Velferðarráðuneyti

705/2012

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

f-liður 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, orðast svo:

Atvinnuleitandi sýni fram á að hafa þegar lagt út fyrir kostnaði vegna flutninganna, svo sem með því að leggja fram kvittun fyrir greiðslu vegna leigu á stórri bifreið til flutninga, vegna kaupa á þjónustu á vegum flutningafyrirtækis hvort sem flutningarnir fara fram á landi, á sjó eða í lofti eða vegna fargjalda fyrir maka sinn og/eða börn með almennings­samgöngum hvort sem um er að ræða samgöngur á landi, á sjó eða í lofti.

2. gr.

Við reglugerðina bætast tvö ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

a. (I.)

Þrátt fyrir 5. gr. reglugerðar þessarar er Vinnumálastofnun heimilt að gera sér­stakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysis­trygginga­kerfisins vegna náms á verk- og starfsnámsbraut á framhalds­skóla­stigi og frumgreinanáms sem boðið er á forsendum fullorðins­fræðslu, sbr. f-lið reglu­gerðar nr. 13/2009 um nám og námskeið sem eru viður­kennd sem vinnu­markaðs­úrræði, með síðari breytingum, hvort sem um er að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám, enda hafi Vinnumálastofnun viðurkennt námið sem lið í vinnu­markaðs­úrræðinu Nám er vinnandi vegur. Með námi á verk- og starfsnáms­brautum á framhaldsskólastigi er átt við nám á öðrum námsbrautum í framhalds­skóla en hefðbundnum bóknámsbrautum. Skilyrði er að atvinnuleitandi hafi skráð sig án atvinnu hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. janúar 2012. Með námssamn­ingnum skuldbindur atvinnuleitandinn sig til að stunda fullt nám sem hefst á haustönn 2012.

Atvinnuleitandinn skal fullnægja skilyrðum um mætingu sem sett eru um námið sem og öðrum skilyrðum um reglulega ástundun þess auk þess að eiga regluleg samskipti við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða námsráðgjafa viðkomandi skóla meðan á gildistíma námssamnings stendur. Atvinnuleitandinn þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á gildistíma námssamningsins.

Gildistími hvers námssamnings skv. 1. mgr. skal vera til 31. desember 2012.

Sá tími, sem nám atvinnuleitanda sem námssamningur er gerður um skv. 1. mgr. stendur yfir, telst ekki til ávinnslutímabils skv. 3. mgr. 15. gr. eða 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2012.

b. (II.)

Þrátt fyrir ákvæði 3., 4., 5., 6., 7., 8., 9. og 10. gr. sem og 4. gr. a reglugerðar þessarar er Starfi - vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. heimilt að gera þá samninga sem kveðið er á um í fyrrnefndum ákvæðum í stað Vinnumálastofnunar í þeim tilvikum þegar um er að ræða samninga vegna atvinnuleitenda sem falla undir þjónustu­samning milli Vinnumálastofnunar og Starfs - vinnumiðlunar og ráðgjafar ehf., dags. 13. júlí 2012, vegna þjónustu og ráðgjafar í tengslum við vinnumiðlun og vinnu­markaðs­aðgerðir til félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga. Að öðru leyti gildir efni framangreindra ákvæða um þá samninga sem Starf - vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. gerir í stað Vinnumálastofnunar á grundvelli ákvæðis þessa.

Ákvæði þetta gildir til 30. apríl 2015.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 62. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, að fenginni tillögu og umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, og 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 15. ágúst 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica