Velferðarráðuneyti

781/2011

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. - Brottfallin

1. gr.

Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 5. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnu­leitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins vegna náms sem er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hvort sem um er að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám, og nám á námsbrautum sem leiða til stúdentsprófs hjá framhaldsskólum enda hafi Vinnumálastofnun viðurkennt námið sem lið í vinnumarkaðsúrræðinu Nám er vinnandi vegur. Skilyrði er að atvinnuleitandi hafi skráð sig hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011. Með námssamningnum skuldbindur atvinnuleitandinn sig til að stunda fullt nám sem hefst á haustönn 2011 í framhaldsskóla, frumgreinadeild eða háskóla.

Atvinnuleitandinn skal fullnægja skilyrðum um mætingu sem sett eru um námið sem og önnur skilyrði um reglulega ástundun þess auk þess að eiga regluleg samskipti við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða námsráðgjafa viðkomandi skóla meðan á gildistíma námssamnings stendur. Atvinnuleitandinn þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Gildistími hvers námssamnings skv. 1. mgr. skal vera til 31. desember 2011.

Sá tími sem nám atvinnuleitanda sem námssamningur er gerður um skv. 1. mgr. stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils skv. 3. mgr. 15. gr. eða 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2011.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 62. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnu­markaðs­aðgerðir, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumála­stofnunar, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 16. ágúst 2011.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica