Reglugerð þessi gildir um störf og skrifstofuhald kærunefndar jafnréttismála.
Kærunefnd jafnréttismála er heimilt í samráði við félagsmálaráðuneytið að ráða starfsmann sem meðal annars undirbýr fundi nefndarinnar.
Telji formaður nefndarinnar þörf á sérkunnáttu við úrlausn máls getur hann kvatt til ráðuneytis aðila sem hafa slíka sérkunnáttu.
Kæra skal vera skrifleg og skal þar greint nafn, heimilisfang og kennitala þess er kærir. Í kæru skal lýst þeirri afgreiðslu eða ákvörðun sem kærð er. Kæru skal fylgja rökstuðningur og þau sönnunargögn um málsatvik sem tiltæk eru. Nefndin getur ákveðið að kæru skuli skilað á sérstöku eyðublaði sem nefndin lætur útbúa. Ef kæra er borin fram af öðrum en þeim er hefur hagsmuni af úrlausn máls skal skriflegt umboð fylgja. Erindi skal berast innan árs frá því að viðkomandi fékk vitneskju um ætlað brot.
Eftir að erindi berst er það lagt fram á næsta fundi kærunefndar, þar sem tekið er til meðferðar hvort málið fellur undir valdsvið nefndarinnar. Teljist málið falla utan verksviðs nefndarinnar skal vísa því frá. Berist kæra eftir að ár er liðið frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, skal vísa málinu frá nema aðstæður sem tilgreindar eru í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eigi við.
Ef málatilbúnaður álitsbeiðanda er fullnægjandi er gagnaðila veittur frestur til að tjá sig um álitsbeiðnina. Greinargerð gagnaðila er síðan lögð fram og afrit sent álitsbeiðanda. Athugasemdir hans við greinargerð gagnaðila skal að lokum bera undir gagnaðila. Frestir málsaðila til að skila umsögnum til nefndarinnar skulu að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur í hvert sinn. Þegar allar upplýsingar eru taldar liggja fyrir er málið tekið til úrlausnar.
Þegar sérstaklega stendur á getur nefndin gefið málsaðilum kost á að koma fyrir nefndina og gera frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum.
Um meðferð mála fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.
Upplýsingagjöf nefndarmanna og starfsmanns nefndarinnar takmarkast af 4. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000. Samkvæmt lagaákvæðinu skal fara með upplýsingar um gögn sem þar er fjallað um sem trúnaðarmál. Ef slík gögn eru lögð fyrir nefndina verða þau ekki afhent öðrum en aðilum viðkomandi máls. Við afhendingu slíkra gagna skal greina móttakanda skýrt frá því að gögnin skuli meðhöndluð sem trúnaðarmál.
Nefndin skal skila skriflegri, rökstuddri álitsgerð um ágreiningsmál sem nefndarmenn skulu undirrita.
Nefndin heldur fundargerðabók þar sem skráðar eru upplýsingar um meðferð mála og niðurstöður þeirra. Starfsmaður nefndarinnar ritar fundargerðir.
Nefndin skal leitast við að gefa álit innan þriggja mánaða frá því að kæra berst.
Nefndarmönnum og starfsmanni nefndarinnar ber að gæta þagmælsku um þau atvik, sem þeim verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. mgr. 4. gr., 4. mgr. 5. gr. og 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, öðlast þegar gildi.