Félagsmálaráðuneyti

545/1997

Reglugerð um greiðslu atvinnuleysisbóta. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

I. KAFLI

Um skilyrði bótaréttar.

1. gr.

Umsækjandi sé í atvinnuleit og fullfær til vinnu.

Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.             Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.             Að vera fullfær til vinnu.

c.             Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

2. gr.

Vinnufærni umsækjanda.

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal gera grein fyrir vinnufærni sinni þegar hann sækir um bæturnar. Verði breyting á vinnufærni hans þegar hann er byrjaður á bótatímabili skal hann greina frá því við næstu skráningu. Skrá skal á dagpeningavottorð umsækjanda að um skerta vinnufærni hans sé að ræða og hvers eðlis hún sé.

Fái skráningaraðili vitneskju um að vinnufærni umsækjanda sé skert eða hafi skerst, án þess að bótaþegi hafi sjálfur upplýst um það, skal þeim upplýsingum komið á framfæri við úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta.

Svæðisvinnumiðlun skal gera Atvinnuleysistryggingasjóði viðvart í þeim tilvikum þegar leitað er álits trúnaðarlæknis sjóðsins, sbr. 4. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

3. gr.

Vinnu hafnað á fyrstu fjórum vikum atvinnuleysis.

Bótaþegi getur hafnað tilboði um vinnu sem honum er boðin á fjórum fyrstu vikum atvinnuleysis enda séu góðar líkur á að hann muni fá vinnu í sinni starfsgrein, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Að liðnum fjórum vikum ber umsækjanda að taka því starfi sem honum býðst að viðlögðum bótamissi, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

4. gr.

Tilboði um vinnu hafnað.

Ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafnar tilboði um vinnu sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, skal ávallt skrá sem gleggstar upplýsingar um það á dagpeningavottorð hans.

 

II. KAFLI

Atvinnuleysisbætur og námsmenn.

5. gr.

Meginregla.

Námsmenn eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

 

6. gr.

Bótaréttur þeirra sem hætta námi fyrir lok námsannar.

Ef námsmaður sem hefur áunnið sér rétt til bóta hverfur frá námi á hann ekki rétt til bóta þann tíma sem eftir stendur af námsönn.

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu, ef veruleg breyting á fjölskylduhögum eða fjárhagsstöðu hefur valdið því að hann hætti námi, sbr. 5. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

III. KAFLI

Missir bótaréttar.

7. gr.

Gildar ástæður fyrir starfslokum.

Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:

a.             Maki umsækjanda hefur farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.

b.             Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.

Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.

 

IV. KAFLI

Endurútreikningur á bótahlutfalli.

8. gr.

Frádráttur vegna vinnustunda á bótatímabili.

Ef maður sem ákvarðaðar hafa verið bætur fær tilfallandi vinnu dag og dag, skal miða við að 8 tilfallandi vinnustundir hjá umsækjanda sem hefur 100 % bótarétt leiði til missis bóta í einn dag, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fái maður vinnu í fleiri en tvo daga samfellt, skal hann missa bætur í jafnmarga daga. Ef starfshlutfall er lægra en bótahlutfall skal þó fara eftir reiknireglu 1. mgr.

 

9. gr.

Endurútreikningur bótaréttar.

Mæti maður sem ákvarðaðar hafa verið bætur ekki til skráningar hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila samtals í 4 vikur eða lengur, á hverju 12 mánaða tímabili innan bótatímabils, sbr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, án þess að ákvæði laganna um geymdan bótarétt eigi við, skal litið svo á að upphafleg ákvörðun úthlutunarnefndar um bótahlutfall hans sé úr gildi fallin.

Sæki hann um atvinnuleysisbætur að nýju skal úthlutunarnefnd ákvarða honum nýtt bótahlutfall, samkvæmt 4. tl. 2. gr., sbr. og 4. mgr. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þetta ákvæði á ekki við ef annað leiðir af samningi um starfsleitaráætlun sem gerður hefur verið samkvæmt 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 13/1997.

 

V. KAFLI

Bætur vegna gjaldþrota fyrirtækja.

10. gr.

Gjaldþrot vinnuveitanda.

Hafi vinnuveitandi verið úrskurðaður gjaldþrota og launamaður vill nýta rétt sinn til greiðslu samkvæmt 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal hann leggja fram afrit kröfulýsingar sinnar í þrotabú vinnuveitandans með áritun skiptastjóra um móttöku, auk skriflegs framsals á sömu kröfu til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Fái hann greiðslu samkvæmt þessari heimild skal það tímabil sem hann fær greitt fyrir ekki teljast hluti bótatímabils, sbr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Maður sem óskar greiðslu samkvæmt 1. mgr. skal uppfylla öll almenn skilyrði bótaréttar, þ. á m. um skráningu hjá svæðisvinnumiðlun.

Þegar Atvinnuleysistryggingasjóður innleysir kröfu samkvæmt 1. mgr. greiðir sjóðurinn ekki 6 % framlag í lífeyrissjóð, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

VI. KAFLI

Styrkir vegna búferlaflutninga.

11. gr.

Skilyrði.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrki til þess að aðstoða atvinnulausa við búferlaflutninga innanlands vegna atvinnutilboða, sbr. 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

a.             Umsækjandi um styrk sé án atvinnu og uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

b.             Umsækjanda hafi sannanlega boðist vinna fjarri heimili sínu.

c.             Ætla megi að um framtíðarstarf verði að ræða. Ef um tímabundna ráðningu er að ræða er skilyrði að hún sé ekki til skemmri tíma en 6 mánaða.

 

12. gr.

Upphæðir.

Styrkir Atvinnuleysistryggingasjóðs geta náð bæði til flutnings á fólki og búslóð.

a.             Einstaklingur getur fengið styrk sem svarar 75 % af kostnaði við flutning milli staða, þó að hámarki kr. 30.000.

b.             Fjölskylda, tveggja til fjögurra manna, getur fengið styrk sem svarar 75 % af kostnaði við flutning milli staða, þó að hámarki kr. 50.000.

c.             Fjölskylda, fimm manns eða stærri, getur fengið styrk sem svarar 75 % af kostnaði við flutning á milli staða, þó að hámarki kr. 60.000.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að breyta framangreindum upphæðum ef breytingar verða á flutningskostnaði og fargjöldum innanlands. Breytingarnar skulu staðfestar af félagsmálaráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

 

13. gr.

Umsókn.

Með umsókn um styrk skal fylgja bótasaga viðkomandi, skrifleg staðfesting frá vinnuveitanda um ráðningu umsækjanda og reikningar vegna fargjalds og flutnings búslóðar.

Styrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs skal vera greiðsla á þegar útlögðum kostnaði umsækjanda.

 

VII. KAFLI

Endurkrafa.

14. gr.

Heimild til skuldajöfnuðar.

Nú á Atvinnuleysistryggingasjóður útistandandi kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta þá heimilt að nota þá kröfu til skuldajöfnunar á móti atvinnuleysisbótum að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt. Skulu þá bætur fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd.

 

15. gr.

Tilkynning um meint brot á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Ef ábending kemur fram um meint brot á lögum um atvinnuleysistryggingar eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skulu þeir sem fá slíkar upplýsingar, svo sem starfsmenn svæðisvinnumiðlana, einstakir skráningaraðilar, starfsmenn úthlutunarnefnda eða nefndarmenn í úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta, koma þeim upplýsingum á framfæri við úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta.

 

 

16. gr.

Innheimta viðurlagaákvörðunar.

Vinnumálastofnun annast innheimtu kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í umboði stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.

 

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

17. gr.

Sönnun þess að umsækjandi hafi verið í tryggingaskyldri vinnu.

Komi í ljós við meðferð umsóknar um atvinnuleysisbætur að vinnuveitandi hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum af launum umsækjanda skal ákvörðun um bótarétt hans frestað. Skal umsækjandi eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því marki sem hann færir sönnur á með framlagningu launaseðla að launagreiðandi hafi haldið opinberum gjöldum eftir af launum hans á viðmiðunartímabili, sbr. 4. tl. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Umsækjandi eða svæðisvinnumiðlun skal í þessu skyni afla staðfestingar um að launaseðlar sem þannig eru tilkomnir hafi verið mótteknir af skattstofu.

 

18. gr.

Réttur til bóta í uppsagnarfresti.

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem á kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur vinnuveitanda sem ekki hefur verið úrskurðaður gjaldþrota á ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en uppsagnarfrestur er liðinn.

 

IX. KAFLI

Gildistaka

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi I. og II. kafli reglugerðar nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 27. ágúst 1997.

 

Páll Pétursson.

Elín Blöndal.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica