum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um viðskipti og rekstur málsaðila. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
12. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 25. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, og öðlast hún þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 2. apríl 2009.
Gylfi Magnússon.
Jónína S. Lárusdóttir.