Félagsmálaráðuneyti

831/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 57/2009, um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Í stað orðsins "Íbúðalánasjóður" í 1. gr. reglugerðarinnar og sama orðs hvarvetna annars staðar í reglugerðinni kemur, í viðeigandi beygingarmynd: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

 

2. gr.

8. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar verður: Lán til einstaklinga með heimild til vaxtaendurskoðunar.

 

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

a. Í stað orðanna "1.-9. tölul." í 2. mgr. kemur: 1.-7. og 9. tölul.

b.

Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lán samkvæmt 8. tölul. 2. gr. geta verið verðtryggð með vísitölu neysluverðs, sbr. lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, með síðari breytingum, eða óverðtryggð.

c. Í stað orðanna "1.-9. tölul." í 3. mgr. kemur: 1.-7.
d. Á eftir orðunum "að viðbættum verðbótum" í 4. mgr. kemur: ef við á.

 

4. gr.

IX. kafli reglugerðarinnar, er hefur fyrirsögnina Lán til einstaklinga með heimild til vaxtaendurskoðunar, orðast svo:

 

a. (38. gr.)

Tilgangur.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að veita lán til einstaklinga vegna kaupa, byggingar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota með heimild til vaxtaendurskoðunar með það að markmiði að auka möguleika fólks til að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum og jafna aðgengi að lánsfé.

 

b. (39. gr.)

Lánsfjárhæð, lánshlutfall o.fl.

Fjárhæð láns samkvæmt þessum kafla getur numið allt að 80% af matsverði íbúðar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hámarkslán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar bæði til kaupa á notaðri íbúð og vegna nýbygginga 30.000.000 kr. Uppfærð áhvílandi lán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og framar áhvílandi veð annarra veðhafa koma til frádráttar fyrrgreindri fjárhæð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er óheimilt að veita lán samkvæmt þessum kafla til kaupa á íbúðum sem hafa hærra fasteignamat en 50.000.000 kr.

 

c. (40. gr.)

Umsóknir og afgreiðsla.

Um umsóknir, afgreiðslu og nánari skilyrði og skilmála lána samkvæmt kafla þessum gildir hið sama og um HMS-veðbréf samkvæmt IV. kafla, 14. og 15. gr., VI., VII., og VIII. kafla reglugerðar nr. 970/2016, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, með síðari breytingum, sé ekki á annan veg kveðið í kafla þessum.

 

d. (41. gr.)

Lánstími og vaxtakjör.

Lánstími lána samkvæmt kafla þessum getur verið allt að 40 ár.

Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ákvarðar vexti lána sem veitt eru samkvæmt kafla þessum, sbr. einnig reglugerð um starfsemi og fjármögnun Húsnæðissjóðs. Heimilt er að ákveða að vextir skuli vera fastir til ákveðins tíma en komi til endurskoðunar að þeim tíma loknum í samræmi við gildandi vaxtatöflu á þeim tíma.

 

5. gr.

Í stað orðanna "úrskurðarnefndar félagsþjónustu- og húsnæðismála" í 55. gr. reglugerðarinnar kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála. Þetta á þó ekki við heyri ágreiningurinn undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda eða lögum um neytendalán.

 

6. gr.

Heiti reglugerðarinnar verður: Reglugerð um lánaflokka Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

 

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 16. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Ákvæði 2. gr., b- og d-liða 3. gr. og 4. gr. falla úr gildi 31. desember 2021.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 13. júlí 2021.

 

Ásmundur Einar Daðason.

 

Gissur Pétursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica