473/2001
Reglugerð um námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara. - Brottfallin
Felld brott með:
Breytingareglugerðir:
1. gr.
Prófnefnd þriggja manna sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, annast námskeið og próf til viðkenningar bókara. Prófnefnd er heimilt að fela öðrum að annast námskeið og próf samkvæmt reglugerð þessari.
2. gr.
Námskeið og próf skulu að jafnaði haldin einu sinni ár hvert og skal auglýsa þau með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara.
3. gr.
Prófnefnd tekur ákvörðun um prófsefni það sem prófað er úr. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta, I hluta, reikningshald, II. hluta, skattskil, og III. hluta, upplýsingamiðlun og upplýsingakerfi. Miða skal við að kennsla í hverjum hluta verði 30 klst. Að loknum námskeiðum skal halda próf úr öllum hlutunum. Kennslugreinar eru þessar og skiptast þannig á milli námskeiðshluta:
I. |
hluti |
|
Grundvallarreglur reikningsskila. |
|
Lög og reikningsskilavenjur. |
|
Reikningsskilagerð. |
|
|
II. |
hluti |
|
Lög og reglur. |
|
Samskipti við skattyfirvöld. |
|
Úrskurðir, dómar og álit. |
|
|
III. |
hluti |
|
Rafræn skattskil einstaklinga og lögaðila. |
|
Öryggismál í netkerfum. |
|
Áhrif upplýsingatækninnar á reikningshaldskerfi. |
|
Reikningshaldslegt innra eftirlit í viðskiptaferlum. |
4. gr.
Próf skulu að jafnaði vera skrifleg. Við skrifleg og raunhæf verkefni skal prófmaður hafa a.m.k. 2 klst. til þess að vinna að úrlausn sinni.
5. gr.
Umsjónarmaður námskeiðshluta getur ákveðið að leggja raunhæf verkefni sem tengjast námskeiðshluta fyrir þátttakendur í námskeiðinu. Er honum heimilt að ákveða að vægi þeirra í heildareinkunn hverrar námsgreinar sé allt að 50%. Umsjónarmaður skal gera grein fyrir vægi raunhæfra verkefna í hverri námsgrein í upphafi hvers námskeiðs.
6. gr.
Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum.
Við mat á úrlausnum skal gefin einkunn fyrir hverja prófgrein.
Einkunnir skulu gefnar í heilum eða heilum og hálfum tölum frá 0-10. Til þess að standast fullnaðarpróf þarf prófmaður að hljóta a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn úr öllum prófgreinum. Lágmarkseinkunn til að standast próf er 5,0 í hverri prófgrein. Ef prófmaður nær ekki tilskilinni lágmarkseinkunn er honum heimilt að þreyta próf að nýju þegar próf eru haldin skv. 2. gr. Þegar prófmaður skráir sig í endurtekningarpróf skal hann greiða prófgjald.
Einkunnir skulu birtar prófmönnum innan 45 daga frá því að prófum lýkur.
Prófmaður á rétt á því að skoða prófúrlausn sína og eftir atvikum skjóta mati leiðbeinanda til prófdómara innan fimmtán daga frá birtingu einkunna. Mat prófdómara á úrlausn er endanlegt.
Prófnefnd skal afhenda þeim prófmönnum sem standast próf skírteini því til staðfestingar.
7. gr.
Til að standa straum af kostnaði við námskeið og próf samkvæmt reglugerð þessari skulu þátttakendur greiða gjald um leið og skráning fer fram. Miða skal við að tekjur af gjaldinu standi undir kostnaði við námskeið og próf. Fjárhæð gjaldsins skal koma fram í auglýsingu, sbr. 2. gr.
Gjald skv. 1. mgr. er endurkræft ef af námskeiði verður ekki eða ef sá er skráð hefur sig á námskeið, fellur frá þátttöku 30 dögum áður en námskeiðið hefst eða sérstakar ástæður mæla með endurgreiðslu.
8. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 43. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 668/1999, um námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara.
Fjármálaráðuneytinu, 14. júní 2001.
Geir H. Haarde.
Baldur Guðlaugsson.