Félags- og tryggingamálaráðuneyti

715/2008

Reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðsnr. 458/1999, með síðari breytingum.um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðsnr. 458/1999, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður sem verður 9. töluliður og orðast svo: Lán til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem veitt hafa verið gegn veði í íbúðarhúsnæði.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

1. Í stað orðsins "Lánin" í 2. mgr. koma orðin: Lán skv. 1. - 8. tölul. 2. gr.
2. Í stað orðsins "Lánin" í 3. mgr. koma orðin: Lán skv. 1. - 8. tölu. 2. gr.
3. Á eftir orðunum "Fjárhæð lána" í 4. mgr. koma orðin: skv. 1. - 8. tölul. 2. gr.

3. gr.

Á eftir IX. kafla reglugerðarinnar kemur nýr kafli sem orðast svo:

X. KAFLI
Lán til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem veitt hafa verið gegn veði í íbúðarhúsnæði.

49. gr.
Tilgangur.

Lán skv. 9. tölul. 2. gr. er heimilt að veita með afhendingu íbúðabréfa til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, hafa veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði hér á landi enda sé lánveitingin til þess fallin að tryggja öryggi og framboð lána á íbúðalánamarkaði og eðlilega verðmyndun á íbúðamarkaði. Íbúðabréf sem þannig eru afhent skulu eingöngu notuð í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.

50. gr.
Auglýsing, umsóknir og lánasamningar.

Íbúðalánasjóður skal með auglýsingu óska eftir umsóknum viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja um lán skv. 9. tölul. 2. gr. Í auglýsingu skal tilgreind heildarfjárhæð þeirra lána sem ákveðið hefur verið að veita í lánaflokknum sem og upplýsingar um lánskjör þ. á m. um vaxtaálag sem ákveðið er af ráðherra samkvæmt tillögu stjórnar Íbúðalánasjóðs og tímalengd lána. Í auglýsingu skal jafnframt tilgreind fjárhæð láns sem hver umsækjandi á að lágmarki rétt á, óski hann eftir því, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Reynist eftirspurn eftir lánum meiri en unnt er að sinna skulu lán skert í réttu hlutfalli við fjárhæð lánsumsókna að teknu tilliti til fjárhæða lágmarkslána sem hver umsækjandi á rétt á.

Stjórn Íbúðalánasjóðs setur nánari reglur, sem ráðherra staðfestir, um efni auglýsinga, meðferð umsókna og lánasamninga sem gerðir eru á grundvelli umsókna um lán skv. 9. tölul. 2. gr.

51. gr.
Tryggingar.

Til tryggingar lánum skv. 9. tölul. 2. gr. skal leggja fram skuldabréf útgefið af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Gera skal kröfu um að eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis, sbr. eiginfjárákvæði laga nr. 161/2002, sé að lágmarki 9% við lánveitingu.

Stjórn Íbúðalánasjóðs setur nánari reglur, sem ráðherra staðfestir, um form skuldabréfa sem lögð eru fram til tryggingar, verðmæti undirliggjandi veðskuldabréfasafns og um skilyrði sem skilmálar lánasamninga þurfa að uppfylla, s.s. um hámarks veðhlutfall og takmarkanir á framsali undirliggjandi veðskuldabréfa, um úrræði ef vanskil verða á einstökum veðskuldabréfum í undirliggjandi safni, úrræði Íbúðalánasjóðs ef eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis fer undir 9%, og tímalengd samninga.

4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 1. og 8. tölul. 9. gr., 16. gr., 28. gr. og 29. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, öðlast þegar gildi.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 17. júlí 2008.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Ágúst Geir Ágústsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica