Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

626/2006

Reglugerð um meðhöndlun tilkynninga um ætlað peningaþvætti. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið o.fl.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um móttöku tilkynninga, greiningu og miðlun upplýsinga hjá lögreglu um hugsanlegt peningaþvætti, sbr. ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64, 14. júní 2006.

2. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Peningaþvættisskrifstofa: Sú eining innan efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra þar sem móttaka og meðhöndlun tilkynninga um grunsamlega viðskiptahætti fer fram samkvæmt 17. og 18. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  2. PT-grunnur: Sérstæður gagnagrunnur peningaþvættisskrifstofu þar sem tilkynningar um grunsamleg viðskipti eru skrásettar og greindar.
  3. Könnun: Gagnaöflun og athugun til að staðfesta eða eyða óvissu um að viðskipti hafi tengsl við ólögmætt athæfi eða hafi önnur tengsl við háttsemi sem varða kann við almenn hegningarlög.

3. gr.
Þagnarskylda.

Sérhver starfsmaður lögreglu sem vinnur að könnun samkvæmt reglugerð þessari er bundinn þagnarskyldu samkvæmt ákvæðum lögreglulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um þá vitneskju sem hann fær vegna tilkynninga og kannana á þeim.

4. gr.
Skráning og skjalasafn.

Allar tilkynningar um grunsamleg viðskipti skal skrá rafrænt í PT-grunninn. Ákvæðið gildir einnig um viðbótarupplýsingar við tilkynningar sem skráðar hafa verið.

Peningaþvættisskrifstofa skal hafa sérstakt faxnúmer og skal faxtækið staðsett í læstri skráargeymslu. Ef tilkynningar eða viðbótarupplýsingar berast á stafrænu formi eða sem fax eða bréf skal setja þær í málsmöppu. Öll skjöl sem og stafræn gögn skal geyma í málsmöppum. Málsmöppur skulu geymdar í læstri skráargeymslu.

Einungis starfsmenn efnahagsbrotadeildar sem vinna við móttöku og könnun tilkynninga geta fengið les- og skrifaðgang að PT-grunninum. Aðgang að grunni gefur yfirmaður efnahagsbrotadeildar skriflega.

Aðgang að skráargeymslu hefur yfirmaður efnahagsbrotadeildar og starfsmenn peninga­þvættis­skrif­stofu.

II. KAFLI
Meðhöndlun tilkynninga vegna grunsemda um peningaþvætti.

5. gr.
Áframsending tilkynninga.

Tilkynningar um grunsamleg viðskipti sendast til peningaþvættisskrifstofu sem bréf, fax, rafrænt eða stafrænt (diskettur eða geisladiskar).

6. gr.
Skráning tilkynninga og forkönnun.

Tilkynningar um grunsamleg viðskipti skal skrá í PT-grunninn eins fljótt og auðið er.

Skrá skal meðal annars eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn á tilkynningaraðila,
  2. nafn á hagsmunaaðilum og/eða fyrirtæki,
  3. eðli viðskipta og umfang og
  4. ástæðu þess að tilkynnandi telur að viðskipti kunni að tengjast refsiverðri háttsemi eða kunni að vera afrakstur slíks.

7.gr.
Könnun.

Á grundvelli tilkynningar og eftir atvikum upplýsingaöflunar skal fara fram könnun sem verður grundvöllur ákvörðunar samkvæmt 8. gr.

8. gr.
Ákvörðun.

Könnun samkvæmt 7. gr. getur leitt til eftirfarandi:

  1. að tilkynningu um grunsamleg viðskipti er eytt,
  2. að tilkynning er skrásett sem rannsóknarupplýsingar í upplýsingakerfi lögreglu, og skal ákvörðun um það rökstudd skriflega,
  3. að ákvörðun er tekin um að hefja lögreglurannsókn,
  4. að viðskipti verða ekki framkvæmd, sbr. 10. gr.

Ákvörðun samkvæmt 1. eða 2. tölulið tekur rannsakandi, en ákvörðun samkvæmt 3. eða 4. tölulið tekur ákæruvaldshafi. Ákvörðun skal tekin svo fljótt sem auðið er.

9. gr.
Upphaf lögreglurannsóknar.

Þegar rannsókn er hafin í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 8. gr., eða málið hefur verið sent annarri deild lögreglu skal rann­sóknar­lögreglu­maður gera lögreglu­skýrslu um málið.

10. gr.
Stöðvun millifærslu.

Ákæruvaldshafi getur þegar nauðsyn krefur gefið tilkynnanda fyrirmæli um að viðskipti, sem tilkynnt hefur verið um skv. 17. og 18. gr. laga um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skuli ekki framkvæmd, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Við ákvörðun skal taka tillit til þess hvort ástæða sé til að ætla að fjármunum verði spillt eða komið undan.

Nú eru viðskipti stöðvuð, sbr. 1. mgr., og skal þá peningaþvættisskrifstofa flýta rannsókn til að stöðvun viðskipta vari ekki lengur en nauðsyn krefur og ávallt innan þess frests sem tilgreindur er í tilkynningu. Þetta gildir þó ekki ákveði ákæruvaldshafi að hefja rannsókn og sem lið í henni, haldleggi fjármuni eða geri aðrar ráðstafanir í samræmi við heimildir í lögum um meðferð opinberra mála.

11. gr.
Skráning og notkun upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir lögreglumálefni.

Nú eru upplýsingar sem peningaþvættisskrifstofa móttekur í tengslum við tilkynningu um grunsamlega viðskiptahætti mikilvægar lögreglurannsóknarupplýsingar og skal þá skrásetja slíkar upplýsingar í landskerfi lögreglunnar. Skráning upplýsinga skal vera með þeim hætti að hún beri ekki með sér hver tilkynnandi er og á hvers vegum viðkomandi starfar.

12. gr.
Upplýsingagjöf til tilkynnanda.

Þeim er tilkynnir skal strax send skrifleg staðfesting um móttöku tilkynningarinnar.

Þegar peningaþvættisskrifstofa hefur tekið ákvörðun skv. 8. gr. skal tilkynnanda tilkynnt skriflega um ákvörðunina, nema hann hafi tekið fram að slík upplýsingagjöf sé ónauðsynleg. Gera skal tilkynnanda grein fyrir niðurstöðu máls ef tilkynningin hefur leitt til sakamáls.

Tilkynnanda skal tilkynnt þegar tilkynningu hefur verið eytt á grundvelli 2. mgr. 14. gr.

13. gr.
Varðveisla og miðlun upplýsinga.

Peningaþvættisskrifstofa skal varðveita og birta árlega upplýsingar um fjölda tilkynninga um grunsamleg viðskipti, hvernig tilkynningum er fylgt eftir, fjölda tilvika sem rannsakaður er, fjölda einstaklinga sem eru saksóttir eða dæmdir fyrir peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, verðmæti og tegund eigna sem hafa verið kyrrsettar eða lagt hald á á grundvelli laga um meðferð opinberra mála eða gerðar upptækar á grundvelli almennra hegningarlaga.

Peningaþvættisskrifstofa skal miðla nýjustu upplýsingum um aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til tilkynningarskyldra aðila og hvernig unnt sé að greina viðskipti sem falla undir ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

III. KAFLI
Eyðing tilkynninga um grunsamleg viðskipti.

14. gr.
Eyðing gagna.

Nú eyðir könnun samkvæmt 7. gr. grun um tengsl við ólögmætt athæfi, og skal þá eyða öllum upplýsingum um málið sem skráðar hafa verið í PT-grunninn.

Nú er ekki svo ástatt, sem í 1. mgr. greinir, og skal þá eyða upplýsingum innan 7 ára frá því að upplýsingar voru skráðar í PT-grunninn, nema nýjar upplýsingar hafi verið skráðar eða byrjuð hafi verið lögreglurannsókn sem beinist gegn einstaklingum eða lögaðila sem tilkynningin varðar.

IV. KAFLI
Gildistaka.

15. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 19. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64, 14. júní 2006, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 12. júlí 2006.

Björn Bjarnason.

Ragna Árnadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica