Efnisyfirlit:
1. Skilgreiningar.
2. Almenn ákvæði.
3. Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.
4. Skipulag og skýrslugerð.
5. Framkvæmd eldvarnaeftirlits.
6. Eftirlitstímabil.
1. Skilgreiningar.
1.1. Eftirlit sveitarfélaga:
Hér er átt við eldvarnaeftirlit á vegum sveitarstjórnar og slökkviliðsstjóra, sbr. 4. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.
1.2. Atvinnuhúsnæði:
Með atvinnuhúsnæði er í þessari reglugerð átt við húsnæði þar sem almenningur kemur saman, dvelst eða vistast og hverskonar atvinnustarfsemi fer fram.
Dæmi um slíkt atvinnuhúsnæði (ekki tæmandi upptalning):
Skrifstofur, verslanir, bankar, hótel, gistihús og gistiskálar, barnaheimili, heimavistir, skólar og dagvistarstofnanir, sjúkrahús, læknamiðstöðvar, heilsuhæli, dvalarstofnanir og dvalarheimili fyrir aldraða, stofnanir og vistheimili fyrir fatlaða, bókasöfn og lestrarsalir, listasöfn, byggðasöfn, leikhús, kvikmyndahús, hljómleikahús, sýningahús, íþróttahús, kirkjur og safnaðarheimili, flugstöðvarbyggingar, bensínafgreiðslur, olíubirgðastöðvar, sláturhús, loðdýrabú, alifuglabú, frystihús og önnur fiskverkunarhús, viðgerðarverkstæði, iðnaðar- og verksmiðjuhús og vörugeymslur.
Atvinnuhúsnæði í landbúnaði, þ.m.t. gripahús, hlöður og tilheyrandi geymsluhús, er sömuleiðis eftirlitsskylt.
1.3. Telst ekki atvinnuhúsnæði:
Íbúðarhúsnæði til einkanota, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús, telst ekki atvinnuhúsnæði og er því undanskilið ákvæðum þessarar reglugerðar, nema þar fari fram önnur atvinnustarfsemi heldur en telst vera venjulegur heimilisiðnaður.
1.4. Sérhæft eldvarnaeftirlit:
Með sérhæfðu eldvarnaeftirliti er í þessari reglugerð átt við eftirlit í meiriháttar atvinnu- og þjónustuhúsnæði þar sem eldhætta er sérstaklega mikil eða brunaáhætta er stór eða stórfelld hætta getur verið á mannskaða í eldsvoða. Einnig þar sem eldvarnaeftirlit getur talist það vandasamt að sérþekking á starfsemi og rekstri viðkomandi áhættu er nauðsynleg.
Dæmi um sérhæft eldvarnaeftirlit er eftirlit í sjúkrahúsum og meiriháttar framleiðslufyrirtækjum, s.s. málningarverksmiðjum og plastverksmiðjum og sömuleiðis í gasbirgðastöðvum og olíubirgðastöðvum.
2. Almenn ákvæði.
Reglugerð þessi gildir fyrir landið allt um eldvarnaeftirlit á vegum sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hefur verið í notkun.
Reglugerðin tekur til húsa og annarra mannvirkja á landi þ.m.t. flugvallar- og hafnarmannvirki, og til geymslustöðva og vörubirgða hvort sem þær eru innan húss eða utan, sem eftirlitsskyld eru samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar eða annarra gildandi reglugerða um brunavarnir og brunamál.
Undanskilin ákvæðum þessarar reglugerðar um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga eru flugvélar og skip, svo og almennar vinnuvélar, bifreiðar og önnur vélknúin farartæki.
3. Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 41/1992 er sérhverju sveitarfélagi skylt að halda uppi opinberum brunavörnum, þ.m.t. að reka slökkvilið og annast eldvarnaeftirlit, á sínu svæði og kosta það.
Sveitarfélögum er heimilt samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnalaga að stofna með sér byggðasamlag um brunavarnir (brunavarnafélag) til að annast sameiginlega brunavarnir viðkomandi svæðis, að öllu leyti eða að hluta til, t.d. einungis um eldvarnaeftirlit. Skal þá gera skriflegan samning um starfsemi og rekstur félagsins og öðlast hann gildi með staðfestingu félagsmálaráðuneytis að fenginni umsögn Brunamálastofnunar ríkisins.
Megin markmið eldvarnaeftirlits sveitarfélaga (sveitarstjórna og slökkviliðsstjóra) er, auk þess sem segir í þessari reglugerð, eftirfarandi:
- Að leiðbeina almenningi, fyrirtækjum og stofnunum um allt er varðar brunavarnir og hættu þá sem af eldsvoða getur stafað.
- Að sjá til þess að eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis sinni skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt gildandi lögum, þ.m.t. að þeir ástundi eigið eldvarnaeftirlit í samræmi við gildandi reglugerð og leiðbeiningar Brunamálastofnunar ríkisins.
- Að gera úttektir á húsum og mannvirkjum sem fullgerð eru og leggja fram athugasemdir varðandi nauðsynlegar úrbætur til bættra brunavarna til að afstýra hættu fyrir menn og eignir.
- Að fylgjast með því ásamt byggingarfulltrúa að nýbyggingar fullnægi kröfum í lögum og reglugerðum um brunavarnir og byggingarmál áður en notkun þeirra er heimiluð.
4. Skipulag og skýrslugerð.
4.1. Atvinnuhúsnæði sem þegar er byggt og er í rekstri.
Slökkviliðsstjóri, eða eldvarnaeftirlitsmaður á hans vegum, skal tafarlaust krefjast nauðsynlegra úrbóta á atvinnuhúsnæði sem þegar er byggt og er í rekstri, til að það fullnægi lágmarkskröfum um brunavarnir samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.
4.2. Eftirlitsskyld mannvirki og skoðunarskýrslur til hlutaðeigandi aðila. Slökkviliðsstjóri, eða eldvarnaeftirlitsmaður á hans vegum, skal halda sérstaka skrá yfir helstu brunaáhættur sem fyrirhugað er að hafa opinbert eftirlit með og ákveður hversu oft skuli skoða tiltekið mannvirki séu ekki um það nægilega skýr ákvæði í þessari reglugerð eða nánar útfærðum reglum frá Brunamálastofnun ríkisins.
Slökkviliðsstjóri metur sérstaklega hvort atvinnuhúsnæði skuli vera undanþegið skoðunarskyldu samkvæmt ákvæðum 6. kafla þessarar reglugerðar um eftirlitstímabil. Það getur m.a. átt við um lítið húsnæði (undir 50 m2), þar sem fáir vinna (færri en 5) og starfsemin hefur ekki í för með sér sérstaka eldhættu, t.d. litlar verslanir og rakarastofur.
Upplýsingar um eldvarnaúttektir skal senda reglulega til Brunamálastofnunar ríkisins. Upplýsingarnar skulu einnig vera aðgengilegar hlutaðeigandi brunatryggingafélögum.
4.3. Sérhæft eldvarnaeftirlit.
Slökkviliðsstjóri metur hvenær um svo sérhæft eftirlit er að ræða, að eigandi eða forráðamaður viðkomandi áhættu geti ekki sjálfur annast það án utanaðkomandi aðstoðar viðurkennds eftirlitsaðila. Slíkur eftirlitsaðili skal hafa hlotið sérstaka viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins, þess efnis að hann sé hæfur til starfsins. Slökkviliðsstjóri getur krafist tafarlausra úrbóta á eigin eftirliti eiganda eða forráðamanns í slíku húsnæði og er slökkviliðsstjóra heimilt að óska eftir nauðsynlegri ráðgjöf og leiðbeiningum hjá Brunamálastofnun ríkisins í þessu efni.
4.4. Árleg skýrsla um framkvæmd eftirlitsins.
Slökkviliðsstjóri, eða eldvarnaeftirlitsmaður á hans vegum, skal gera sérstaka skýrslu til viðkomandi sveitarstjórnar, eða stjórnar byggðasamlags um brunavarnir, um framkvæmd eftirlitsins í umdæminu. Slökkviliðsstjóri gerir einnig skýrslu um eldsvoða og orsakir og helstu afleiðingar þeirra fyrir hvert ár.
Skýrslugerð þessari skal vera lokið í febrúar næsta ár á eftir og skal þá jafnframt senda skýrsluna til Brunamálastofnunar ríkisins.
4.5. Stöðluð eyðublöð og tölvuforrit.
Brunamálastofnun ríkisins gefur út stöðluð eyðublöð og/eða tölvuforrit vegna eftirlitsins, sem slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmönnum sveitarfélaga ber að afla sér og nota. Einstök sveitarfélög eða byggðasamlög um brunavarnir hafa þó heimild til að nota eigin eyðublöð og tölvuforrit að því tilskildu að þau séu á fullnægjandi hátt samræmd tilsvarandi gögnum Brunamálastofnunar ríkisins.
5. Framkvæmd eftirlitsins.
5.1. Grundvöllur eftirlits sveitarfélaga.
Til grundvallar eftirlitinu skal leggja ákvæði og skilgreiningar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál sem í gildi eru á hverjum tíma, svo og orðsendingar eða önnur fyrirmæli Brunamálastofnunar ríkisins.
Brunamálastofnun ríkisins ber að veita slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum sveitarfélaga alla æskilega og nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar um framkvæmd eldvarnaeftirlits eftir því sem við á og tök eru á hverju sinni.
5.2. Almenn framkvæmd eftirlitsins.
Kanna skal sérstaklega hvort eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis sinni skyldum sínum og ábyrgð í samræmi við reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis.
Eftirfarandi atriði skal m.a. hafa í huga:
- Eftirlit skal að jafnaði framkvæma án fyrirvara og meðan mannvirkið er í notkun.
- Líta skal eftir því að byggingin fullnægi kröfum í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál og ekki hafi verið gerðar breytingar á húsakynnum sem stríða gegn samþykktum uppdráttum og ekki hafi verið gerðar meiriháttar breytingar á starfsemi án undangengins samráðs við byggingar- og brunamálayfirvöld.
- Líta skal eftir því að ekki stafi sérstök hætta af eldfimum efnum eða sprengifimu gasi, heldur séu slík efni geymd og meðhöndluð af fullri varúð og í samræmi við lög, reglugerðir og önnur fyrirmæli brunamálayfirvalda.
- Líta skal eftir því að fyrirmælum og leiðbeiningum um umgengni og þrif sé framfylgt.
- Líta skal eftir því að undankomuleiðir fyrir fólk og aðgangsleiðir fyrir björgunar og slökkvilið séu greiðfærar og merktar á tilskilinn hátt.
- Líta skal eftir því að slökkvivatn sé fyrir hendi í nægilegu magni og með hæfilegum þrýstingi og aðgengilegt fyrir slökkviliðið.
- Líta skal eftir því að handslökkvitæki, merkingar, neyðarlýsing og annar tilskilinn búnaður eða tæki til brunavarna og slökkvistarfs sé fyrir hendi og í fullkomnu lagi.
- Líta skal eftir því að brunaviðvörunar- og slökkvikerfi sem kunna að vera í mannvirkinu séu virk og reglum Brunamálastofnunar um þjónustu og viðhald sé framfylgt.
- Líta skal eftir því að starfsfólk hafi fengið fræðslu um almennar brunavarnir og tilski1da æfingu í slökkvistarfi, björgun og flótta úr eldsvoða, eftir því sem við á hverju sinni eða fyrirmæli eru um í lögum og reglugerðum.
5.3. Kröfur um úrbætur.
Slökkviliðsstjóri, eða eldvarnaeftirlitsmaður á hans vegum, skal skriflega tilkynna eiganda og/eða forráðamanni viðkomandi húsnæðis um þá annmarka sem fram kunna að koma við eftirlitið. Ber þá að gefa tiltekinn. frest til að gera úrbætur.
Ef annmarkarnir hafa í för með sér sérstaka hættu á eignatjóni í bruna eða alvarleg hætta á manntjóni stafar af því að settum reglum um brunavarnir er ekki fylgt, ber slökkviliðsstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt 26. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.
6. Eftirlitstímabil.
6.1. Almennt.
Hér á eftir eru tilgreind almenn tímatakmörk um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga eftir notkun húsa. Eftirlitið skal fara fram með reglubundnum hætti og gilda tímamörkin sem lágmarkskrafa, að því tilskildu að verulegir annmarkar hafi ekki komið fram við síðustu eldvarnaskoðun.
Hafi verulegir annmarkar komið fram við síðustu skoðun, skal eldvarnaeftirlitið fylgja málinu eftir þar til úr hefur verið bætt og gilda hin almennu tímamörk þá frá þeim tíma að fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar að mati eldvarnaeftirlitsins.
Með "afmarkaðri rekstrareiningu í húsi" er hér á eftir átt við rými í húsi sem hólfað er frá öðrum hlutum þess með a.m.k. B60 brunaskilum (gólf, loft og innveggir). Að öðrum kosti fellur húsið í heild sinni undir tilgreind tímamörk varðandi eldvarnaeftirlit.
6.2. Hótel, heimavistir, verbúðir, heilsuhæli, hjúkrunarheimili, hvíldar- og hressingarheimili, ellíheimili og aðrar hliðstæðar byggingar.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, með gistiaðstöðu eða svefnplássum fyrir færri en 10 manns, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, með gistiaðstöðu eða svefnplássum fyrir a.m.k. 10 manns en færri en 50 manns, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, með gistiaðstöðu eða svefnplássum fyrir 50 manns eða fleiri, skal skoða a.m.k. árlega.
6.3. Samkomuhús, þ.m.t. félagsheimili, leikhús, kvikmyndahús, hljómleikahús, hús með funda- og sýningasölum, íþróttahús og stórir fjallaskálar, kirkjur, safnaðarheimili og önnur hús sem notuð eru í svipuðum tilgangi.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, fyrir færri en 50 manns (gestir og starfsfólk), skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, fyrir a.m.k. 50 manns en færri en 150 manns (gestir og starfsfólk) skal skoða a.m.k. árlega.
Hús, eða afmarkaða rekstrareiningu í húsi, fyrir 150 manns eða fleiri (gestir og starfs fólk) skal skoða a.m.k. tvisvar sinnum á hverju ári.
6.4. Skólar og dagvistarstofnanir.
Kennsludeildir í skólum og dagvistarstofnanir fyrir færri en 50 manns (nemendur eða vistmenn og starfsfólk) skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili. Kennsludeildir í skólum og dagvistarstofnanir fyrir a.m.k. 50 manns en færri en 150 manns (nemendur eða vistmenn og starfsfólk) skal skoða a.m.k. árlega. Kennsludeildir í skólum og dagvistarstofnanir fyrir 150 manns eða fleiri (nemendur eða vistmenn og starfsfólk) skal skoða a.m.k. tvisvar sinnum á hverju ári.
6.5. Verslanir.
Verslanir með gólfflöt að fylgirýmum meðtöldum undir 150 m2, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili.
Verslanir með gólfflöt að fylgirýmum meðtöldum 150 m2 en undir 600 m2, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili.
Verslanir með gólfflöt að fylgirýmum meðtöldum 600 m2 og þar yfir, skal skoða a.m.k. árlega.
Séu ofangreind rekstrarrými hluti af byggingu en ekki í eigin og afmarkaðri brunasamstæðu (a.m.k. A60 brunaskil: gólf, loft og innveggir), fellur hús í heild sinni undir ofangreind tímamörk um eldvarnaeftirlit.
6.6. Yfirbyggðar bílageymslur.
Bílageymslur sem hafa samanlagt gólfflatarmál (bílastæði og fylgirými) undir 600 m2, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili.
Bílageymslur sem hafa samanlagt gólfflatarmál (bílastæði og fylgirými) 600 m2 en undir 2000 m2, skal skoða a.m.k. árlega.
Bílageymslur sem hafa samanlagt gólfflatarmál (bílastæði og fylgirými) 2000 m2 og þar yfir, skal skoða a.m.k. tvisvar sinnum á hverju ári.
6.7. Iðnaðar- og geymsluhús.
Iðnaðar- og geymsluhús, þ.m.t. fiskvinnsluhús, þar sem samanlagður gólfflötur er undir 200 m2 og brunaálag er lítið (undir 100 MJ/m2) og starfseminni fylgir lítil eldhætta að mati slökkviliðsstjóra, skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju tveggja ára tímabili.
Iðnaðar- og geymsluhús, þ.m.t. fiskvinnsluhús, þar sem samanlagður gólfflötur er undir 200 m2 en uppfyllir ekki ofangreind skilyrði um brunaálag og eldhættu, skal skoða a.m.k. árlega.
Öll önnur iðnaðar- og geymsluhús, þ.m.t. fiskvinnsluhús, skal skoða a.m.k. tvisvar sinnum á hverju ári.
Þar sem unnið er með mjög eld- og sprengifim eða eitruð efni, eða þar sem slík efni eru geymd, skal haga eldvamaeftirliti í samræmi við lög og reglugerðir um þessháttar efni eða samkvæmt nánari reglum og fyrirmælum Brunamálastofnunar ríkisins og/eða Vinnueftirlits ríkisins og/eða Hollustuverndar ríkisins.
6.8. Friðaðar byggingar, listasöfn og minjasöfn.
Friðaðar byggingar skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili. Sveitarstjórn getur ákveðið að einstakar slíkar byggingar skuli skoða oftar ef hún telur að mikil verðmæti séu í húfi.
Lista- og minjasöfn og álíka hús skal skoða a.m.k. tvisvar sinnum á hverju ári. Sveitarstjórn ger ákveðið að einstök slík söfn megi skoða sjaldnar ef hún telur að lítil verðmæti séu í húfi.
6.9. Atvinnuhúsnæði í landbúnaði.
Almenn gripahús; hlöður og geymsluhúsnæði skal skoða a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili.
Ef um meiriháttar atvinnuhúsnæði í landbúnaði er að ræða gilda um það ákvæðin í gr. 6.7. um iðnaðar- og geymsluhús.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál og öðlast þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytið, 7. apríl 1994.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Sesselja Árnadóttir.