Félagsmálaráðuneyti

541/1988

Reglugerð fyrir sambýli. - Brottfallin

Skilgreiningar.

1. gr.

            Sambýli eru heimili fámennra hópa fatlaðra sem skulu vera í almennum íbúðahverfum eða annars staðar sem henta þykir og líkjast venjulegum heimilum. Við sambýli skal vera að minnsta kosti einn fastur starfsmaður og starfsemi þess er háð leyfi félagsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra.

            Húsnæði fyrir sambýli getur verið íbúð í fjölbýlishúsi, raðhús, einbýlishús eða annað húsnæði sem flokkast undir almennt íbúðarhúsnæði. Ennfremur getur eitt sambýli verið í fleiri íbúðum, enda séu þær nálægar hver annarri.

 

2. gr.

            Fatlaðir 16 ára og eldri skulu eiga þess kost að búa á sambýlum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

 

Markmið.

3. gr.

            Markmið sambýla er að efla sjálfstæði og færni íbúanna, í því skyni að þeir verði eins sjálfbjarga og ráðandi um eigin hagi og kostur er. Til að ná þessu markmiði skal veita íbúunum leiðsögn eftir þörfum og kappkosta að hafa þá með í ráðum um allt sem varðar einkahagi þeirra, sem og heimilishagi.

 

4. gr

            Íbúar á sambýlum skulu eiga þess kost að sækja skóla, dagvist eða vinnu utan heimilis.

 

Þjónusta.

5. gr.

            Á sama sambýli getur búíð fólk mismunandi fatlað. Þjónusta á sambýlum skal því vera þeim  mismikil eftir fötlun og þörfum íbúanna, og skal fjöldi stöðugilda á sama hátt vera breytilegur, og miðast við eftirfarandi þjónustuþörf fatlaðra:

a) Þar sem búa fjölfatlaðir er þarfnast mikillar aðstoðar við daglegar athafnir verði starfsmenn allan sólarhringinn.

b) Þar sem búa fatlaðir með alvarleg hegðunarvandkvæði og þarfnast umönnunar af þeim sökum verði starfsmenn allan sólarhringinn.

c) Þar sem búa fatlaðir er þarfnast töluverðrar aðstoðar við athafnir daglegs lífs verði starfsmenn allan sólarhringinn.

d) Þar sem búa fatlaðir er geta að miklu leyti séð um sig sjálfir, verði séð fyrir aðstoð og I stuðningi í daglegu lífi.

e) Þar sem búa fatlaðir er geta að mestu leyti séð um sig sjálfir, verði séð fyrir leiðbeiningum eða stuðningi í daglegu lífi, þó án stöðugrar viðveru starfsmanns.

            Mat á fjölda stöðugilda skal fara fram þegar sambýli tekur til starfa og síðan árlega. Félagsmálaráðuneytið skal sjá til þess að slíkt mat fari fram.

 

Fjöldi og val íbúa.

6. gr.

            Á hverju sambýli skulu að jafnaði vera 5-7 íbúar og skulu þeir eiga kost á sérherbergjum.

 

7. gr.

            Við val íbúa á sambýli skal þess gætt að íbúahópurinn sé hæfilega fjölbreyttur m.t.t. aldurs, færni og áhugasviða. Ennfremur skal leitast við að hafa væntanlega íbúa og aðstandendur þeirra með í ráðum hvað þetta snertir.

            Það skal vera meginregla að á sambýlum búi fólk af báðum kynjum. Gera skal ráð fyrir að fólk í sambúð geti búið á sambýlum.

 

Menntun og ábyrgð starfsfólks.

8. gr.

            Á sambýlum skal að öðru jöfnu starfa fólk með menntun í meðferð og umönnun fatlaðra.

 

9. gr.

            Forstöðumaður sambýlis skal bera ábyrgð á starfsemi þess, þ.m.t. starfsmannahaldi, daglegum fjárreiðum íbúa sem ekki geta annast þær sjálfir, innra starfi sambýlisins, samstarfi við aðstandendur og samskiptum við vinnustaði, dagvist og skóla íbúanna. Ennfremur skal forstöðumaður stuðla sem best að velferð íbúanna og kappkosta að þeim nýtist almenn þjónusta sem í boði er á hverjum tíma sem og þeirri sérfræðilegu ráðgjöf, sem fáanleg er hjá svæðisstjórnum.

            Starfsfólk sambýlis skal hafa samstarf við vinnustaði og aðrar stofnanir, sem íbúarnir hafa samskipti við, eftir því sem þörf krefur.

 

10. gr.

            Umsókn um vistun á sambýli skal senda til viðkomandi svæðisstjórnar sem mælir með vistun á sambýli að höfðu samráði við forstöðumann og viðkomandi greiningar- og ráðgjafar­aðila sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 41/1983. Ennfremur þarf til að koma samþykki handhafa starfsleyfis þegar sambýli er rekið af félagi fatlaðra.

            Sé umsókn um vistun synjað er hægt að vísa málinu til stjórnarnefndar, sem leitar lausnar sbr. 8. gr. laga nr. 41/1983.

            Hvað varðar brottflutning íbúa af sambýli vísast til 9. gr. reglugerðar nr. 393/1986 um svæðisstjórnir málefna fatlaðra.

 

Rekstur.

11. gr.

            Ríkissjóður greiðir laun starfsmanna á sambýlum. Launakjör starfsmanna ráðast af samningum fjármálaráðuneytisins og viðkomandi stéttarfélaga eða heildarsamtaka þeirra. Til annarra rekstrargjalda, þ.e. sameiginlegra þarfa íbúanna, verði varið allt að 75% af samanlögðum örorkulífeyri og tekjutryggingu eða jafngildi þess, sjá nánar 3. mgr.

            Til sameiginlegra þarfa íbúanna teljast m.a. fæðiskostnaður, rafmagns- og hitakostnað­ur, opinber gjöld, kaup á heimilistryggingu, afnotagjald síma, sjónvarps og útvarps, eðlilegt viðhald og afnot af húsnæði sé um leiguhúsnæði að ræða.

            Kappkosta skal að gæta hagsýni í rekstri til að tryggja búunum ráðstöfunarfé. Forstöðumaður skal halda bókhald um fjárframlag íbúa til rekstrar sambýlis og er hann ábyrgur gagnvart handhafa starfsleyfis, íbúum eða umboðsmönnum þeirra um meðferð rekstarfjármuna.

            Gögn þar að lútandi skal leggja fyrir handhafa starfsleyfis og eftirlitsaðila sbr. 11. gr. laga nr. 41/1983 eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

 

12. gr.

            Um stofnkostnað sambýla fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra og reglugerð um stofnkostnað nr. 328/1986.

 

Starfsleyfi og eftirlit.

13. gr.

            Leyfi til stofnunar og rekstrar sambýla veitir félagsmálaráðuneyti, skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra.

            Þegar sótt er um starfsleyfi skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um stofnkostnað, staðsetn­ingu, stærð og ástand húsnæðis, fjölda búa og þörf fyrir starfsfólk og annað er varðar eðli og umfang starfseminnar.

 

14. gr.

            Eftirlit með rekstri sambýla er í höndum viðkomandi svæðisstjórna sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1983 eða í höndum félagsmálaráðuneytis sbr. 3. mgr. sömu greinar.

            Reglugerð þessi sem sett er skv. 12. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. janúar 1989.

 

Félagsmálaráðuneytið, 19. desember 1988.

 

Jóhanna Sigurðardóttir.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica