Félagsmálaráðuneyti

670/1998

Reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um vinnumarkaðsaðgerðir.

I. KAFLI

Markmið og skipulag vinnumiðlunar.

1. gr.

Vinnumálastofnun.

Vinnumálastofnun fer með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og skipuleggur og samræmir störf hennar eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

Öllum þeim aðilum sem annast vinnumiðlun og atvinnuleysisskráningu er skylt að láta stofnuninni í té upplýsingar um starfsemi sína á þann hátt og í því formi sem Vinnumálastofnun ákveður.

2. gr.

Markmið vinnumiðlunar.

Markmið vinnumiðlunar er að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu. Markmiði þessu skal náð með því að Vinnumálastofnun í samstarfi við svæðisvinnumiðlanir og skráningarstaði fylgist náið með framvindu á vinnumarkaði og geri tillögur um viðeigandi aðgerðir.

3. gr.

Vinnumarkaðsaðgerðir.

Stjórn Vinnumálastofnunar og svæðisráð skulu með tillögum sínum um vinnumarkaðsaðgerðir sjá til þess að úrræði séu í boði fyrir atvinnulausa til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á vinnumarkaði um kunnáttu og hæfni í starfi.

Svæðisráðin skulu jafnframt beina tillögum sínum um vinnumarkaðsaðgerðir til sveitarfélaga, atvinnuráðgjafa, félagasamtaka og fyrirtækja á sínu svæði eftir því sem við á. Þá skal svæðisráð koma á samráði við félög atvinnurekanda og launþega innan umdæmis svæðisvinnumiðlunar með það að markmiði að bæta þjónustu svæðisvinnumiðlunar.

Sé þörf á umfangsmiklum og almennum vinnumarkaðsaðgerðum skal stjórn Vinnumálastofnunar beina tillögum þar um til félagsmálaráðherra.

II. KAFLI

Svæðisvinnumiðlanir.

4. gr.

Hlutverk og skipulag.

Hlutverk svæðisvinnumiðlunar er að annast verkefni sem tilgreind eru í 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 13/1997.

Svæðisvinnumiðlun og einstakir skráningaraðilar innan umdæmis hennar, sbr. 6. gr., skulu hafa virkt eftirlit með því að umsækjendur um atvinnuleysisbætur uppfylli á hverjum tíma skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar fyrir bótarétti. Skulu þessir aðilar gera úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta viðvart án tafar ef grunur leikur á að svo sé ekki.

Svæðisvinnumiðlun skal senda úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á tveggja vikna fresti staðfestingu á því að hinn atvinnulausi fullnægi skilyrðum til að fá greiddar atvinnuleysisbætur.

5. gr.

Umdæmi svæðisvinnumiðlunar.

Landið er eitt vinnusvæði en svæðisvinnumiðlanir starfa á ákveðnum svæðum.

Svæðisvinnumiðlanir eru átta talsins og er umdæmi þeirra sem hér segir:

Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins: í Reykjavík.

Svæðisvinnumiðlun Vesturlands: á Akranesi.

Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða: í Ísafjarðarbæ.

Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra: á Blönduósi.

Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra: á Akureyri.

Svæðisvinnumiðlun Austurlands: á Egilsstöðum.

Svæðisvinnumiðlun Suðurlands: á Selfossi.

Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja: í Reykjanesbæ.

Umdæmi svæðisvinnumiðlana fylgja kjördæmamörkum að undanskildu Reykjavíkurkjördæmi og Reykjaneskjördæmi, þar sem mörkin milli Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins og Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja eru um Straum sunnan Hafnarfjarðar. Þá nýtur Reykhólahreppur í Austur-Barðastrandarsýslu þjónustu frá svæðisvinnumiðlun Vesturlands.

6. gr.

Skráningaraðilar.

Meginhlutverk skráningaraðila innan umdæmis svæðisvinnumiðlunar er að annast skráningu þeirra sem eru í atvinnuleit og óska eftir þjónustu svæðisvinnumiðlunar við atvinnuleit og starfsval. Ennfremur skal skráningaraðili veita atvinnuleitanda upplýsingar um laus störf og úrræði sem í boði eru á vegum svæðisvinnumiðlunar. Skráningaraðilar skulu miðla upplýsingum um skráningu til svæðisvinnumiðlunar.

Yfirstjórn skráningaraðila skal vera í höndum svæðisvinnumiðlunar í umboði Vinnumálastofnunar.

Svæðisráð ákveður fjölda skráningaraðila og staðsetningu innan umdæmis svæðisvinnumiðlunar. Svæðisráð skal tilkynna Vinnumálastofnun um ákvarðanir sínar. Birta skal tilkynningu um hverjir skráningaraðilar eru með opinberum hætti.

7. gr.

Þjónusta við atvinnuleitendur.

Atvinnuleitandi getur snúið sér til svæðisvinnumiðlunar í því umdæmi þar sem hann á lögheimili eða þar sem hann hefur tímabundna búsetu og óskað eftir upplýsingum um laus störf eða leitað aðstoðar við að finna starf við sitt hæfi.

Atvinnuleitandi getur leitað atvinnu hvar sem er á landinu. Ef þörf er á tímabundinni skráningu utan umdæmis svæðisvinnumiðlunar vegna atvinnuleitar skal atvinnuleitandi gera um það samkomulag við viðkomandi svæðisvinnumiðlun.

Svæðisvinnumiðlun veitir aðstoð við gerð starfsleitaráætlunar, sbr. IV. kafla. Starfsleitaráætlun skal að jafnaði gerð í umdæmi þeirrar svæðisvinnumiðlunar þar sem atvinnuleitandi á skráð lögheimili.

Ef niðurstaða úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta er að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum skal svæðisvinnumiðlun veita viðkomandi upplýsingar um aðstoð sem hann á rétt á lögum samkvæmt frá ríki eða sveitarfélagi.

8. gr.

Upplýsingagjöf svæðisvinnumiðlunar.

Svæðisvinnumiðlun heldur skrá yfir laus störf sem í boði eru og skulu þau flokkuð eftir nánari fyrirmælum Vinnumálastofnunar. Upplýsingum, sem svæðisvinnumiðlun berast um laus störf, skal hún koma með tryggum hætti á framfæri við þá atvinnuleitendur sem að hennar mati uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsmanns samkvæmt lýsingu vinnuveitanda.

Í upplýsingum þessum komi fram í hverju starfið er fólgið, hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanns og annað er máli skiptir. Telji svæðisvinnumiðlun að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði starfslýsingar veitir hún aðstoð við að koma á sambandi milli hans og þess vinnuveitanda sem óskar eftir starfsmanni.

Svæðisvinnumiðlun skal láta atvinnuleitendum í té þær upplýsingar sem hún hefur á hverjum tíma um atvinnumöguleika í umdæmum annarra svæðisvinnumiðlana ásamt upplýsingum um þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi um aðstoð við flutninga milli byggðarlaga, kjör og annað sem máli skiptir.

Geti svæðisvinnumiðlun ekki vísað atvinnuleitanda á vinnu innan umdæmis svæðisvinnumiðlunar skal skrá hann sem umsækjanda um atvinnu.

Svæðisvinnumiðlun skal í samráði við Vinnumálastofnun veita upplýsingar um starfsmenntun sem er í boði.

III. KAFLI

Skráning atvinnuleitanda.

9. gr.

Upplýsingagjöf atvinnuleitanda.

Sá sem lætur skrá sig sem atvinnuleitanda hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila skal upplýsa um eftirfarandi atriði:

 1.            Nafn, kennitölu og lögheimili.

 2.            Menntun, starfsréttindi og stéttarfélag ef um það er að ræða.

 3.            Fyrri störf, hjá hverjum og hvaða atvinnu sé óskað.

 4.            Annað er máli kann að skipta svo sem varðandi vinnufærni.

Atvinnuleitandi skal ótilkvaddur veita svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila upplýsingar um breytingar sem verða á stöðu hans á vinnumarkaði.

Svæðisvinnumiðlun og skráningaraðilar innan umdæmis hennar skulu hafa virkt eftirlit með því að þeir sem leita eftir þjónustu svæðisvinnumiðlunar og eru skráðir sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um að teljast vinnufærir.

10. gr.

Skráning atvinnulausra

Sá sem án árangurs leitar aðstoðar svæðisvinnumiðlunar við leit að atvinnu skal skráður á atvinnuleysisskrá ásamt nauðsynlegum upplýsingum þar á meðal um vinnufærni umsækjanda.

Atvinnuleitandi sem telur sig eiga rétt til atvinnuleysisbóta skal að jafnaði mæta vikulega til skráningar nema um annað hafi verið samið skv. starfsleitaráætlun. Líði fresturinn án þess að atvinnuleitandi mæti til skráningar skal hann felldur út af skrá yfir atvinnulausa.

Svæðisvinnumiðlun getur krafist þess að sá sem skráður er atvinnulaus hafi samband við hana og geri grein fyrir vinnu sinni frá síðustu skráningu.

Fái atvinnuleitandi vinnu án milligöngu svæðisvinnumiðlunar, skal hann tilkynna svæðisvinnumiðlun það án tafar. Ennfremur ber að tilkynna svæðisvinnumiðlun brottflutning úr umdæmi hennar svo og forföll vegna veikinda.

Atvinnuleitandi sem skráður er atvinnulaus en sækir ekki um atvinnuleysisbætur skal a.m.k. skrá sig einu sinni í mánuði nema um annað hafi verið samið skv. starfsleitaráætlun.

11. gr.

Skráning annarra atvinnuleitenda.

Atvinnuleitandi sem er í starfi skal að jafnaði láta vita á tveggja mánaða fresti hvort hann óski eftir áframhaldandi þjónustu vinnumiðlunar.

12. gr.

Vottorð um skráningu.

Hver sá, sem skráður er atvinnulaus getur krafist vottorðs þess er annast atvinnuleysisskráningu um atvinnu hans eða atvinnuleysi það tímabil, sem hann hefur verið skráður sem umsækjandi um atvinnu.

Vottorð skal bera með sér hvar og hvenær það er útgefið og staðfest af hlutaðeigandi svæðisvinnumiðlun.

IV. KAFLI

Starfsleitaráætlun.

13. gr.

Markmið starfsleitaráætlunar.

Markmið með gerð starfsleitaráætlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, er að aðstoða atvinnuleitanda við að finna starf við sitt hæfi. Starfsleitaráætlun skal vera með þeim hætti að þegar atvinnuleitandinn fylgir henni aukist líkur hans á að fá vinnu.

14. gr.

Gerð starfsleitaráætlunar.

Svæðisvinnumiðlun skal með samkomulagi við hvern einstakan atvinnuleitanda gera starfsleitaráætlun innan tíu vikna frá skráningu, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Í samkomulagi þessu skulu koma fram hugmyndir atvinnuleitanda og ráðgjafa svæðisvinnumiðlunar um atvinnumöguleika viðkomandi og hvaða tilboð og aðstoð vinnumiðlun getur veitt. Samkomulag um starfsleitaráætlun skal útfæra sem skriflegan samning milli aðila.

15. gr.

Umsjón með gerð starfsleitaráætlana.

Ráðgjafar svæðisvinnumiðlunar hafa umsjón með gerð starfsleitaráætlana og skulu leitast við að boða til sín atvinnuleitendur tímanlega þannig að unnt verði að ljúka gerð starfsleitaráætlunar innan 10 vikna frá skráningu.

Ráðgjafar skulu leitast við að áætlanir miðist við fyrri starfsreynslu, menntun og persónulegar forsendur atvinnuleitandans og atvinnuhorfur í landinu. Starfsleitaráætlanir skulu byggja á markmiði um framtíðarstarf og markvissa leið til að ná því marki. Í áætlunum skal koma fram hvernig atvinnuleitandinn ætlar að standa að atvinnuleit og þau úrræði á vegum svæðisvinnumiðlunar sem þarf til að sú leit beri árangur.

16. gr.

Krafa um virka atvinnuleit.

Atvinnuleitandi skal vera virkur í atvinnuleit sinni og vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst. Atvinnuleitandi sem er með samþykkta starfsleitaráætlun skal vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst ef hann er ekki í sérstökum úrræðum skv. starfsleitaráætlun.

Þátttöku í úrræðum skal hætt ef ástundun er ófullnægjandi og ef ekki er um lögmæt forföll að ræða.  

17. gr.

Eftirfylgni starfsleitar.

Ráðgjafi svæðisvinnumiðlunar og hinn atvinnulausi skulu semja um hvernig háttað skuli sambandi þeirra og eftirliti fulltrúa svæðisvinnumiðlunar meðan atvinnuleysi viðkomandi varir.

Gera skal ráð fyrir að að jafnaði verði reglubundin skráning á tveggja til fjögurra vikna fresti og að hinn atvinnulausi skili inn skilagrein um framgang starfsleitaráætlunar á a.m.k. tveggja mánaða fresti. Ráðgjafi skal að jafnaði boða atvinnuleitanda á sinn fund á fjögurra mánaða fresti og oftar ef ástæða þykir til. Atvinnuleitandi verður að leggja fram afrit af atvinnuumsóknum ef þess er óskað.

Ráðgjafi svæðisvinnumiðlunar skal halda skrá yfir árangur þess sem gert hefur starfsleitaráætlun. Í skrá þessari skal koma fram greinargóð lýsing á framvindu atvinnuleitar og samskiptum atvinnuleitandans og ráðgjafans.

Ef atvinnuleitandi fer ekki eftir samþykktri áætlun skal ráðgjafi boða hann á sinn fund og leiðbeina honum um framkvæmd áætlunarinnar. Ef atvinnuleitandi sinnir ekki leiðbeiningum um framkvæmd áætlunarinnar skal áminna hann skriflega um að frekari frávik frá framkvæmd áætlunarinnar geti valdið bótamissi, skv. 12. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar. Ef leiðbeiningar og áminning ber ekki árangur skal vísa málinu til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta. Ráðgjafi skal láta atvinnuleitanda hafa afrit af bréfi til úthlutunarnefndar.

18. gr.

Ágreiningur.

Ef ágreiningur rís vegna samkomulags um starfsleitaráætlun og ekki tekst að leysa úr þeim ágreiningi getur hvor aðili fyrir sig vísað honum til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta í umdæmi svæðisvinnumiðlunar þar sem atvinnuleitandi er með lögheimili, sbr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

19. gr.

Reglur um starfsleitaráætlun.

Stjórn Vinnumálastofnunar er heimilt að setja nánari reglur um starfsleitaráætlanir, gerð þeirra og eftirfylgni.

V. KAFLI

Vinnuveitendur.

20. gr.

Þjónusta við vinnuveitendur.

Vinnuveitandi getur snúið sér til svæðisvinnumiðlunar í því umdæmi þar sem atvinnurekstur hans fer fram og óskað upplýsinga um framboð á vinnuafli. Jafnframt getur vinnuveitandi óskað milligöngu svæðisvinnumiðlunar við útvegun starfsmanna. Geti svæðisvinnumiðlun ekki vísað á vinnuafl færir hún beiðnina á skrá yfir laus störf þar til ráðning hefur farið fram.

Svæðisvinnumiðlun veitir vinnuveitanda upplýsingar um framboð á vinnuafli í hlutaðeigandi starfsgrein. Upplýsingar þessar skulu greina menntun, starfsréttindi, reynslu og aldur þess eða þeirra, sem óskað hafa eftir starfi, en ekki nöfn þeirra. Óski vinnuveitandi milligöngu svæðisvinnumiðlunar kemur hún á sambandi milli þess eða þeirra einstaklinga, sem til greina koma og vinnuveitanda.

Svæðisvinnumiðlun skal láta vinnuveitanda í té þær upplýsingar, sem hún kann að hafa á hverjum tíma, um framboð vinnuafls í umdæmi annarra svæðisvinnumiðlana svo og hafa milligöngu gagnvart öðrum svæðisvinnumiðlunum ef vinnuveitandi óskar þess.

Svæðisvinnumiðlanir skulu með reglubundnum hætti kanna þarfir vinnuveitanda fyrir vinnuafl í sínu umdæmi.

21. gr.

Upplýsingagjöf vinnuveitenda.

Þegar vinnuveitandi snýr sér til svæðisvinnumiðlunar og óskar aðstoðar hennar við ráðningu starfsmanna skal hann láta í té eftirtaldar upplýsingar:

 1.            Nafn sitt eða fyrirtækis, heimilisfang, kennitölu og símanúmer.

 2.            Starfsgrein þá sem óskað er eftir starfsmönnum í ásamt lýsingu á starfinu og þeim kröfum sem gerðar eru um menntun, starfsréttindi og starfsþjálfun.

 3.            Almenn ráðningarkjör og ráðningartíma, svo og fjölda þeirra starfsmanna sem óskað er eftir.

 4.            Nafn þess starfsmanns sem fer með starfsmannamál og vera skal tengiliður við svæðisvinnumiðlun ef atvinnurekandi annast það ekki sjálfur.

 5.            Önnur atriði sem máli geta skipt svo sem hvort húsnæði er í boði og með hvaða kjörum.

Vinnuveitandi getur óskað nafnleyndar gagnvart atvinnuleitendum og er svæðisvinnumiðlun skylt að virða slíkar óskir.

VI. KAFLI

Úrræði á vegum svæðisvinnumiðlunar.

22. gr.

Nám og námskeið.

Atvinnuleitanda sem uppfyllir skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar fyrir bótarétti er heimilt að taka þátt í námskeiðum eða stunda nám á dagvinnutíma og þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma. Þarf þá atvinnuleitandi að uppfylla eitt eftirfarandi skilyrða:

 1.            Hann hafi verið atvinnulaus og á bótum í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann hefur nám og sýnt þykir að hann fái ekki starf við sitt hæfi. Er atvinnuleitanda þá heimilt að stunda nám á dagvinnutíma sem í heild varir ekki lengur en þrjá mánuði og þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma. Í þessu sambandi skal miðað við fullt nám en ekki þátttöku í einstökum námsgreinum sem teljast aðeins hluti af fullu námi eða prófum í einstökum námsgreinum.

 2.            Hann hafi verið atvinnulaus og á bótum í a.m.k. eitt ár samfellt áður en hann hefur nám og sýnt þykir að hann fái ekki starf við sitt hæfi. Er atvinnuleitanda þá heimilt að stunda nám sem samkvæmt ákvörðun starfsráðgjafa telst raunhæf starfsmenntun, endurmenntun eða endurhæfing atvinnuleitandans. Miða skal við að ljóst megi vera samkvæmt mati starfsráðgjafa að námið auki verulega líkur á því að atvinnuleitandi fái starf við sitt hæfi. Miðað skal við að atvinnuleitandi geti haldið óskertum bótum allt að einni önn í viðurkenndu starfsnámi og ef hann lýkur því námi geti hann tekið aðra önn á hálfum bótum.

 3.            Atvinnuleitandi hafi verið atvinnulaus og á bótum í a.m.k. 3 mánuði samfellt áður en hann hefur nám og sýnt þykir að hann fái ekki starf við sitt hæfi. Honum er þá heimilt að stunda nám og þiggja atvinnuleysisbætur á móti eins og um hlutastarf sé að ræða. Miðað skal við að réttur þessi sé til einnar annar í senn. Atvinnuleitanda er skylt meðan á námi stendur að þiggja starf á móti námi sem nemur a.m.k. 50% starfshlutfalli.

Nám atvinnuleitanda samkvæmt framansögðu skal byggt á starfsleitaráætlun og skal senda Vinnumálastofnun afrit slíkrar starfsleitaráætlunar. Meðan á námi stendur skal atvinnuleitandi gefa ráðgjafa svæðisvinnumiðlunar upplýsingar um framvindu námsins.

Vinnumálastofnun skal hafa eftirlit með því að framangreindum skilyrðum sé fullnægt og gera stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs viðvart ef sýnt þykir að framkvæmd þessara reglna sé ekki með réttum hætti.

Stjórn Vinnumálastofnunar er heimilt í samráði við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að setja nánari reglur um skilyrði fyrir rétti atvinnuleitanda samkvæmt ákvæði þessu.

23. gr.

Starfskynning, starfsþjálfun eða reynsluráðning.

Svæðisvinnumiðlanir hafa heimild til að bjóða atvinnuleitendum upp á eftirtalin úrræði sem skulu hafa það markmið að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa:

 1.            Starfskynning: Starfskynning er stutt viðvera á vinnustað án beinnar þátttöku í starfsemi vinnustaðarins.

 2.            Starfsþjálfun: Starfsþjálfun er skipulögð þátttaka atvinnuleitanda í starfsemi vinnustaðar um lengri eða skemmri tíma án skuldbindingar vinnuveitandans um ráðningu hans. Samhliða starfsþjálfun skal ráðgjafi svæðisvinnumiðlunar meta starfsgetu viðkomandi í samráði við verkstjóra á vinnustaðnum. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í a.m.k. 6 mánuði eða lengur skulu hafa forgang umfram aðra til þessa úrræðis og skal þessu úrræði fyrst beint til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur. Víkja má reglum um lengd atvinnuleysis ef um er að ræða eldra fólk, fatlaða, fyrrverandi fanga og vímuefnaneytendur. Hámarkstími starfsþjálfunar á bótum skal vera 6 mánuðir.

 3.            Reynsluráðning: Reynsluráðning er fyrir þá atvinnuleitendur sem vinnuveitandi er reiðbúinn að ráða til reynslu með það fyrir augum að ráða viðkomandi til starfa til frambúðar ef vel tekst til. Skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis er að viðkomandi starf sé viðbót við önnur störf hjá fyrirtækinu. Heimild til að beita þessu úrræði skal miða við langtímaatvinnulausa þ.e. einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í a.m.k. 6 mánuði eða lengur. Forgang til þessa úrræðis skulu þeir hafa sem hafa verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur. Hámarkstími reynsluráðningar skal vera 3 mánuðir á fullum bótum. Heimilt er að framlengja reynsluráðningu um aðra 3 mánuði á hálfum bótum ef líkur eru á að viðkomandi verði ráðinn til frambúðar og fyrir liggur 6 mánaða ráðningarsamningur eftir að reynslutíma lýkur. Víkja má frá reglum um lengd atvinnuleysis ef um er að ræða eldra fólk, fatlaða, fyrrverandi fanga og vímuefnaneytendur. Í slíkum tilvikum getur reynslutími á bótum verið allt að 6 mánuðir.

Þegar um starfsþjálfun eða reynsluráðningu er að ræða skal atvinnuleitandi fá greitt hjá vinnuveitanda mismun bóta og þeirra launa sem honum ber samkvæmt kjarasamningi.

Stjórn Vinnumálastofnunar skal setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

24. gr.

Önnur úrræði.

Stjórn Vinnumálastofnunar er heimilt, í samráði við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ef það á við, að bjóða atvinnuleitendum upp á önnur úrræði en að framan greinir.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

25. gr.

Sérstök þjónusta.

Unglingar, fatlaðir og aldraðir geta leitað til svæðisvinnumiðlunar og óskað aðstoðar hennar við leit að vinnu við þeirra hæfi. Skal svæðisvinnumiðlun hafa samvinnu við samtök og stofnanir, sem einkum fjalla um málefni hlutaðeigandi hópa, sérstaklega í sambandi við mat á starfsgetu og þörf á endurhæfingu eða starfsþjálfun.

Svæðisvinnumiðlun skal eftir föngum leiðbeina unglingum varðandi starfsval, m.a. með því að afla og dreifa upplýsingum um helstu atvinnutækifæri og þær kröfur sem atvinnulífið gerir um menntun og starfsreynslu.

26. gr.

Vinnumiðlun einkaaðila.

Vinnumálastofnun hefur eftirlit með þeim aðilum sem annast milligöngu um ráðningu eða vinnumiðlun skv. 21. gr. laga um vinnumarksaðgerðir. Að beiðni Vinnumálamálastofnunar er slíkum aðilum skylt að veita upplýsingar um starfsemi sína, þ.á m. um fjölda atvinnuleitenda, lausra starfa og atvinnuráðningar hjá hlutaðeigandi aðila.

27. gr.

Trúnaðarskylda.

Allar upplýsingar sem svæðisvinnumiðlun/skráningaraðili fær í starfi í sínu, hvort sem þær snerta einkamál eða viðskiptahagsmuni, skulu vera trúnaðarmál svæðisvinnumiðlunar og þess er upplýsingarnar veitir að öðru leyti en því sem snertir bein tengsl við miðlun vinnu og starfsráðningar.

28. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 13/1997 um vinnumarkaðsaðgerðir og lögum nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 129/1986 um vinnumiðlun ásamt síðari breytingum og reglugerð nr. 9/1980 um Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis.

Félagsmálaráðuneytinu, 16. nóvember 1998.

Páll Pétursson.

_____________

Elín Blöndal.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica