1. gr.
18. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:
Undanþága.
Þegar sýnt hefur verið fram á með fullnægjandi hætti að mati Vinnueftirlits ríkisins að ástand einstakra efna, sem er að finna í starfsstöðinni eða einhverjum hluta hennar, fullnægi að minnsta kosti einu af almennum viðmiðunum í IV. viðauka reglugerðar þessarar er heimilt að einskorða upplýsingar, sem krafist er í öryggisskýrslum, við atriði sem lúta að vörnum gegn þeirri stórslysahættu sem eftir stendur og að draga úr afleiðingum hennar fyrir fólk og umhverfi.
2. gr.
Við reglugerðina bætist IV. viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
IV. VIÐAUKI
Samræmdar viðmiðanir fyrir undanþágur skv. 18. gr. reglugerðar þessarar.
Heimilt er að veita undanþágu skv. 18. gr. reglugerðar þessarar þegar að minnsta kosti einni af eftirtöldum almennum viðmiðunum er fullnægt að mati Vinnueftirlits ríkisins:
1. Eðlisástand efnis.
Efni í föstu formi þannig að þau geti hvorki gefið frá sér efni né orku sem gæti leitt til stórslysahættu, hvort sem um er að ræða eðlilegar kringumstæður eða óvenjulegar aðstæður sem skynsamlegt er að ætla að hefði mátt sjá fyrir.
2. Einangrun og magn.
Efni sem búið er um eða sem er einangrað með þeim hætti og í því magni að mesta mögulega losun getur undir engum kringumstæðum valdið stórslysahættu.
3. Staðsetning og magn.
Efni sem eru nægjanlega langt frá öðrum hættulegum efnum (í starfsstöðinni eða annars staðar) og eru ekki í meira magni en svo að þau skapi ekki hættu á stórslysi ein og sér né þegar önnur hættuleg efni eiga í hlut.
4. Flokkun.
Efni sem eru skilgreind sem hættuleg efni á grundvelli almennrar flokkunar í 2. hluta I. viðauka reglugerðar þessarar og því á almenna flokkunin ekki við í þessu tilliti.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 51. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og samráðsnefndar um stórslysavarnir í iðnaði til innleiðingar á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 98/433/EB, um samræmdar viðmiðanir fyrir undanþágur skv. 9. gr. tilskipunar ráðsins nr. 96/82/EB, um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna, og öðlast þegar gildi.
Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 6. janúar 2009.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Bjarnheiður Gautadóttir.