1. gr.
Sveitarstjórn er heimilt að leggja gatnagerðargjöld á lóðir og byggingar í sveitarfélaginu, eftir því sem nánar segir í samþykkt þessari. Heimilt er að leggja gatnagerðargjald á land, sem sambærilegt telst, þótt ekki sé sérstök lóð.
2. gr.
Gatnagerðargjöld eru tvenns konar: A-gjald, sem er gjald vegna þátttöku lóðarhafa í kostnaði við að gera undirbyggða götu með tilheyrandi lögnum, og B-gjald, sem er gjald vegna þátttöku lóðarhafa i að gera bundið slitlag á götu, svo og ganga endanlega frá gangstétt.
3. gr.
Fjárhæð A-gjalds skal vera sem hér segir:
1. Íbúðarhús ásamt bílgeymslu að stærð samtals allt að 700 rúmmetrum á lóð allt að 1 300 fermetrum kr. 3 000 000. Fyrir hvern umframrúmmetra byggingar skal greiða kr. 4 000 og fyrir hvern umframfermetra lóðar kr. 2 000.
2. Hús til annarra nota: Hið sama gjald og að ofan greinir. Þó er sveitarstjórn heimilt að ákveða lægra gjald um vissar tegundir bygginga.
Sé hús stækkað þannig, að það verði meira en 700 rúmmetrar ásamt bílgeymslu, þá skal greiða kr. 4 000 fyrir hvern rúmmetra, sem umfram verður þau mörk.
4. gr.
Gatnagerðargjald skv. 3. gr. fellur í gjalddaga áður en byggingaleyfi er vent. En sveitarstjórn ákveður nánar greiðsluskilmála.
Ef ákveðið er að undirbyggja tiltekna götu, þá er sveitarstjórn heimilt að innheimta gatnagerðargjöld af öllum lóðar- og eða landeigendum við þessa götu, þegar verkið er unnið, þótt byggingaleyfi hafi ekki verið vent.
Þá er sveitarstjórn einnig heimilt að fresta innheimtu gatnagerðargjalda af nýbyggingum við tiltekna götu, uns framkvæmdir við undirbyggingu þessarar götu hefjast. Skal þá fjárhæð gjaldsins miðast við þá vísitölu sem í gildi er, þegar verkið er unnið.
5. gr.
Gjöld skv. 3. gr. breytast í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Grunntölur þær sem nefndar eru í 3. gr. miðast við vísitölu þá, sem í gildi var 1. ágúst 1979.
6. gr.
Fjárhæð B-gjalds skal nema 20% af því A-gjaldi, sem greiðast mundi af viðkomandi byggingu og lóð á þeim tíma. Miðast það við þá vísitölu sem í gildi er, þegar lagning bundins slitlags og frágangur gangstéttar fer fram. Nú breytist vísitala meðan verkið er unnið og skal þá miða við meðalvísitölu á því tímabili sem um er að ræða.
Við álagningu B-gjalds af fasteignum við götu, sem áður hefur verið lögð bundnu slitlagi og gangstétt, skal miða við þá vísitölu, sem þá gildir.
7. gr.
Gatnagerðargjald skv. 6. gr. fellur í gjalddaga á því ári, sem framkvæmdum við bundið slitlag og frágangi gangstéttar við viðkomandi götu lýkur. Sveitarstjórn ákveður nánar greiðsluskilmála.
8. gr.
Sveitarstjórn er heimilt að lækka gjaldstuðla skv. 3. og 6. gr. um allt að 50% án frekari staðfestingar ráðuneytis.
Gatnagerðargjaldi fylgir lögveð i fasteign þeirri sem það er lagt á og gengur það ásamt vöxtum fyrir öllum veðkröfum sem á eigninni hvíla, og tekur það einnig til vátryggingarfjár eignarinnar.
Heimilt er að taka gjöld skv. reglugerð þessari lögtaki skv. lögum nr. 29/1885. Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Bessastaðahrepps, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51 16. maí 1974 um gatnagerðargjöld, til þess að öðlast gildi þegar í stað.
Félagsmálaráðuneytið, 30. september 1980.
F. h. r.
Hallgrímur Dalberg.
Hólmfríður Snæbjörnsdóttir.